Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Sunnudagur 15. ágúst 2010 - Skroppið í sveppi

Brotið var blað í sögu okkar hér í Svíþjóð í dag, þegar við skruppum í sveppatínsluferð í Knivsta með Matildu og Olav.

Ekki er nú hægt að státa af mjög glæsilegum árangri hvað sveppatínslu varðar, ekki frekar en þegar ég fór í veiðiferðina um daginn. 

Nokkrir sveppir skiluðu sér í hús.  Miklu fleiri sveppir voru þó tíndir en þegar betur var að gáð reyndust þeir of maðkétnir til að hægt væri að halda upp á þá.  Meðal þeirra sem hent var, var geysilega voldugur sveppur sem ég fann, auðvitað sá langstærsti af öllum sem fundust í þessari ferð.  Það er ekki að spyrja að því ;) .


Gaman að sjá hvað Syd er áhugasöm um sveppatínsluna.

Svo fann Lauga lítinn frosk sem kallast Gruda ... hér er mynd af honum.

Eftir sveppatínsluna hélt ég svo suður í Ekeby í fótbolta.  Var hann hin ágætasta skemmtun.


Laugardagur 14. ágúst 2010 - Í minigolfi

Í dag fór hitinn hér í Uppsala í 30°C, þannig að um hreint og klár Sydney-veður var að ræða.

Fyrri partinum vörðum við í mini-golf.  Skemmst frá því að segja að Lauga gjörsamlega rúllaði mér upp, reyndar eftir að ég fór fyrstu brautina holu í höggi.


Skorkortið.  Lauga til hægri ... GHPL tók að sér að skreyta kortið.

Guddan tók virkan þátt í golfinu.  Þvældist mikið fyrir, hljóp upp og niður brautirnar, tók kúlurnar o.s.frv.  Með öðrum orðum má segja að hún hafi skreytt minigolfskeppnina mjög mikið.

Hún hljóp svo mikið að hún var orðin löðursveitt, kafrjóð í kinnum og dauðuppgefin á 13. holu.  Þá fórum við heim með viðkomu á róluvellinum.

 

Seinni parturinn fór svo í vinnu hjá okkur Laugu meðan Syd svaf og loks í kvöld var mikið partý.  Pizza, video, popp og kók ... ;)


Fimmtudagur 12. ágúst 2010 - Krakkalýsi er best

Guddan er mikill aðdáandi lýsis.  Hún er svo mikill aðdáandi að inntaka lýsis er hápunktur morgunverðarins.

Þegar flaskan birtist rekur hún upp fagnaðaróp.  Þorri þorskur virkar svo vel að hún kyssir hann oft á hverjum morgni.

- þannig er það nú ...

 


Miðvikudagur 11. ágúst 2010 - Margt í rugli

Dóttirin er alveg orðin rugluð í tölustöfunum ... "sjöumálið" tók á sig nýjar víddir í dag þegar allar tölur frá 1 og upp í 10 voru "sjö", nema 7 sem var "átta"?!?!  Samkvæmt þessu á hún afmæli 8. júní. 

Já, og úr því að minnst er á afmæli.  Mér var tilkynnt þegar við mættum á leikskólann í morgun að halda ætti upp á afmæli Guddunnar af því að það hefðu allir verið í sumarfríi þegar hún átti afmæli.  Nú?!?, sagði ég.  Þá var eins og eitthvað hrykki í gang í höfði leikskólastjórans ... já, nei ... það var búið að halda upp á afmælið hennar.  Umhmmm, sagði ég ... en það má vel halda upp á það aftur, bætti ég við.  Nei, nei, það verður ekki gert ...

Mér þótti leiðinlegt að hafa af dóttur minni aukaafmælið ...

Í gær var keyptur hjólahjálmur á stubbinn.  Hvort hann passar er óvíst enn, því fröken hátign hefur ekki gefið leyfi að hjálmurinn sé settur á höfuð hennar.
Það er hætt við að mikið þurfi að ganga á áður en bleika derhúfan víkur fyrir skræpóttum hjólahjálminum.


Hér er Syd einmitt með bleiku derhúfuna.

Dórubað er mjög vinsælt um þessar mundir.  Dórubað er í daglegu tali kallað freyðibað en vegna þess að brúsinn, sem inniheldur freyðisápuna, er með mynd af hinni dásamlegu Dóru landkönnuði, fær baðið þetta nafn.

Svo gengur ágætlega að læra stafrófið.  Í nokkrar vikur hef ég verið að kenna henni bókstafina með því að nota bókina "Allting runt omkring" eftir Richard Scarry. 
Nú er svo komið að hún þekkir allflesta stafina með nafni ... þ.e.a.s. hástafina.  Það er helst G-ið sem hún ruglast á.

Hún er sum sé í tómu rugli bæði með bókstafinn sinn og afmælisdaginn sinn.


Þriðjudagur 10. ágúst 2010 - Að vera í Svíþjóð

Í dag fékk ég að vita að ég er staddur í Svíþjóð ... hafi ég ekki vitað það fyrr.

Fyrra tilfellið sem ég upplifði átti sér stað þegar ég skrapp í bæinn.  Það var sænska verklagið beint í æð.  Ég hjólaði framhjá vinnuhóp, sem taldi um sjö fullorðna karlmenn.  Þrír voru að vinna og hinir horfðu á.

Ég hef áður orðið vitni að sambærilegum vinnubrögðum.  Þá unnu tveir fullorðnir menn að því að leggja 5 metra langan og 50 cm breiðan göngustíg.  Þeir voru búnir öllum bestu tækjum sem hugsast getur til stígagerðar.  Lítill bensíndrifinn plógur var notaður til að tæta upp rás þar sem göngustígurinn átti að koma og 10 cm lagi af jarðvegi var mokað beint í traktorsskúffu.  Þeir dunduðu sér við þetta með hléum frá kl. 8 til hádegis.  Og þá var erfiði kaflinn eftir en það var að keyra möl í rásina.

Traktorsskúffan var fyllt af möl, sem var mokað ofan í hjólbörur og þeim trillað tvo metra og hellt úr.  Sá sem sá um mölina hvíldi sig vel áður en hann mokaði mölinni í hjólbörurnar og þegar hann var búinn að hella úr börunum, hvíldi hann sig aftur meðan hinn dreifði úr malarbingnum með hrífu.  Löturhægt.  Þegar búið að var dreifa úr bingnum var tekin góð pása til að meta verkið.

Verkið tók um þrjá klukkutíma og þar með var vinnudeginum lokið.

Síðasta haust þurfti þrjá fullburða menn til að rífa ofurlítinn fúinn veggstubb í garðinum ... og þeir mættu á þremur stórum sendiferðabílum.  Að loknu verkinu var spýtnabrakinu hrúgað upp, þar sem það grotnaði niður í um fjórar vikur eða þar til tveir menn á vörubíl mættu til að tína það upp.

Það tók allt síðasta haust að mála nokkur leiktæki á lóðinni.  Málari mætti í ágúst með rauða málningu og málaði alla fleti á leiktækjunum sem voru rauðir.  Svo strengdi hann borða kringum leiktækin sem á stóð "nýmálað".

Svo mætti hann tveimur  til þremur vikum síðar og málaði grænu fletina.  Strengdi aftur borða sem á stóð "nýmálað".  Og svona gekk þetta koll af kolli, þar til fór að frjósa og ekki var lengur hægt að mála.

Hann hefur ekkert mætt á þessu ári, þó eftir sé að mála alla brúnu og svörtu fletina.  Er kannski að bíða haustsins.

---

Hitt tilfellið sem vakti mig til vitundar um að ég er staddur í Svíþjóð var þegar við Lauga fórum í Skattverket (Skattstofuna) til að fá persónuskilríki.

Því miður gátum við ekki fengið slíkt vegna þess að passarnir okkar voru ekki teknir gildir, þrátt fyrir að vera í fullu gildi?!?!

Þeir eru of gamlir, þ.e. útgefnir árið 2003 og þ.a.l. er ekkert öryggis-"chip" í þeim.  Ég verð nú að segja að það er fokið í flest skjól þegar gildur passi er ekki tekinn gildur.

Lauga verður að mæta með yfirmann sinn úr vinnunni á skattstofuna á vinnutíma.  Sá á að sanna að Lauga sé Lauga og staðfesta að hún sé búin að vinna hér í Svíþjóð.  Eftir þessu að dæma virðist sem skattstofan hafi ekki upplýsingar um þær skattgreiðslur sem Lauga hefur innt af hendi síðastliðið eitt og hálft ár?!?!

Þegar Lauga er komið með sitt kort, má hún votta að ég sé ég.

Það er ekki annað hægt en að brosa út í annað yfir sænska kerfinu.


Mánudagur 9. ágúst 2010 - Leitin að sjöunni

Það hefur rignt heil ósköp hér í Uppsala í dag ... í hádeginu leit þetta svona út ... ásamt þrumum og eldingum ...

 

Guddan er búin að fara á kostum í dag ... leitin að sjöunni var liður í því ...

Birti að lokum eina mynd sem tekin var í Íslandsferðinni ... myndir heitir "Syd utan við glugga" ...


Laugardagur 7. ágúst 2010 - The Who

Eftir að hafa átt frekar slappan dag í dag ... náði ég í góða skapið með því að taka www.youtube.com-rúnt í kvöld ...

Ég hef ekki hlustað á The Who í nokkurn tíma en datt inn á þá í kvöld ...

... og þeir eru geðveikir!!

Hér er t.d. I can't explain í tónleikaútgáfu af plötunni Live at Leeds ... einföld melódía og ótrúlega "katsí" lag ... 

Hér er svo annað lag með The Who ... sem ótrúlega flott og náttúrulega algjör klassíker ... Won't get fooled again

 

Ég skil bara ekki hvernig menn geta samið svo hrikalega góð lög ... 

---

Mínir menn í KISS hafa bætt millikaflanum úr Won't get fooled again inn í hið velþekkta lag sitt Lick it up.

Það hljómar þá svona ...


Föstudagur 6. ágúst 2010 - Á Aspentos

Lauga tók heldur betur málin í sínar hendur og bauð okkur Guddu út að borða í kvöld á Aspentos, sem er grískur veitingastaður í nágrenni við okkur.

Góður matur og skemmtilegt borðhald í góðum félagsskap.

 

Eftir matinn bætti hún svo um betur, tók DVD og bauð upp á hressingu með bíóinu.

---

Dagurinn hefur að mestu farið í undirbúning á næstu minni næstu rannsókn sem ég stefni á að keyra í næstu viku ef guð lofar.

Það er sum sé spennandi hlutir í gangi framundan ... og ég hlakka til ...

---

Guddan gerði það gott í dag þegar hún var að leika sér úti í sandkassanum með Laugu.  Þær voru að "baka" sandkökur og Syd var svo ánægð og hamingjusöm með kökurnar að hún kyssti þær allar.

Eftir baksturinn skrifað Lauga upphafsstafi dótturinnar í sandinn ... þ.e. G og H.  Gleðin var slík að sú stutta beygði sig niður í sandinn og kyssti báða stafina.

Já, það er mikið kysst þessa dagana.

---

En hvað sem öllu líður ... þá er þetta kona dagsins ...


Lauga á afmælisdegi sínum í eldhúsinu í Bourke Street í Sydney árið 2008.


Fimmtudagur 5. ágúst 2010

Í kvöld bauðst mér fyrirfaralaust að skreppa í báts- og veiðiferð út á Mälaren, sem er stórt vatn í nágrenni Uppsala.

Þetta var mín fyrsta báts- og veiðiferð á ævinni, enda er ég 110% landkrabbi ...


Á myndinni eru auk undirritaðs, Karvel við stýrið, Magnus í miðjunni og Össi til hægri.

Áður en báts- og veiðiferðin hófst var skokktími með Karvel og Sverri.  Gekk það ágætlega.

---

Dagurinn fór að töluverðu leyti í að ljúka við gerð heimasíðunnar minnar.  Núna hefur hún verið uppfærð og geta allir sem áhuga hafa á rannsókninni sem ég lagði fyrir síðasta haust lesið niðurstöður hennar með því að smella hér.

Ég veit að margir af föstum gestum þessarar bloggsíðu tóku þátt í rannsókninni á sínum tíma og því er um að gera að sjá hvað kom út úr öllu saman.

Annars er bara allt í þessu fína.


Miðvikudagur 4. ágúst 2010

Skrapp í góðan fótbolta í kvöld ... en andskoti er vont að láta traðka á tánum á sér í takkaskóm.  Það henti mig þrisvar sinnum í kvöld ... síðasta skiptið var það alversta.

Deginum hefur verið varið í heimasíðugerð ... og munu íslenskar viðbætur sennilega birtast á heimasíðunni minni á morgun.  Þannig að allir geta beðið spenntir.

---

Vek athygli á skoðanakönnuninni til vinstri ... minni á að það er veðmál í gangi hér í Uppsala, þannig að það er eiginlega bara alveg nauðsynlegt að allir tjái skoðun sína.  Ég er að safna þrjátíu svörum og aðeins eru fimm komin.

Koma svo ...

---

Sydney Houdini brillerar á hverjum degi núna.  Hún er alsæl með að vera komin heim til Uppsala á nýjan leik.

Í kvöld svæfði hún sjálfa sig með því að hoppa í rúminu þangað til hún lagðist örend niður og sofnaði á mettíma.

Hún er líka búin að vera að æfa sig í að synda.  Ekki skil ég hvar hún fékk þessa sundhugmynd, en hún byggist á því að sitja upp í sófa eða í rúmi eða á stól og teygja hendurnar niður á gólf og láta fæturna koma síðast niður.  Þetta gengur vonum framar hjá henni, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur ekki farið í sund síðan í febrúar 2009.  Hér í Uppsala kostar 85 sænskar krónur (um 1400 ÍSK) á mann að fara í sund ... slíkan munað leyfir maður sér ekki.

Þá er Syd líka búin að finna út úr því hvernig hægt er að nota handföngin á skúffunum í eldhúsinu sem stiga til að komast upp á eldhúsborðið ... það skal af gefnu tilefni tekið fram að sú iðja er ekki leyfð.´

Talningar eru í hávegum þessa dagana ... yfirleitt hefst talningin á átta og endar á tíu.  Gildir einu hversu margar einingar er verið að telja í raun og veru.

Það almerkilegasta af öllu finnst mér þó vera sú blákalda staðreynd að ég er orðinn einn mesti og besti vinur dóttur minnar af öllum í heiminum ... það hefur bara gerst eftir að við komum út aftur. 


Sumir undir stýri á Sauðárkróki í júlí sl.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband