Besti dagurinn í Sydney til þessa!!

Það má segja að í dag 28. júní hafi Sydney-dvölin náð hæstu hæðum ... og það er svo sannarlega ástæða fyrir því.  Þannig var málum háttað, að eftir að hafa dvalið í skólanum fram eftir degi, hélt Múrenan heim á leið upp úr klukkan 17.30.  Gekk ákveðnum skrefum út af skólalóðinni og svo sem leið lá austur Cleveland Street ... það er alveg ótrúlega margbreytilegt að fara um Cleveland Street, því sums staðar er gatan nokkuð skemmtileg, tré, græn svæði og fallegar byggingar, en svo á öðrum stöðum er hún hreint ógeð, hávaði og mengun. 

Upphálds-Cleveland-Street-partur Múrenunnar er við búðina "MAO & MORE", nánar hús nr. 267-271.  MAO & MORE er kínversk antíkbúð ... og selur þarf að leiðandi kínverska antík, eins og styttur af Maó, stóla, borð, lampa, skápa og fleira.  Þar fyrir utan er hægt að fá skeinipappír með áprentuðu andliti núverandi Bandaríkjaforseta og fleira í þá veru. 

Þrátt fyrir það er það áhugaverðasta sem Múrenan hefur rekist á í útstillingarglugga verslunarinnar, stytta nokkur af Maó þar sem hann stendur uppréttur í bíl og veifar, eins og hann hefur sennilega gert nokkrum sinnum á valdatíma sínum, hér á árum áður.  Biksvartur bíll með engu þaki, bólstraður að innan í eldrauðu ... þrír öðlingar, þar af einn ökumaður, sitja í sætum sínum, sallarólegir.  Maó lítur líka út fyrir að vera alveg afslappaður við þetta tækifæri.

Þetta er alveg stórkostleg stytta ... en til allrar óhamingju var hún fjarlægð úr glugganum fyrir nokkrum dögum og hefur Múrenan áhyggjur af því að hún hafi verið seld einhverjum bastarði.  Það væri skrambans ólukka, því Múrenan var að safna fyrir Maó og bílnum.  Hugsanlega hefði þarna verið komin góð gjöf handa Leifi frænda ... styttan gæti þó verið bakatil í versluninni þannig að ekki er öll von úti enn.  Hins vegar veit Múrenan ekkert um það, því hún hefur aldrei stigið fæti sínum inn fyrir þröskuldinn á MAO & MORE.  Búðarskrattinn er alltaf lokaður.  Það er að segja ... hann er alltaf lokaður klukkan 17.30 þegar Múrenan á leið um Cleveland Street.  Einhver gæti þó hugsað sér að viðkoma í búðinni gæti verið álitlegur kostur áður en farið er í skólann ... en nei, Múrenan vill ekki heyra á það minnst enda alltaf á hraðahlaupum á leið sinni í skólann, of sein - alltaf!!

En já, þetta var góður dagur, því þegar komið var heim í Bourke Street eftir skóladvölina og Cleveland Street gönguna, tók við næsti dagskrárliður ... út að hlaupa ... Múrenan er að undirbúa maraþon, það var tilkynnt hátíðlega á þessari bloggsíðu fyriri nokkrum vikum, og ekkert hefur verið gefið eftir.  Múrenan fór í stuttbuxurnar og reimaði á sig skóna upp úr klukkan 18.45 og lagði af stað og viti menn ... ekki voru margir metrar að baki þegar Múrenan mætti konu nokkurri sem stóðst greinilega ekki mátið.  "Úúúúúúhhhh, sexy legs!!!" hrópaði hún yfir nærliggjandi umhverfi, í sömu mund Múrenan þaut framhjá.  Múrenan hélt ró sinni ... en þvílíkt egóbúst ... ekki einu sinni spúsa Múrenunnar hefur viðhaft slíkt orðalag!!  

Múrenan leit við og veifaði konunni.  "Thanks, mate."  Í fyrsta skipti á ævinni sagði einhver berum orðum við Múrenuna, að snjóhvítir, hárugir leggir hennar væru "sexy".  Múrenunni finnst engu máli skipta þótt konan hafi verið grútskítugur róni, sem var greinilega á vakt, með öðrum orðum var blindfull.  Í huga Múrenunnar er þessi kona, góð kona ... velinnrætt, hjartahlý og falleg, og hikar ekki við að slá ókunnugum gullhamra við hvert tækifæri.  Hún gerði daginn ógleymanlegan!!

Ef fleiri væru svona, væri heimurinn klárlega betri!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband