Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Flottur dagur í Sydney!!

Þessi dagur er búinn að vera algjör snilld!!

Í morgun talaði ég við mömmu á Skype-inu og var það hressandi samtal eins og þau eru nú yfirleitt ... það er alveg ótrúlegt hvað við höfum alltaf mikið að tala um ... samtölin eru aldrei styttri en klukkutími og oft teygja þau sig í tvo tíma.  Og þá hefur bara rétt kúfurinn verið tekinn ofan af öllu því sem þyrfti að ræða ...

... ég lít á það sem einstök forréttindi að eiga svona móður!!!

Jæja, eftir samtalið var tími til kominn að fá sér morgunmat, hafragraut, appelsínu, vatn og mjólk ... þetta er nokkuð standard morgunverður hjá okkur og hefur reynst assgoti vel ...

Ég vann síðan svolítið heima eða fram að hádegismat, en eftir að honum lauk fór ég niður í skóla.  Reyndar hafði ég lofað að fara í myndatökuleiðangur með hinni hollensku Karin í hádeginu, en sökum anna, "skippaði" ég því fram í næstu viku.

Frameftir degi sat ég með sveittan skallann að berja saman þennan blessaða fyrirlestur, sem mér hefur verið ansi tíðrætt um síðustu misseri.  Ég verð þó að viðurkenna að ég kíkti svona á netið við og við ... og í einni "pásunni" rak ég augun í merkilega færslu á Vísi að tveir þáttastjórnendur á sjónvarpsstöðinni ÍNN, sem er í eigu Ingva Hrafns, fyrrum fréttastjóra á RÚV, hefðu farið að rífast, eða svo gott sem, í miðri útsendingu.  Alveg furðuleg hegðun ... segi nú ekki meira ...

En þessi frétt vísaði mér á annað mun áhugaverðara efni, en það var viðtal Guðjóns Bergmann við Matta Ósvald, heilsufræðing.  Það var mjög gott viðtal, þar sem Matti ræddi meðal annars um mikilvægi þess að hafa rétt hugarfar, tala sig inn á að sjá hvað er jákvætt í erfiðum aðstæðum eða verða jákvæður með meðvituðum hætti þegar manni líður ekki vel.
Einnig talaði hann um að það besta sem maður gerir fyrir sjálfan sig er að hugsa um hvernig maður geti orðið öðrum að liði.  Og það er mikið til í þessu hjá Matta. 

Þetta er allavegana mjög í anda þeirrar vinnu sem við Lauga erum að vinna ... og höfum gaman af ...

Eftir þessa miklu "inspíratjón" hélt ritun fyrirlestursins áfram ... ég var uppfullur af bjartsýni og krafti ... og það var bullandi kraftur í þessu hjá mér ... bullandi kraftur!!!

Upp úr klukkan 7.30 í kvöld,  hringdi ég svo í Stebba bróður og átti gott spjall við hann. 

Ég hélt heim á leið upp úr klukkan 9, við Lauga fórum og fengum okkur góða pizzu og salat á Wood and Stone ...

... kvöldið leið svo á notalegum nótum ...

En setning dagsins er: "Jákvæðni er ekkert merkileg fyrr en á móti blæs!!"
Þetta er tær snilld!!!  Svo ótrúlega rétt!!


Facebook og Palli frændi

Jæja, loksins gat ég skilað af mér uppkasti af bókarkaflanum, sem ég hef verið að skrifa síðustu vikur ... og rosalega er það nú gott ...

... nú á ég bara eftir að lenda fyrirlestrinum mínum yfir EDRA-ráðstefnuna ... og ég mun vonandi senda hann í yfirlestur hjá leiðbeinandanum mínum á föstudaginn.

Annars er bara allt í stökustu lukku ...

... ég rak nefið inn á Facebook í dag, en það er nú eitthvað sem ég geri lítið af þessi misserin, og sá þar að ég hef verið "rankaður" þar af vinum mínum í 3. sæti yfir námsfýsi, sem engan skal nú undra sem þekkir mig ... alltaf að læra.  Svo er ég í 6. sæti í "smartheitum", þannig að ... jú, jú ... 
Þá er ég í 9. sæti yfir besta herbergisfélagann, en átti nú satt að segja von á því að vera í fyrsta sæti þar ... en þessu verð ég bara að kyngja.  Ég er líka í 9. sæti yfir þá sem munu "meika 'að", sem er náttúrulega argasta rugl ... því það er alveg dagljóst að ég mun "meika 'að" einhvern daginn.  Vinum mínum er alveg óhætt að treysta því!!!
Svo fer að syrta allverulega í álinn ... ég er í 12. sæti yfir besta brosið, þrátt fyrir að hafa alveg einstaklega fallegt bros, ég er í 14. sæti yfir besta hlustandann, og í 14. sæti í flokknum "nicest" ...

... svo er ég reyndar eitthvað meira sem ég nenni ekki að tala um ...

... hinsvegar er ég að velta fyrir mér hvernig þessir listar eru eiginlega samansettir, og eftir því sem ég hugsa meira um það, því minna skil ég í því.  Alltént væri gaman að vita hvað það væru margir þátttakendur í hverjum flokki, því annars segja þessa tölur minna en ekkert.  Það hlýtur að gefa auga leið ...

Já, og svo óska ég góðum frænda mínum og æskuvini Páli Eiríkssyni til hamingju með afmælið í gær ... hef nú reyndar ekki verið boðinn í afmæli til hans í fjölda mörg ár, en var lengi vel í áskrift.  Mætti ávallt í afmælið í sparifötum með fótboltaföt undir hendinni, því fótbolti úti í garði var fastur liður á afmælisdagskránni.  Gestirnir veltust svo fram og aftur um flötina rjóðir í kinnum og með grasgrænu í sparibuxunum, allirnema ég af því ég skipti um föt fyrir leikinn ... þetta voru helvíti skemmtileg afmæli, enda voru allir gestirnir, að mig minnir, hinir þokkalegustu knattspyrnumenn.

Ég man að einu sinni var hluti fótboltaleiksins tekinn upp á video ... og þegar allir gestirnir, nema ég, voru farnir horfðum við Palli á leikinn og dáðumst að leikni okkar ... að sjá þetta video nú væri náttúrulega tær snilld!!


Eitt ár í Sydney

Nú árið er liðið í aldanna skaut ...

Það var einmitt þann 4. maí 2007, sem við Lauga lentum fyrst hér í Sydney eftir tæplega 40 klukkustunda ferðalag frá Íslandi, með tvær ferðatöskur og tvo troðfulla bakpoka að vopni ... tilbúin til að takast á við algjörlega ný viðfangsefni.

Árið hefur liðið hratt, alveg hrikalega hratt ... en það hefur líka verið mjög skemmtilegt og sérlega lærdómsríkt!
Erfitt er að segja hvað stendur upp úr á þessu ári ... en það sem kannski fyrst kemur upp í hugann er Sydney maraþonið í september síðastliðnum ...

 

... frábær ferð í Blue Mountains í júlí ...

 

... fyrirlestrarnir mínir í skólanum í nóvember og desember ... 

 

... að ógleymdum tvennum KISS-tónleikum í mars!!!

 

Svo er það náttúrulega allt þetta frábæra fólk sem við höfum kynnst á þessu eina ári ... fyrir það ber að þakka alveg sérstaklega!!

 


1. maí, Yufang og Lama

Ég vil byrja þessa færslu mína á því að óska verkalýð heimsins, og þá sérstaklega þeim íslenska, til hamingju með daginn ... 

Frá baráttufundi verkalýðshreyfingarinnar á Ingólfstogi í dag

Hér í Sydney varð ég nú ekkert sérlega var við að verkalýðurinn hópaðist saman og krefðist úrbóta ... 

Allavegana ... dagurinn góður í dag.  Ég hélt áfram að skrifa fyrirlesturinn og nú er hann farinn að taka á sig mynd.  En hann á eftir að verða betri, svo mikið er ljóst. 
Terry aðstoðarleiðbeinandi minn var alveg himinlifandi þegar ég sagði honum frá innihaldi fyrirlestursins, og hvernig ég ætla að byggja upp minn rökstuðning ... "This is terrific!!", sagði hann orðrétt!!

Í hádeginu skruppum við Lauga, ásamt hinni hollensku Karin, á tailenskan veitingastað í Newtown, þar sem hægt er að fá virkilega góða og stóra máltíð fyrir $6 eða svona 400 ÍSK.  Við Lauga höfum nokkrum sinnum farið á þennan stað og maturinn er frábær!  Ég man bara ekki hvað hann heitir í augnablikinu ... ekki það að það skipti neinu sérstöku máli ...

Klukkan fjögur var svo meiningin að fara að hlusta á fyrirlestur hjá Yufang, kínverskri stelpu sem er að stúdera áhrif birtu á vinnuframlag fólks, en því miður gaf ég mér ekki tíma þegar á hólminn var komið ... en hún hefur örugglega staðið sig vel.  Þetta er mjög klár stelpa, sem síðastliðið haust var valin í móttökunefnd hér í Sydney þegar forseti Kína Hu Jintao kom ásamt fríðu föruneyti. 

 

Það ku vera afskaplega mikill heiður fyrir Kínverja að hitta blessaðan forsetann, eða eins og hún sagði við mig þá: "Kínverjar eru svo margir að líkurnar á að hitta forsetann einhvern tímann á lífsleiðinni eru mjög litlar, ég er því mjög heppin ... ég fæ meira að segja að borða með honum!!!"

Kvöldinu varði ég svo í að skrifa pistil fyrir Sumarhúsið og garðinn ...
Hún Auður vinkona mín, ritstjóri Sumarhússins, sú sama og heldur stórsýninguna Sumarið (ártal) á hverju ári, bað mig í vetur, þegar ég var heima á Íslandi um að halda úti dálki í blaðinu, sem heitir Pælingar.  Þar fæ ég að láta gamminn geisa um eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og spennandi, ... og það er náttúrulega alveg rosalega gaman!

Næsta blað er að fara í prentun á allra næstu dögum, þannig að ég hef ekki mikinn tíma til að skrifa þessar pælingar ... og stefni á að klára þær á morgun ...

Á mbl.is sá ég svo frétt um að Dalai Lama er áhrifamesti einstaklingurinn að mati tímaritsins Time ... Já, ... Dalai Lama hefur skipað mjög sérstakan sess í hjarta mínu eftir að Múrenan og spúsan héldu til fundar við "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet", þann 15. júní sl.  Í stuttu máli minnir hinn sískríkjandi Lama mig helst á ausandi rigningu og veikindi hjá Laugu, en hún lagðist mjög eftirminnilega í rúmið eftir fundinn.  Hér má lesa færsluna sem skrifuð var eftir fundinn.

Dalai Lama.

Svo mörg voru þau orð í þetta skiptið ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband