Facebook og Palli frændi

Jæja, loksins gat ég skilað af mér uppkasti af bókarkaflanum, sem ég hef verið að skrifa síðustu vikur ... og rosalega er það nú gott ...

... nú á ég bara eftir að lenda fyrirlestrinum mínum yfir EDRA-ráðstefnuna ... og ég mun vonandi senda hann í yfirlestur hjá leiðbeinandanum mínum á föstudaginn.

Annars er bara allt í stökustu lukku ...

... ég rak nefið inn á Facebook í dag, en það er nú eitthvað sem ég geri lítið af þessi misserin, og sá þar að ég hef verið "rankaður" þar af vinum mínum í 3. sæti yfir námsfýsi, sem engan skal nú undra sem þekkir mig ... alltaf að læra.  Svo er ég í 6. sæti í "smartheitum", þannig að ... jú, jú ... 
Þá er ég í 9. sæti yfir besta herbergisfélagann, en átti nú satt að segja von á því að vera í fyrsta sæti þar ... en þessu verð ég bara að kyngja.  Ég er líka í 9. sæti yfir þá sem munu "meika 'að", sem er náttúrulega argasta rugl ... því það er alveg dagljóst að ég mun "meika 'að" einhvern daginn.  Vinum mínum er alveg óhætt að treysta því!!!
Svo fer að syrta allverulega í álinn ... ég er í 12. sæti yfir besta brosið, þrátt fyrir að hafa alveg einstaklega fallegt bros, ég er í 14. sæti yfir besta hlustandann, og í 14. sæti í flokknum "nicest" ...

... svo er ég reyndar eitthvað meira sem ég nenni ekki að tala um ...

... hinsvegar er ég að velta fyrir mér hvernig þessir listar eru eiginlega samansettir, og eftir því sem ég hugsa meira um það, því minna skil ég í því.  Alltént væri gaman að vita hvað það væru margir þátttakendur í hverjum flokki, því annars segja þessa tölur minna en ekkert.  Það hlýtur að gefa auga leið ...

Já, og svo óska ég góðum frænda mínum og æskuvini Páli Eiríkssyni til hamingju með afmælið í gær ... hef nú reyndar ekki verið boðinn í afmæli til hans í fjölda mörg ár, en var lengi vel í áskrift.  Mætti ávallt í afmælið í sparifötum með fótboltaföt undir hendinni, því fótbolti úti í garði var fastur liður á afmælisdagskránni.  Gestirnir veltust svo fram og aftur um flötina rjóðir í kinnum og með grasgrænu í sparibuxunum, allirnema ég af því ég skipti um föt fyrir leikinn ... þetta voru helvíti skemmtileg afmæli, enda voru allir gestirnir, að mig minnir, hinir þokkalegustu knattspyrnumenn.

Ég man að einu sinni var hluti fótboltaleiksins tekinn upp á video ... og þegar allir gestirnir, nema ég, voru farnir horfðum við Palli á leikinn og dáðumst að leikni okkar ... að sjá þetta video nú væri náttúrulega tær snilld!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll frændi

Ég þakka fyrir afmæliskveðjuna. Það hefur því miður dregið úr afmælisveislum eftir því sem aldurinn hefur færst yfir. Þetta var hins vegar alveg eins og þú lýstir þessu í þá gömlu góðu daga - að því viðbættu að afmælisbarnið gætti þess alltaf að vera með uppáhaldsfrænda sínum í liði og gjarnan völdust þar guttar sem höfðu sannað sig á vellinum. Nú þarf maður að fara að grufla og leita að þessu myndbandi - verður maður ekki bara að lofa því að hafa það sem eitt af þessum innslögum þegar þið Lauga látið pússa ykkur saman.

 Vonast til að geta boðið ykkur í næsta afmæli - að því gefnu að þú takir takkaskóna með.

 Bestu kveðjur, Palli

Palli (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 15:53

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Sæll frændi

Ég held að við verðum að fara að taka aftur upp þann sið að bjóða hvor öðrum í afmælin okkar, ... ég á næsta leik ... þann 14. desember nk. verður afmælisveisla.  Ég er samt ekki búinn að ákveða hvort á dagskránni verður fótbolti eða slagsmálakeppni!

Bíð svo spenntur eftir næsta tækifæri að sýna afmælisgestunum þínum snilli mína, spurning hvort garðurinn við Grænuhlíð 14 verður laus umræddan dag ;)

Páll Jakob Líndal, 21.5.2008 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband