Þriðjudagur 10. ágúst 2010 - Að vera í Svíþjóð

Í dag fékk ég að vita að ég er staddur í Svíþjóð ... hafi ég ekki vitað það fyrr.

Fyrra tilfellið sem ég upplifði átti sér stað þegar ég skrapp í bæinn.  Það var sænska verklagið beint í æð.  Ég hjólaði framhjá vinnuhóp, sem taldi um sjö fullorðna karlmenn.  Þrír voru að vinna og hinir horfðu á.

Ég hef áður orðið vitni að sambærilegum vinnubrögðum.  Þá unnu tveir fullorðnir menn að því að leggja 5 metra langan og 50 cm breiðan göngustíg.  Þeir voru búnir öllum bestu tækjum sem hugsast getur til stígagerðar.  Lítill bensíndrifinn plógur var notaður til að tæta upp rás þar sem göngustígurinn átti að koma og 10 cm lagi af jarðvegi var mokað beint í traktorsskúffu.  Þeir dunduðu sér við þetta með hléum frá kl. 8 til hádegis.  Og þá var erfiði kaflinn eftir en það var að keyra möl í rásina.

Traktorsskúffan var fyllt af möl, sem var mokað ofan í hjólbörur og þeim trillað tvo metra og hellt úr.  Sá sem sá um mölina hvíldi sig vel áður en hann mokaði mölinni í hjólbörurnar og þegar hann var búinn að hella úr börunum, hvíldi hann sig aftur meðan hinn dreifði úr malarbingnum með hrífu.  Löturhægt.  Þegar búið að var dreifa úr bingnum var tekin góð pása til að meta verkið.

Verkið tók um þrjá klukkutíma og þar með var vinnudeginum lokið.

Síðasta haust þurfti þrjá fullburða menn til að rífa ofurlítinn fúinn veggstubb í garðinum ... og þeir mættu á þremur stórum sendiferðabílum.  Að loknu verkinu var spýtnabrakinu hrúgað upp, þar sem það grotnaði niður í um fjórar vikur eða þar til tveir menn á vörubíl mættu til að tína það upp.

Það tók allt síðasta haust að mála nokkur leiktæki á lóðinni.  Málari mætti í ágúst með rauða málningu og málaði alla fleti á leiktækjunum sem voru rauðir.  Svo strengdi hann borða kringum leiktækin sem á stóð "nýmálað".

Svo mætti hann tveimur  til þremur vikum síðar og málaði grænu fletina.  Strengdi aftur borða sem á stóð "nýmálað".  Og svona gekk þetta koll af kolli, þar til fór að frjósa og ekki var lengur hægt að mála.

Hann hefur ekkert mætt á þessu ári, þó eftir sé að mála alla brúnu og svörtu fletina.  Er kannski að bíða haustsins.

---

Hitt tilfellið sem vakti mig til vitundar um að ég er staddur í Svíþjóð var þegar við Lauga fórum í Skattverket (Skattstofuna) til að fá persónuskilríki.

Því miður gátum við ekki fengið slíkt vegna þess að passarnir okkar voru ekki teknir gildir, þrátt fyrir að vera í fullu gildi?!?!

Þeir eru of gamlir, þ.e. útgefnir árið 2003 og þ.a.l. er ekkert öryggis-"chip" í þeim.  Ég verð nú að segja að það er fokið í flest skjól þegar gildur passi er ekki tekinn gildur.

Lauga verður að mæta með yfirmann sinn úr vinnunni á skattstofuna á vinnutíma.  Sá á að sanna að Lauga sé Lauga og staðfesta að hún sé búin að vinna hér í Svíþjóð.  Eftir þessu að dæma virðist sem skattstofan hafi ekki upplýsingar um þær skattgreiðslur sem Lauga hefur innt af hendi síðastliðið eitt og hálft ár?!?!

Þegar Lauga er komið með sitt kort, má hún votta að ég sé ég.

Það er ekki annað hægt en að brosa út í annað yfir sænska kerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, sænskurinn lætur ekki að sér hæða - kostulegar lýsingar á verklaginu. Ég er hræddur um að þessir kappar myndu ekki endast lengi sem vinnumenn á Grjóteyri! Og þetta með passann og skattana sýnir hverslags óskapnaður kerfið er orðið og örugglega lífsins ómögulegt að vinda ofan af vitleysunni. Það er kannski ekki furða þó Guðrún Helga ruglist aðeins í talnakerfinu í þessu landi og gangi ekkert að finna sjöuna

Stjóri (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 23:11

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Það er alveg ljóst að svona menn fá ekki að koma nálægt Grjóteyri ... enda hafa þeir ekkert þangað að gera ;) .

Páll Jakob Líndal, 11.8.2010 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband