Miðvikudagur 6. október 2010 - Allt fast

Dóttirin er búin að vera í sólskinsskapi í dag ... alveg síðan hún, í þrjóskukasti, frussaði lýsinu út úr sér í morgun og hlaut fyrir vikið talsverðar skammir.

Annars verður að segja að blessað barnið er algjörlega með móður sína á heilanum ... sú síðarnefnda má ekki víkja spönn frá rassi án þess að slíkt ástand skapist, að maður heldur helst að síðustu andartök heimsins séu að renna upp. 

Ég vermi því ennþá, og af lýtalausu öryggi, botnsæti vinsældarlistans á heimilinu ... er langneðstur.

---

Orðaforði S. Houdini er mikið að aukast þessa dagana, eins og sjá og heyra má á nýlegum myndbandsupptökum.

Fyrir utan að segja "ókei" oftar en góðu hófi gegnir og sennilega nógu oft til að tryggja það að blessunin hún amma mín er búin að snúa sér marga hringi í gröfinni, lýsir GHPL því yfir hvað eftir annað að eitthvað sé "fast".

Bækur, litir, fætur, hendur, sængur, stólar, vettlingar, handklæði, sjónvarp, kubbar o.s.frv. stendur allt meira og minna "pikkfast", oft svo kirfilega að ekki er nokkur leið, að hennar sögn, að eiga við það.   Það er bara eins og risastórt skrúfstykki sé yfir og allt um kring.

Það fréttist meira segja frá leikskólanum um daginn að þegar hádegislúrinn stóð fyrir dyrum, hefði fröken Guðrún staðið sér ein og óstudd út á miðju gólfi og þverneitað að fara að sofa vegna þess að hún gæti ekki hreyft sig.  Ástæðan var augljós að hennar mati ... hún var bara alveg "blýföst".

Á meðfylgjandi mynd er telpan með "buffið" frá Öbbu frænku sinni og Pétri, á höfðinu.  Þetta er sama buffið og var í myndbandi síðustu færslu.  Myndin var sum sé tekin meðan allt lék enn í lyndi.

Skellurnar á enninu eru áverkar eftir að frökenin datt á höfuðið í húsdýragarðinum um helgina ... sjálf segir hún að það hafi verið "únt" að detta á höfuðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband