Tveir mánuðir og hrísgrjón

Í dag eru akkúrat nákvæmlega 2 mánuðir síðan Múrenan og spúsan komu til Sydney.  Klukkan 10 í morgun (þ.e. klukkan 12 að miðnætti að íslenskum tima - ójá, það er 10 tíma munur, heillin) var múrinn rofinn og nú blasir ekkert annað við en þriðji mánuðurinn, fullur af spennandi ævintýrum. 

Múrenan og spúsan héldu upp á tímamótin með "viðeigandi" hætti, þannig að klukkan tíu ... þegar klukkan sló ... voru þau að þrasa um hver hlustaði á hvern, hvenær, hvað, hvursu, hvurnig o.s.frv.  "Nei, nei, það er ég sem hlusta ... þú getur bara ekki komið hlutnum skýrt frá þér!!" "Heyrðu mig nú, ég er búin(n) að segja þér þetta 100 sinnum og þú virðist bara ekki nenna að hlusta"  "Hvaða rugl er þetta eiginlega??!?"  Þú skilur ... niðurstaðan engin, ekki frekar en vanalega, þegar svona hlutir eru ræddir með þessum hætti ...

Jæja, en það var nú ekki þetta sem Múrenan ætlaði að tala um, þó hún sé mjög hlynnt því að tímamót og hátíðahöld fái verðskuldaða athygli ... þetta eru náttúrulega þær stundir sem fólk man.  Til dæmis er Múrenunni 17. júní 1998 enn í fersku minni, þegar hún fór að grenja vegna þess að spúsan harðneitaði að fara Þingvöll, en þess í stað hékk eins og hundur á roði á því að fara niður í bæ.  Og hafði vinninginn!!  Hún má samt eiga það að hún huggaði Múrenuna eftir að hafa landað sigrinum.  Punkturinn með þessari sögu er að það er dagsetningin sem skiptir máli, ekki það að Múrenan hafi farið að brynna músum ... hún gerir það reglulega ... oft af minna tilefni en að vera neitað um að fara á Þingvöll á 17. júní. 

En eins og áður segir, ætlaði Múrenan ekki að ræða þessa hluti nú heldur það ... að ... hversu skynjun og mat á hlutum breytist við það að dvelja svona fjarri heimahögunum.  Því til staðfestingar, er ekki úr vegi að segja eina litla fallega sögu. 

Þannig var mál með vexti að Múrenan og spúsan ákváðu kvöld eitt að fá sér svínakjöt með súrsætri sósu og hrísgrjónum.  Af því tilefni, skruppu þau út, áttu viðskipti við matvöruveldið Coles með nauðsynlegt hráefni, fóru heim aftur og tóku til við að elda.  Ekki í sjálfu sér í frásögu færandi nema hvað ... Þegar Múrenan tók að handleika Tilda-hrísgrjónapakkann, komu merkilegir hlutir í ljós.  Leiðbeiningarnar á pakkanum voru á íslensku ... já Múrenan segir og skrifar það: Leiðbeiningarnar á pakkanum voru á íslensku. 

Íþróttaástundun í æsku og þokkalegt líkamlegt ástand; sterkir æðaveggir og fleira, var það sem kom í veg fyrir að ævi Múrenunnar hefði endað við þessa hrísgrjónapakkauppgötvun, slík var undrunin.  Í þessu landi, 20.000 km í burtu frá litla Íslandi, var innfluttur pakki af Tilda-hrísgrjónum, upprunninn frá Kína með íslenskum leiðbeiningum!!!  Spúsuna rak líka í rogastans.

Múrenan kynnti þessa uppgötvun í skólanum daginn eftir ... og kennarinn Lesley Walhorn varð undrandi.  Aftur var farið í gegnum mannfjöldatölur á Íslandi og hnattrænna stöðu Íslands miðað við Ástralíu, ... samt fannst Kínverjunum upphlaup Múrenunnar vera meira en tilefni var til.  "Vatt is só spisial abát þis???" spurði Jason sessunautur minn ... vááá, þessir Kínverjar ... þeir eru náttúrulega vanir því að leiðbeiningar á hrísgrjónapökkum og öðrum nauðsynjum hér séu á móðurmálinu!!  En fyrir Múrenuna og spúsuna var þetta meiriháttar mál, þrátt fyrir að hafa oft séð Tilda-hrísgrjónapakka með íslenskum leiðbeiningum ... sko á Íslandi ...

Eftir að mesta undrunin var yfirstaðin, greip um sig ósvikin og ógleymanleg gleði hjá Íslendingunum tveimur í íbúð 4 í húsi nr. 636 við Bourke stræti í Sydney ... þeir stigu dans, sungu lagið um "Járnkarlinn Árna" og hlógu frameftir nóttu. 

Og hugsaðu þér ... tilefnið var lítið sem ekkert ... aðeins einn blár Tilda-Basmati- hrísgrjónapakki - 500 grömm!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband