Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Sunnudagur 7. mars 2010

Fínn dagur að baki ...

... þurfti að vinna í mest allan dag, svona til þess að hafa í mig og á.

---

Setti saman nú í kvöld ofurlítið myndbrot af dótturinni þar sem hún sýnir listir sínar ... af þessum myndum af dæma virðist örla á rokkstjörnuhæfileikum.  Annars verður maður bara að sjá hvað setur í þeim efnum ...

... en það er gaman að fylgjast með þessu ...

---

Leyfði mér að horfa á Silfur Egils í dag ... það er örugglega öllum sama hvað mér finnst um það ...

... ég segi samt: "Þetta var fjörugur þáttur!"

---

Ég hvet alla til að hætta að hugsa um IceSave ... ég hugsa að það sé hollara að drekka hreinsilög heldur en að velta sé upp úr þessu.
Miklu betra að hugsa um einhvern sem skiptir mann máli og segja það svo við viðkomandi að hann/hún skipti mann máli ... og hann/hún sé snillingur ...

Allir að gera það ... og kvitta svo fyrir með "X"-i í athugasemdaboxið ... koma svo!!!

***************************
15. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Fótbolti í 60 mín ... fín keyrsla
***************************

*******
14. dagur í ekki-kók-drykkju

Of auðvelt!
*******


Laugardagur 6. mars 2010 - Afmælisdagur spúsunnar!!

Afmælisdagur spúsunnar!!

Þá er spúsan búin að bæta við sig einu ári í viðbót ... og ákvað að byrja 37. aldursárið á því að kynna sér neyðarmóttöku augndeildarinnar hér í Uppsala, en eftir nokkrar vikur fer hún að vinna á henni.

Við skruppum svo og fengum okkur kaffi með Örnu og Karvel í Gränby Centrum.  Sérstaklega skemmtilegt ... fyrstu drög lögð varðandi skíðaferð í Alpana, sem meiningin er að fara eftir um ár.  Það verður gaman!!

Í kvöld fengum við okkur svo pizzu og ákváðum að setja puttann á púlsinn með því að horfa á Melodifestivalen, en svo kallast undankeppni Eurovision hér í Svíþjóð.  Sigurvegarar kvöldsins voru þær stöllur Pernilla Wahlgren og Jessica Anderson og fara þær því í Globen í Stokkhólmi að keppa um að komast til Osló.  Ágætlega að sigrinum komnar, þó persónulega hefði ég viljað að Kalle Moraeus & Orsa Spelmän hefðu frekar unnið.

Svo voru sýndar myndir frá Íslandi í fréttunum í kvöld ... alltaf gaman að sjá myndir frá Íslandi, þó fréttirnar mættu svo sem vel vera jákvæðari en raun ber vitni.

---

En aðalmálið í dag er spúsan, þessi frábæri einstaklingur, sem á afmæli í dag!!

Tók mynd af þeim mæðgum fyrr í kvöld, sú stutta var á þeim tímapunkti orðin mjög þreytt en afmælisbarnið var í stuði ... þó svo rófubeinið væri aðeins að stríða ...

Síðuhaldari bauð upp á snilldarlausn fyrir afmælisbarnið, svo hún gæti horft verkjalaus á World Trade Center með Nicholas Cage í aðalhlutverki ;) .  Takið eftir púðaröðuninni ;) .


Föstudagur 5. mars 2010

Jæja, enn einn dagurinn hefur liðið við skriftir og pælingar ...

... raunar var stubburinn á heimilinu svolítið veikur í morgun og fór því ekki á leikskólann.  Því riðlast dagskrá dagsins umtalsvert.

 

***************************
13. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hljóp 4.2 km

Fer aftur út að hlaupa á morgun
****************************

*******
12. dagur í ekki-kók-drykkju

Drakk ríflegan vikuskammt í dag ...
*******


Fimmtudagur 4. mars 2010 - Bullið og ruglið er ógurlegt

Ég er pólitískt afstyrmi ...

... styð engan flokk sérstaklega, heldur reyni að fókusera meira á málefnin og fólkið.

Annars er erfitt að átta sig á íslenskri pólitík yfir höfuð ... því mér finnst hún ósköp mikill sandkassaleikur oft á tíðum.  Bullið og ruglið alveg ógurlegt!
Þess vegna nenni ég yfirleitt ekki að vera að tjá mig um þetta hérna á blogginu ... það er nú nóg af spekingunum samt ... ;)

En ég get þó ekki stillt mig í kvöld, eftir að ég rakst á nýjasta bullið, sem er eitthvert mesta bull sem ég hef heyrt lengi.  Það er frétt á Vísi.is, þar sem segir að pólitískt líf Steingríms Sigfússonar sé í hættu ef ekki náist samningar um IceSave fyrir helgi.  Það er fyrst og fremst í hættu vegna þess að Steingrímur hefur lagt mikið undir í að leysa málið ...

... er ekki ágætt að einhver er tilbúinn að leggja mikið undir í að þetta mál leysist?  Persónulega myndi ég ekki nenna því ...

En rifjum aðeins upp fólk sem situr á Alþingi, fólk sem ætti allt saman að vera búið að yfirgefa salinn fyrir löngu ...

... þar situr t.d. hin margfræga "kúlulánadrottning" Íslands, sem jafnframt er varaformaður stærsta stjórnmálaflokksins, sem vildi senda erlenda sérfræðinga í endurmenntun og vildi hafa allt uppi á borðum ...
... þar situr fiskverkandi af Snæfellsnesinu sem braut lög og virðist ætla að komast upp með það ...
... þar situr formaður Sjálfstæðisflokksins sem er flæktur inn í eitt mesta fjármálahneyskli sem upp hefur komið á Íslandi, enn sem komið er,
... þar situr fyrrverandi stjórnmaður í Sjóði 9 hjá Íslandsbanka, eins glæsilega og sá sjóður endaði líf sitt ...
... þar situr inni fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar og forstjóri sem grunaður er um milljóna svindl ...
... þar situr fyrrum ráðherra hrunstjórnar herra Einar K. Guðfinnsson og kvartar mikið ...
... þar situr spekingurinn sem kosinn var formaður samtaka andstæðinga ESB, sem þykist vera rosalega mikið á móti IceSave-lögunum en gaf þeim samt atkvæði sitt þann 30. desember sl., til þess eins að geta verið svo á móti þeim eftir á ...
... þar sitja svo hinir ýmsu þingmenn sem þáðu háa styrki fá einkafyrirtækjum í góðærinu ...

Svo eru menn að tala um að pólitískt líf Steingríms hangi á bláþræði, fyrir það eitt að vera burðarásinn í sjálfsagt einu erfiðasta verkefni sem rekið hefur á fjörur íslenskra stjórnmála og að vinna baki brotnu að því að koma Íslandi út úr kreppunni ógurlegu.

... og ég spyr líka ...
... hver ætti þá að taka við af Steingrími?

---

Nóg um þetta ...

Allt í góðu hér í Uppsala ... dagurinn hefur liðið við skrif.

Já, nei, það er kannski ekki allt í góðu, því spúsan varð fyrir óhappi í fyrradag, þegar hún hjólaði á glugga á veitingahúsi.  Lenti á klakastykki þegar hún var að hjóla úr vinnunni, fór á gluggann og mátti þakka fyrir að brjóta ekki rúðuna, að eigin sögn.
Við þetta óhapp lenti hún með rófubeinið á "stönginni" á hjólinu og hefur bara verið að kálast í því síðan ... getur illa setið og þetta er bara ekkert að batna ...

Að öðru leyti er allt í góðu ;) .

*******************************
12. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hljóp 6.2 km

Ætla að hlaupa aftur á morgun
*****************************

********
11. dagur í ekki-kók-drykkju

Var næstum því búinn að fá mér kók um miðjan daginn ... en stóðst freistinguna ;)
**********


Miðvikudagur 3. mars 2010

Þann 3. mars 2008 tók ég þessa mynd á Magdala-æfingavellinum í Sydney.  Það var um það leyti sem ég var þjálfari hjá Gladesville Ryde Magic.
Ekki slæmt veður ...

 

Þann 3. mars 2007 var ég staddur upp í Borgarfirði, þar sem þessi mynd er tekin ...

Þann 3. mars 2009 var ég staddur í Reykjavík ... á því miður enga mynd frá þeim degi.

Og þann 3. mars 2010 er ég staddur í Uppsala ... engin mynd frá þeim degi ...

Svona þvælist maður um ...

****************************
11. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

6.2 km ... var samt helvíti þungur í dag.  Tel ástæðuna vera brimsaltan beikonbúðing sem ég át í gær.  Ég flokka búðinginn undir eitur ... en hann er samt rosalega góður ;) .

Út að hlaupa á morgun.
****************************
*******
10. dagur í ekki-kók-drykkja (2. tilraun)

Einum of létt
*******


Þriðjudagur 2. mars 2010

Ég hlustaði á viðtalið við Þráin Bertelson, sem var á Bylgjunni í morgun.  Hreint magnað viðtal ... :)

Ég hugsa að hann hefði vel getað lyft þessari listamannalaunaumræðu upp á hærra plan ef hann hefði ekki farið að kalla fólk fábjána.  Mér fannst heilmikið vit í því sem hann var að segja og satt best að segja skil ég ekki af hverju fólk hefur eitthvað á móti því að listamenn hljóti styrki til að geta unnið vinnuna sína.

Það vita það allir sem vilja vita að starf listamanns er í eðli sínu frábrugðið hefðbundnari störfum.
Í gegnum tíðina hefur það falið í sér ögn meiri óvissu að helga sér listum og menningu, heldur en t.d. að vera gjaldkeri í banka. 
Fæstir þeir sem reyna, ná einhverjum árangri sem telur en oft getur það tekið langan tíma fyrir listamann og aðra að átta sig á hvort hæfileikarnir séu nægir til að færsla verði úr efnilega flokknum yfir í þann góða og úr þeim góða í þann mjög góða, jafnvel frábæra.  
Þar af leiðandi getur biðin eftir tekjum og fjárhagslegu öryggi orðið ansi löng og mögulegt er að listamanni takist aldrei að komast á verðugan stall nema púkkað sé undir hann tímabundið.

Það sama gildir með íþróttamenn.  Það er ekkert leyndarmál að fjölmargir íþróttamenn hafa verið styrktir af ríkinu til að geta sinnt íþrótt sinni af kappi og er það vel. 

Flestir hljóta að vera sammála um það að menning og listir skipta samfélagið máli, þetta er hornsteinn samfélagsins, eins og Þráinn benti réttilega á í viðtalinu ... og því er sjálfsagt að styðja við bakið á þeim sem hvað efnilegastir og bestir þykja.

---

Um heiðurslaun Þráins er það að segja að mér finnst umræðunni algjörlega hafa verið snúið á hvolf. 

Mörgum finnst að honum beri skylda til að afsala sér þeim, vegna þess að hann er þingmaður.
Ég myndi frekar segja að það hefði verið stórmannlegt af Þráni að afsala sér laununum, en hinsvegar ber honum engin einasta skylda til þess.

Hann var búinn að vinna til þessara heiðurslauna áður en hann settist inn á Alþingi ...  

En það má svo spá í það hvort heiðurslaun listamanna séu eitthvað sem á rétt á sér.  Ef svo er fyndist mér að vel mætti athuga að taka upp heiðursverðlaun annarra starfsgreina, t.d. heilbrigðisstarfsmanna og kennara, svona til að nefna eitthvað.

---

Þriðja dægurmálið sem ég ætla að fjalla um í dag er Edduverðlaunahátíðin. 

Las það í DV í dag að Baltasar Kormákur hefði verið kynnir á þessari hátíð og hann hefði hraunað yfir Kolbrúnu Bergþórsdóttur fyrir að viðra þá skoðun að hún væri fegin að RÚV sýndi ekki beint frá herlegheitunum.

Baltasar fannst sú skoðun alveg fáránleg ...

Ég verð nú bara að segja að mér finnst skoðun Baltasars algjörleg fáránleg ... af hverju er það eitthvað svo sjálfsagt að RÚV sýni beint frá þessari hátíð?
Væri ekki nóg að það væri sýnt frá því þegar lýst væri kjöri bestu leikarana, svo væri stutt viðtal við þá og svo búið?  Bara svona eins og gert er þegar Íþróttamaður ársins er valinn.

************************************
10. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hljóp 3.2 km

Fer aftur út að hlaupa á morgun.
*********************************
**********
9. dagur í ekki-kók-drykkju

Upprúllun
************


Mánudagsmetall XIV - 1. mars 2010

Sumir höfðu það gott ... þegar þeir komu heim af barnaheimilinu ... sófi, rúsínur og bók ...

 

... hryssingur í veðrinu gerði þetta enn notalegra ...

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband