Laugardagur 10. apríl 2010 - Síðustu ferðirnar

Náði góðum áföngum í dag ... annars vegar stefnir í að ég fái aðstoðina sem mig vantar til að búa til sýndarveruleikann minn og hins vegar lauk ég við að þýða stóran glærupakka ...

... einnig virðist vera að komast hreyfing á vísindagreinina sem ég var að rita í upphafi árs, en hún hefur legið í nokkrar vikur hjá leiðbeinanda mínum og beðið yfirlestrar ...

Þá pantaði ég mér hótelgistingu í Leipzig en þangað fer ég í sumar, þar sem ég verð með erindi á ráðstefnunni IAPS 2010, en þess má geta að IAPS-ráðstefnurnar eru stærsta ráðstefnurnar sem haldnar á sviði umhverfissálfræði og fara fram annað hvert ár.

---

Við skruppum í dag í góðan hjóla- og göngutúr.  Ætluðum t.d. að fara að skoða tónlistar- og ráðstefnuhúsið hér í Uppsala ... erum búin að hafa 52 vikur til þess, en einmitt í dag var húsið lokað vegna einhverra hátíðarhalda og er ég viss um þetta er í fyrsta skiptið "ever" sem slíkt á sér stað.

Við skruppum þá niður að tjörn og í Stadsträdgården, þar sem ungfrú Sydney lék listir sínar ásamt undirrituðum ... í skítakulda ...

---

Á mánudaginn verður ný brautarstöð vígð hér í Uppsala ... mikið um dýrðir þar ... persónulega er ég þó meira spenntur fyrir rannsóknarskýrslunni ...

En jæja ... samfara nýrri stöð verður auðvitað gamla brautarstöðin lögð niður og þar með leggst líka af eitt af því sem mér finnst hvað mest sjarmerandi við Uppsala, en það er nefnilega það að þurfa að ganga yfir brautarteinana til að komast milli borgarhluta.


Að baki gömlu brautarstöðvarinnar.  
Beðið eftir að gönguleiðin yfir teinana opni aftur eftir að lest frá Falun renndi í hlað.
Þetta var sum sé næstsíðasta ferðin okkar yfir þessa teina ...


Þessi leið hverfur og þarna er meira að segja búið að taka upp annað lestarsporið ...
... eins og ég segi, það tapast milli sjarmi með þessum ráðagerðum ...

Í stað gönguleiðar yfir teinanna er búið að byggja undirgöng, sem verða tekin í gagnið á morgun 11. apríl.

---

Mjög raunarlegt að heyra af flugslysinu í Rússlandi í morgun, þar sem stór hluti æðstu ráðamanna Póllands þurrkuðust út á augabragði ...

Það sem mér þótti samt sérstaklega merkilegt var að ég var tiltölulega nýbúinn að lesa þessa bloggfærslu Eiríks Jónssonar á dv.is þegar fréttin barst af slysinu ...

Ég hef aldrei neitt pælt í forseta Póllands, ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét ... en ég sá myndina af bræðrunum í blogginu og hún vakti athygli mína fyrir einhverja hluta sakir ... og búmm ... viku síðar er karlinn allur ...

Þetta er kannski ekkert merkilegt ... en mér finnst það samt ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband