Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Sunnudagur 10. október 2010 - Að vera í rosastuði

Það er óhætt að segja að þeir sem fæddust í dag komi til með að fá snyrtilega kennitölu ...

Þessi dagur er því stórmerkilegur að þessu leytinu til.

---

Hérna hjá okkur í Uppsala er dagurinn ekki síður merkilegur vegna þess hversu ótrúlega fjörug dóttirin hefur verið í dag ...

... allt frá því hún heyrði í afa sínum og ömmu á Sauðárkróki í morgun hefur hún gjörsamlega farið á kostum ...

... við Lauga höfum hvorugt séð hana svona áður.  Hún er oft hress en svona hress, svona lengi ... er algjört einsdæmi og það yrði nú ekki amalegt ef 10. 10 2010 yrði vendipunktur í þessa átt.

Það er búið að hlaupa, hoppa, hlæja, fíflast, leika, klifra, syngja, öskra og sitthvað fleira ... og ekki neinn tími til að sofa um miðjan daginn.

Ýmsum verkefnum hefur verið sinnt hér.  T.d. er verið að vinna í spennandi líkanasmíð og svo voru keyptir kuldaskór á blessað barnið í Gränby Centrum.

Lauga hefur verið að lesa einhverja yndislega bók ...

---

Það er líka gaman að segja frá því að ég hef staðið við ætlun mína um að hætta að væla ... og þvílíkur léttir.  Lífið verður svo miklu skemmtilegra þegar maður er ekki alltaf að væla.

Mæli með því fyrir alla. 


Laugardagur 9. október 2010 - Heimsókn & glatað tækifæri

Fórum á Biotropia-safnið í morgun ... en það er svona dýrasafn hér í Uppsala.  

Bara skemmtilegt og frítt inn. 

Svo komum við heim.  Guddan orðin örend af þreytu eftir.  Ég lagði mig með henni svo rétt til að koma henni yfir þröskuldinn inn til Óla Lokbrá.

Það fór nú ekki betur en svo að ég sofnaði líka ... það var nú meira f*****g ruglið ... dagurinn fór í tómt tjón.

Afleiðingin var sú að ég gerði ekkert af viti ... þrátt fyrir að hafa slatta af verkefnum til að sinna.

Svona er þetta stundum ...

---

Við Lauga ákváðum í kvöld að prófa að horfa á arftaka Spaugstofunnar á RÚV ... "Hringekjuna" ...

Það þarf nú ekki að fara með mörg orð um þann þátt ... áhorfið var ekki til að bæta upp fyrir glataðan tíma í dag ... 

... ég spái því að þátturinn verði flautaður af við fyrsta tækifæri. 


Fimmtudagur 7. október 2010 - Að vera hræddur

Það er búið að vera vitlaust að gera síðustu daga og því var afar kærkomið að geta aðeins andað í dag ... áður en næsta törn hefst.

En ég ætlaði nú ekkert að skrifa um þetta ... ætlaði að skrifa um eitthvað allt annað ...

Eins og ég hef áður sagt, er mér alltaf að detta eitthvað sniðugt í hug allan daginn, einhverjar pælingar sem gaman væri að setja niður á "blað" en svo þegar á að fara inn á "lagerinn" og ná í eitthvað vænlegt, þá er allt tómt!

--- 

Lauga var að segja mér frá athyglisverðri pælingu í dag sem hún heyrði talað um í vinnunni hjá sér ...

... og hún er að mannskepnan hafi í raun bara tvær tilfinningar ... gleði og hræðslu.  Og allar aðrar tilfinningar séu einhvers konar afleiðing þessara tveggja ... þannig sé reiði t.d. bara afsprengi af hræðslu.

Fyrstu viðbrögð hjá mér voru að þetta gæti nú varla staðist ... en svo fórum við að pæla í þessu ... og komumst að því að það er heilmikið til í þessu. 

Ég fór að pæla í reiði minni við GHPL þegar hún frussaði lýsinu út úr sér í gær.  

Af hverju reiddist ég?

Þegar ég rúlla í gegnum atvikið í huganum þá man ég að það fyrsta sem ég hugsaði var að lýsið væri í fötin hennar en hún var í tiltölulega nýlegum fötum ...

... og það er lítið grín að sulla lýsi í fötin sín ...

Ergo - ég var hræddur um að fötin myndu skemmast ... það var ástæðan fyrir reiðinni ... held ég :) .

Svo fór ég að spá í af hverju ég verð pirraður þegar Guddan hangir utan í móður sinni dagana langa og ég má hvergi koma nærri án þess að allt fari til andskotans.

"Hræddur um að hún muni aldrei taka þig í sátt?" spurði Lauga.  

Það er góð og rökrétt tillaga en mér finnst samt það ekki vera málið því ég hef svo sem engar áhyggjur af því ...  held að ég hafi nú alveg nógu breitt bak til að þola að 2ja ára gamalt barn gefi svolítinn skít í mig af og til ...

Því hef ég verið hugsi yfir þessu í kvöld ... og var eiginlega alveg að því kominn að afsanna kenninguna um bara tvær tilfinningar, þegar ég datt niður á það sem ég held að skýri þetta.

Skýringin er eftirfarandi: "Ég er hræddur um það að Lauga verði pirruð á því að Syd hangir alltaf svona í henni og að pirringurinn bitni á mér."

Ég sagði Laugu frá þessari skýringu minni: "Blessaður ... þú þarft nú ekkert að vera hræddur um það.

Það er líklega rétt hjá henni ... þetta er óþarfa hræðsla ... enda móðirin með afbrigðum þolinmóð ...

---

Við skruppum í göngutúr í kvöld ...

 
Mæðgurnar staddar í Källparken.

 
Klifrað á leikvellinum við Gröna gatan. 


Miðvikudagur 6. október 2010 - Allt fast

Dóttirin er búin að vera í sólskinsskapi í dag ... alveg síðan hún, í þrjóskukasti, frussaði lýsinu út úr sér í morgun og hlaut fyrir vikið talsverðar skammir.

Annars verður að segja að blessað barnið er algjörlega með móður sína á heilanum ... sú síðarnefnda má ekki víkja spönn frá rassi án þess að slíkt ástand skapist, að maður heldur helst að síðustu andartök heimsins séu að renna upp. 

Ég vermi því ennþá, og af lýtalausu öryggi, botnsæti vinsældarlistans á heimilinu ... er langneðstur.

---

Orðaforði S. Houdini er mikið að aukast þessa dagana, eins og sjá og heyra má á nýlegum myndbandsupptökum.

Fyrir utan að segja "ókei" oftar en góðu hófi gegnir og sennilega nógu oft til að tryggja það að blessunin hún amma mín er búin að snúa sér marga hringi í gröfinni, lýsir GHPL því yfir hvað eftir annað að eitthvað sé "fast".

Bækur, litir, fætur, hendur, sængur, stólar, vettlingar, handklæði, sjónvarp, kubbar o.s.frv. stendur allt meira og minna "pikkfast", oft svo kirfilega að ekki er nokkur leið, að hennar sögn, að eiga við það.   Það er bara eins og risastórt skrúfstykki sé yfir og allt um kring.

Það fréttist meira segja frá leikskólanum um daginn að þegar hádegislúrinn stóð fyrir dyrum, hefði fröken Guðrún staðið sér ein og óstudd út á miðju gólfi og þverneitað að fara að sofa vegna þess að hún gæti ekki hreyft sig.  Ástæðan var augljós að hennar mati ... hún var bara alveg "blýföst".

Á meðfylgjandi mynd er telpan með "buffið" frá Öbbu frænku sinni og Pétri, á höfðinu.  Þetta er sama buffið og var í myndbandi síðustu færslu.  Myndin var sum sé tekin meðan allt lék enn í lyndi.

Skellurnar á enninu eru áverkar eftir að frökenin datt á höfuðið í húsdýragarðinum um helgina ... sjálf segir hún að það hafi verið "únt" að detta á höfuðið.


Mánudagur 4. október 2010 - Hin hliðin: GHPL

Enn og aftur ryðst maður fram á ritvöllinn eftir ofurlítið hlé ...

Deginum hefur að mestu verið varið í skrif á fyrirlesturs sem halda á í Sandgerði þann 28. október nk.  Mjög skemmtileg vinna ... það er óhætt að segja.

Já það er nú u.þ.b. dagurinn hjá mér í dag.

 ---

Og hvað eru mæðgurnar búnar að gera?

Læra! 

---

Það eru sumir lesendur bloggsíðunnar sem trúa því aldrei að GHPL geti látið ófriðsamlega og verið með "attitjúd" í hæsta gæðaflokki ...

Þeir hinir sömu ættu að kíkja á þetta myndband ...  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband