Fimmtudagur 8. apríl 2010 - Að þroskast

Jæja, þá er mál til komið að ryðjast aftur fram á ritvöllinn, eftir smá frí ...

---

Við Lauga höfum verið að ræða það okkar á milli í gær og í dag hvað okkur finnst Guddan hafa tekið mikið stökk í þroska á síðustu vikum ... núna er hægt að tala við hana og hún skilur mikið af því sem sagt er.  Þar að auki getur hún tjáð sig nokkuð skýrt um það allra nauðsynlegasta ...

... hún segir "gekka" ef hún vill fá eitthvað að drekka, já er "umm" og "nei" er nei ... svo getur hún minnst á "bleyju" ef svo ber undir "úndi" eru rúsínur, "vínbe" er vínber eins og áður hefur komið fram, "djús" og "mjók" eru einhvers staðar þarna líka.  Svo ef eitthvað stórkostlegt er á seyði þá setur hún í brýnar og segir "úffff" ...

... t.d. þegar hún pissaði á gólfið í stofunni um daginn, kom hún mjög brúnaþung fram í eldhús og sagði mjög ákveðið "úffff ... "

--- 

Svo er hreint stórkostlegt að hlusta á þegar hún er að tala við okkur í alvarlegum tón ... segir náttúrulega ekki eitt einasta orð af viti, en ef hlustað er á hljómfallið í röddinni, má ljóst vera að henni er mikið niðri fyrir.

T.d. þegar hún fór út á svalir í fyrradag og sá þar að málningin er farin að flagna.  Mér var tilkynnt það með miklum þunga.  Ég sagði henni að ég væri búinn að vita það af þessu í rúmt ár, eða síðan við fluttum inn í íbúðina ... þakkaði henni samt fyrir.

Hún fór út aftur ... og það næsta sem ég vissi var að hún kom inn aftur ... ekki var tónninn léttari í þetta skiptið.  Hún var þá búin að plokka málninguna af veggnum og smakka á  henni ... sé tekið mið af frásagnarmátanum smakkaðist málningin ekkert sérlega vel ... geysilegur áhersluþungi í röddinni ...

---

Þá er sænskan aðeins farin að setjast líka ... "Det er voffi" segir hún og bendir á hund og ef hún er spurð hvar hesturinn sé, svarar hún stundum "der" og bendir á hest í einhverri bók ...

Einhvern veginn er hreyfigetan líka meiri, miklu betri fínhreyfingar og allt það ... hún dansar og spilar af miklum móð, klifrar og hleypur ... og hoppar af krafti ...
Að þessu sögðu verður þó að koma fram að henni brást bogalistin í dag, þegar hún datt og fékk blóðnasir ...

---

Annars tókst síðuhaldara að togna aftan í lærinu í síðasta sunnudagsfótbolta og í kjölfarið fékk hann svo vænan skammt af hálsbólgu ... alveg leiftrandi fjör ...

... en hvort tveggja er þó að undanhaldi ...

---

Lauga vinnur hvern sigurinn á fætur öðrum í vinnunni þessa dagana ... er hreint að brillera þar ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband