Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Föstudagur 16. apríl 2010 - Að sulla í hveiti

Í fyrsta skipti á ævinni komst dóttirin, í kvöld, með hendurnar í hveiti ... og leiddist það ekki ...

Á þessari mynd sé mjög vel hversu börnin læra vel það sem fyrir þeim er haft ... þetta er dóttir KISS-aðdáandans að hluta á KISS ...


Miðvikudagur 14. apríl 2010 - Að gjósa

Ekki minnkuðu lætin í dag ... blaða- og fréttamenn verða sjálfsagt ekki atvinnulausir þegar svona árar.
Samkvæmt www.dv.is segist Lára sjáandi sjá eitthvað miklu meira í vændum í eldgosahrinunni.
Nafni minn Einarsson jarðfræðingur tekur í sama streng þó hann byggi upplýsingar sínar á öðrum viðmiðunum en Lára.  Nefnir nafni Upptyppinga og Grímsvötn til sögunnar ...

... bara svona til að halda því til haga þá eru Upptyppingar, skv. Google Earth, í innan við 25 km fjarlægð í beinni loftlínu frá hinni "rómuðu" Kárahnjúkavirkjun.  Ég veit ekkert hvað það þýðir, en held því bara svona til haga eins og áður segir ... ;)

Yrði það ekki síðasti naglinn í kistu fyrrum stjórnvalda, ef virkjunin færi nú af stað ... væri þá ekki síðasti bautasteinninn hruninn?!  Myndi Valgerður mæta aftur í Kastljósið þá og fara yfir aðdraganda ákvörðunar um virkjunina?  Ætli sú ákvörðun hafi ekki verið svona álíka fagleg og bankaákvörðunin?

Gleymum því ekki að virkjunin er byggð á misgengi og einhvern tímann var mér sagt, sel það ekki dýrar en ég keypti, að meiningin hefði verið á sínum tíma að fylla upp í sprungurnar með steypu.  Við það var snarlega hætt, þegar menn horfðu á steypuna úr hverjum steypubílnum á fætur öðrum, hverfa ofan í hyldýpið.

Að auki segir Haraldur eldfjallafræðingur að gos í Kötlu sé síður en svo ólíklegt ... þannig að ...

---

Gaman að horfa á umræðurnar í Kastljósinu í kvöld ... aldrei þessu vant hélt Sigmundur Davíð sér að mestu til hlés enda sjálfsagt best fyrir hann að segja sem minnst.  Þar beitti hann þeirri rökhugsun, sem hann sjálfur hefur talað svo mikið fyrir, án þess að nota hana svo mikið.  Hann fær því prik fyrir frammistöðuna í kvöld ...

Bjarni Benediktsson hefði mátt taka sér Sigmund Davíð til fyrirmyndar að því leyti að halda sér saman ... í stað þess að vera hvað eftir annað að gjósa upp með endalausu málæði sem enginn nennir að hlusta á ...

... það er nú bara tímaspursmál hvenær hann verður látinn hætta ...  

---

Annars góður dagur hér í Uppsala ... vann hluta dags að umsókn til Pokasjóðs vegna verkefnis á Landspítalanum.  Fróðlegt að sjá hvað kemur úr því ...

Undirbúningur að rannsókn nr. tvö er í hámarki ... ég stefni á að starta þeirri rannsókn eins fljótt og kostur er ...

---

Annað heimilisfólk er í góðum gír ... en fréttir af þeim verða að bíða betri tíma, þar sem póltískt mat og skoðanir mínar, auk eldgosafrétta tókum of stóran hluta þessarar bloggfærslu.


Þriðjudagur 13. apríl 2010 - Að geta ekki viðurkennt mistök

Mikið hljóta fylgismenn Valgerðar Sverrisdóttur að vera ánægðir núna, eftir að upp kemst hvernig einkavæðingu bankanna var háttað ...

... og það var aumkunarvert að horfa á hana neita að viðurkenna mistök og skorast undan ábyrgð á verkum sínum í Kastljósinu í kvöld ... verst að Helgi félagi Seljan skyldi ekki fylgja málum betur eftir þegar kerlingin var komin niður á hnéin í þættinum.

Það var líka slæmt að Kárahnjúkavirkjun skyldi ekki komast að í þættinum, en víst má telja að einhver maðkur hafi verið í mysunni, þegar sú snargalna ákvörðun var tekin ...

Ég hef alltaf haft megnustu óbeit á þessari kerlingu ... alltaf fundist hún vera spillingin holdi klædd ...
... enda var hún fljót að láta sig hverfa af hinu pólitíska sviði, þegar tók að harðna á dalnum ... og hefur látið lítið fara fyrir sér síðan.

Ég verð samt að gefa henni prik fyrir að mæta í Kastljósið í kvöld, hafandi þennan ömurlega málstað að verja ... en sjálfsagt er illu best af lokið ... 

---

En maður veltir fyrir sér ... hvers vegna í fjandanum er enginn nægjanlega stórmannlegur í hugsun að geta viðurkennt mistök sín?!?  Sérstaklega þegar þau blasa jafnrækilega við og raun ber vitni?!?

---

Héðan frá Uppsala er allt gott að frétta ... Guddan dálítið örg í dag framan af degi, en tók svo þriggja klukkustunda svefn og skein eins og sól í heiði eftir það.

Í kvöld skruppum við út í göngutúr um nágrennið, Houdini lék á alls oddi, enda má víst telja að hún hafi verið eina barnið yngra en 2ja ára sem enn var vakandi í landinu ... allavegana eina barnið á þessum aldri sem var úti í göngutúr sér til hressingar og yndisauka.

Að göslast út á svölunum er í miklu uppáhaldi þessi dægrin ... að fara inn og út um svaladyrnar er minnsta mál í heimi en þess má geta að stofugólfið og svalagólfið er ekki í sama plani, heldur verður að stíga niður þegar farið er út á svalir ...

Sydney vill gjarnan vera berfætt úti á svölum en "berrössun" er samt það albesta ...

---

Sjálfur hef ég tekið þann pól í hæðina að standa við vinnu mína ... tölvuskjárinn minn er kominn upp á stóran pappakassa þannig að hann sé í hæfilegri hæð þegar ég stend.  Eftir daginn er skrokkurinn á mér allur annar, miklu fimari og liprari en þekkst hefur um langa hríð.

Niðurstaðan er því sú að of mikil seta á stól, sé í sama gæðaflokki og of mikil kókdrykkja ... sum sé hreinn viðbjóður!

---

Nú fer hreyfingarátakið að fara í gang aftur ... tognun sem ég ýfði upp á sunnudaginn hefur gengið til baka að miklu leyti, þannig að ég fer út að hlaupa á morgun ...


Mánudagur 12. apríl 2010 - Skýrslan

Í dag hefur eitt mál verið í algjörum forgangi ... og það mál er rannsóknarskýrsla Alþingis ...

Og hvað er hægt að segja um hana?!?! 

Ja, hérna!

Bullið og ruglið hefur verið með hreinum ólíkindum ... og allir sungu með ...

Sjálfur er ég ekki saklaus ... keypti eins og ég mögulega gat í peningamarkaðssjóðum Landsbankans til að tryggja mér bestu ávöxtunina og fór í söngferð með Raddbandafélagi Reykjavíkur til Búlgaríu árið 2004, sem Björgólfarnir styrktu ...

Á meira að segja í fórum mínum ferðasögu úr ferðinni ... sem ég reyndar finn ekki núna í tölvunni minni.

Það "mesta og besta" í þessu öllu saman, var þó það að ég taldi allt fram á síðasta dag, að Björgólfarnir væru heiðarlegir menn.  Ég taldi að Landsbankinn væri best rekni bankinn á Íslandi fyrir hrun ... ég hélt í alvörunni að þegar Björgólfur Thor var að hitta ráðamenn í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu skömmu fyrir hrunið, væri verið að ræða hvernig Landsbankinn ásamt fleirum myndu koma með innspýtingu í hagkerfið ...

Mér fannst upprisa Björgólfanna á sínum tíma virðingarverð og mér fannst virðingarvert hvað sá eldri setti mikinn pening í menningu og listir ... og svo var karlinn alltaf svo flottur í tauinu, í litríkum skyrtum og með óaðfinnanlegan bindishnút ...

12. apríl árið 2010 er ömurlega asnalegt að skrifa þetta ...

Það sem ég get sagt mér til varnar í þessu máli er að mér leist aldrei vel á uppkaup þeirra á miðbænum í Reykjavík ... og hvernig stefndi í að arkitektúr og skipulag miðbæjarins myndi lúta geðþóttaákvörðunum nokkurra auðmanna ...
Ég velti líka oft fyrir mér á þessum tíma hvar þetta myndi eiginlega enda ...

... Björgólfarnir að kaupa upp Reykjavík, auðmenn að kaupa upp jarðir út um allt land fljúgandi um í þyrlum, virkjanabrjálæðið algjört, kvótinn og fiskurinn í sjónum í tómu rugli, Elton John, Tom Jones, Duran Duran, 50 cent o.s.frv. o.s.frv.

Það var í rauninni ekkert eftir nema að skrifa "Coca Cola" á tunglið, eins og Zorglúbb gerði eftirminnilega í þekktri sögu um Sval og Val ... "Z fyrir Zorglúbb" (13. hefti). 

---

Þótt margir eigi um sárt að binda vegna þessa falls bankanna, þá er það mín skoðun að fallið hafi verið mesta gæfa Íslands ...

---

Í dag var um mjög fróðlegan dag að ræða ... fróðlegt að heyra í nefndarmönnum, sem voru að mínu mati mjög skýrir í tali og áheyrilegir.

Þetta var mikið þrekvirki að koma skýrslunni saman og það má segja að þó margt hafi farið úrskeiðis hjá ríkisstjórn Geirs Haarde, þá gerði hún vel þegar þessari nefnd var komið á laggirnar ...


Sunnudagur 11. apríl 2010 - Að mála er gaman

Fínn dagur í dag ...

... sem reyndar lauk með því að ég ýfði aðeins upp tognunina frá því síðustu helgi með því að fara í fótbolta í kvöld.  Alveg í blálokin tókst mér að teygja fótinn aðeins meira en æskilegt var og ballið var búið á svipstundu ...

... nú er bara að kæla stöffið niður og gera sig kláran fyrir næsta sunnudag ...

Fékk að vita í kvöld að ef maður stendur við vinnuna í stað þess að sitja, þá geti það gert kraftaverk ... ég ætla að spá í að gera eitthvað í því.

---

Eyddi seinnipartinum í að mála ... tókst ekki að ljúka við stórvirkið, en það sem komið er líst mér bara ágætlega á ... þetta er 4. akrýlmyndin sem ég geri hér í Uppsala og sú 6. á ævinni ...


Hér er myndin ... efri hluti myndarinnar er nokkuð langt kominn en sá neðri
er bara rétt nýhafinn.  Stefnan er að mála vatn eða vatnsfall þar sem þetta
bláa er, en vandinn er að ég hef ekki hugmynd um hvernig maður málar slíkt.
En ég mun finna út úr því ...

... það er reyndar alveg þrælgaman að mála, hvort sem það eru akrýllitir eða vatnslitir ...

---

Í morgun fengum við Lauga fólk heimsókn ... það var Matilda samstarfskona Laugu á sjúkrahúsinu og hennar slekti sem hingað mætti og úr varð ágætis fagnaður.

---

Fyrsti alvöru vordagurinn í dag ... vor í lofti hér í Uppsala  og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður birt á morgun.

Tja ... hvað getur maður sagt?!?


Laugardagur 10. apríl 2010 - Síðustu ferðirnar

Náði góðum áföngum í dag ... annars vegar stefnir í að ég fái aðstoðina sem mig vantar til að búa til sýndarveruleikann minn og hins vegar lauk ég við að þýða stóran glærupakka ...

... einnig virðist vera að komast hreyfing á vísindagreinina sem ég var að rita í upphafi árs, en hún hefur legið í nokkrar vikur hjá leiðbeinanda mínum og beðið yfirlestrar ...

Þá pantaði ég mér hótelgistingu í Leipzig en þangað fer ég í sumar, þar sem ég verð með erindi á ráðstefnunni IAPS 2010, en þess má geta að IAPS-ráðstefnurnar eru stærsta ráðstefnurnar sem haldnar á sviði umhverfissálfræði og fara fram annað hvert ár.

---

Við skruppum í dag í góðan hjóla- og göngutúr.  Ætluðum t.d. að fara að skoða tónlistar- og ráðstefnuhúsið hér í Uppsala ... erum búin að hafa 52 vikur til þess, en einmitt í dag var húsið lokað vegna einhverra hátíðarhalda og er ég viss um þetta er í fyrsta skiptið "ever" sem slíkt á sér stað.

Við skruppum þá niður að tjörn og í Stadsträdgården, þar sem ungfrú Sydney lék listir sínar ásamt undirrituðum ... í skítakulda ...

---

Á mánudaginn verður ný brautarstöð vígð hér í Uppsala ... mikið um dýrðir þar ... persónulega er ég þó meira spenntur fyrir rannsóknarskýrslunni ...

En jæja ... samfara nýrri stöð verður auðvitað gamla brautarstöðin lögð niður og þar með leggst líka af eitt af því sem mér finnst hvað mest sjarmerandi við Uppsala, en það er nefnilega það að þurfa að ganga yfir brautarteinana til að komast milli borgarhluta.


Að baki gömlu brautarstöðvarinnar.  
Beðið eftir að gönguleiðin yfir teinana opni aftur eftir að lest frá Falun renndi í hlað.
Þetta var sum sé næstsíðasta ferðin okkar yfir þessa teina ...


Þessi leið hverfur og þarna er meira að segja búið að taka upp annað lestarsporið ...
... eins og ég segi, það tapast milli sjarmi með þessum ráðagerðum ...

Í stað gönguleiðar yfir teinanna er búið að byggja undirgöng, sem verða tekin í gagnið á morgun 11. apríl.

---

Mjög raunarlegt að heyra af flugslysinu í Rússlandi í morgun, þar sem stór hluti æðstu ráðamanna Póllands þurrkuðust út á augabragði ...

Það sem mér þótti samt sérstaklega merkilegt var að ég var tiltölulega nýbúinn að lesa þessa bloggfærslu Eiríks Jónssonar á dv.is þegar fréttin barst af slysinu ...

Ég hef aldrei neitt pælt í forseta Póllands, ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét ... en ég sá myndina af bræðrunum í blogginu og hún vakti athygli mína fyrir einhverja hluta sakir ... og búmm ... viku síðar er karlinn allur ...

Þetta er kannski ekkert merkilegt ... en mér finnst það samt ...


Föstudagur 9. apríl 2010 - Að hugsa

Þetta er búið að vera mjög "effektífur" dagur í dag ... mikið búið að lesa, skrifa og pæla ...

Klukkan samt eiginlega orðin of margt til að ræða í einhverjum smáatriðum hvaða pælingar voru í gangi ...

Tek frekar upp léttara hjal ...

---

Fröken Sydney fékk sér klippingu í baði í kvöld ... er þetta ekki það sem kallað er súpuskálarklipping?  Minnir að Stebbi bróðir kalli þetta reyndar Prins Valiant-klippingu?!?

Klippingin minnir nokkuð á klippingu skærustu stjörnu heimsins í dag ... hinum tævaníska Lin-Yu Chun, sem söng "I will always love you" af stakri snilld í sjónvarpinu á dögunum.
Þeir, fáu sem ekki hafa heyrst minnst á Chun ættu að smella hérna.

---

Annars las ég ágæta grein eftir Sigurð Erlingsson sem birtist á www.mbl.is í dag fjallaði um sjálfstraust og það hvernig endalaust raus og neikvæðni brjóta sjálfstraust barna niður ...

... ég hef áður skrifað um það á þessu bloggi hvað mér finnst um það nagg sem mörg börn þurfa að búa við alla sína æsku ... og skil ekki hvernig nokkurt foreldri getur fengið þá niðurstöðu að það stuðli að farsæld afkvæma sinna að tuða signt og heilagt í þeim ...

---

Annars erum við Lauga að koma okkur upp góðum vana ... og felst hann í því að verja saman um 30 mínútum á hverju kvöldi, þar sem við teygjum á og um leið ræðum daginn. 
Hvoru okkar er uppálagt að draga fram fimm jákvæð atriði sem áttu sér stað þá um daginn ... segja stuttlega frá þeim, af hverju þau skiptu máli og hvað verður gert í framhaldinu ...

... þetta er mjög áhugavert og gefandi að ræða þetta ... og jafnvel dálítið krefjandi, en með þessu móti gerist tvennt.
1. Það fæst yfirlit yfir hvað verið er að gera og hugsa.
2. Dagurinn endar á jákvæðum nótum.

Hvet alla til að prófa þetta ...

---

Svo hef ég verið að taka mataræðið í gegn hjá mér ... og hef ákveðið að hætta bara alveg að drekka kók, allavegana í nokkra mánuði ... ætla frekar að drekka 7Up ef eitthvert gos verður á annað borð drukkið.
Kókið er bara svo hroðalega mikið eitur að það er illskiljanlegt að maður sé að svolgra því í sig ... algjörlega óbeðinn ...

Hreyfingarpakkinn fer svo að fara af stað, þegar hálsbólgan minnkar aðeins meira frá því sem nú er ... það er sum sé allt að gerast. 


Fimmtudagur 8. apríl 2010 - Að þroskast

Jæja, þá er mál til komið að ryðjast aftur fram á ritvöllinn, eftir smá frí ...

---

Við Lauga höfum verið að ræða það okkar á milli í gær og í dag hvað okkur finnst Guddan hafa tekið mikið stökk í þroska á síðustu vikum ... núna er hægt að tala við hana og hún skilur mikið af því sem sagt er.  Þar að auki getur hún tjáð sig nokkuð skýrt um það allra nauðsynlegasta ...

... hún segir "gekka" ef hún vill fá eitthvað að drekka, já er "umm" og "nei" er nei ... svo getur hún minnst á "bleyju" ef svo ber undir "úndi" eru rúsínur, "vínbe" er vínber eins og áður hefur komið fram, "djús" og "mjók" eru einhvers staðar þarna líka.  Svo ef eitthvað stórkostlegt er á seyði þá setur hún í brýnar og segir "úffff" ...

... t.d. þegar hún pissaði á gólfið í stofunni um daginn, kom hún mjög brúnaþung fram í eldhús og sagði mjög ákveðið "úffff ... "

--- 

Svo er hreint stórkostlegt að hlusta á þegar hún er að tala við okkur í alvarlegum tón ... segir náttúrulega ekki eitt einasta orð af viti, en ef hlustað er á hljómfallið í röddinni, má ljóst vera að henni er mikið niðri fyrir.

T.d. þegar hún fór út á svalir í fyrradag og sá þar að málningin er farin að flagna.  Mér var tilkynnt það með miklum þunga.  Ég sagði henni að ég væri búinn að vita það af þessu í rúmt ár, eða síðan við fluttum inn í íbúðina ... þakkaði henni samt fyrir.

Hún fór út aftur ... og það næsta sem ég vissi var að hún kom inn aftur ... ekki var tónninn léttari í þetta skiptið.  Hún var þá búin að plokka málninguna af veggnum og smakka á  henni ... sé tekið mið af frásagnarmátanum smakkaðist málningin ekkert sérlega vel ... geysilegur áhersluþungi í röddinni ...

---

Þá er sænskan aðeins farin að setjast líka ... "Det er voffi" segir hún og bendir á hund og ef hún er spurð hvar hesturinn sé, svarar hún stundum "der" og bendir á hest í einhverri bók ...

Einhvern veginn er hreyfigetan líka meiri, miklu betri fínhreyfingar og allt það ... hún dansar og spilar af miklum móð, klifrar og hleypur ... og hoppar af krafti ...
Að þessu sögðu verður þó að koma fram að henni brást bogalistin í dag, þegar hún datt og fékk blóðnasir ...

---

Annars tókst síðuhaldara að togna aftan í lærinu í síðasta sunnudagsfótbolta og í kjölfarið fékk hann svo vænan skammt af hálsbólgu ... alveg leiftrandi fjör ...

... en hvort tveggja er þó að undanhaldi ...

---

Lauga vinnur hvern sigurinn á fætur öðrum í vinnunni þessa dagana ... er hreint að brillera þar ...

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband