Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Er bara hægt að fara?!?

Það er nú í sjálfu sér afar gott að Kaninn sé að láta af þessari vitleysu í Írak, en hinsvegar getur maður ekki annað en spurt sig að því hvort þeir telji sig hafa náð upphaflegum markmiðum, sem voru meðal annars að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu.

Daglega týnir fjöldi fólks lífi, fjölmargir slasast, brjálæðingar og bandíttar vaða uppi ... maður spyr sig ... til hvers í ósköpunum þetta??  Og svona til að lenda í þversögn við mig sjálfan ... getur Kaninn bara farið þegar þeir sjá að þeir ráða ekki við verkefnið??  Er hægt fyrir þá að segja bara við írösku þjóðina: "Þið reddið þessu bara, við ætlum ekki að fórna fleiri mannslífum og meiri peningum í þetta". Íraska þjóðin er skilin eftir milli vonar og ótta, ástandið er ekki betra en það var og sjálfsagt verra og þeir sem ætluðu að redda málunum, nenna ekki meiru, fara og skilja eftir sig sviðna jörð!!

Maður er sum sé bæði með og á móti þessari samþykkt fulltrúadeildarinnar ...


mbl.is Samþykkt að kalla Bandaríkjaher frá Írak 1. september 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til frekari upplýsingar ...

... má geta þess einnig að Hannes Jónsson, söngnemi í Reykjavík, söng einsöng með þekktum reykvískum karlakór á æfingu í gærkvöldi.  Hannes er meðal fimmtán söngnema sem reyna nú fyrir sér hjá kórnum, í þeirri von að hreppa hnossið, sem er nú ekki af verri endanum en það er að  syngja með kórnum á árshátíð sem haldin verður í maí.

Hannes söng fyrstu tvær strófurnar í "Sjá dagar koma" af mikilli innlifun, missti aðeins dambinn um miðbik lagsins en það verður að segjast að lokatónarnir hjá Hannesi voru glansandi góðir.  Þess má að lokum geta að fjórir þekktir söngmenn eru í karlakórnum, þeir Björn Axelsson smiður, Pétur Pétursson einnig smiður, Jón Hannesson endurskoðandi (sem einmitt er faðir Hannesar) og Friðrik Már Björnsson eigandi Furuverkstæðisins.  Friðrik söng þó aðeins hálfa æfinguna.


mbl.is Bjarni Þór í tapliði Everton gegn Manchester United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjumikill rausnarskapur

Það er sama hvað ég reyni, ég get bara ekki fengið færri en tvö eintök af Fréttablaðinu inn um lúguna á hverjum einasta morgni.  Þrátt fyrir fögur fyrirheit þjónustufulltrúa Fréttablaðsins um bót og betrun að þessu leyti detta inn á morgana, oftast tvö blöð, einstaka sinnum þrjú en hafa mest farið upp í fjögur.  Þar sem tvær manneskjur innan veggja heimilisins lesa Fréttablaðið dag hvern, að jafnaði, má með auðveldum útreikningum finna út að fjöldi eintaka á hvern lesanda er á bilinu 1 - 2 blöð á dag.  Rausnarskapurinn er því með mesta móti ... en á móti kemur að útbýttur eintakafjöldi Fréttablaðsins árið um kring, hlýtur 365 afar hagstæður, enda ekki lítið að vera með "stærsta" dagblaðið innan sinna vébanda!!!


Fínn pallur

Eftir að hafa haft viðkomu í Miklagljúfri á ferð minni yfir Bandaríkin fyrir nokkrum árum, þá get ég rétt ímyndað mér að það sé upplifun að ganga út á þennan nýja útsýnispall.  Ekki er þó laust við að ég finni til lofthræðslu við það eitt að horfa á myndina sem fylgir fréttinni og það sækir sterklega að mér að það sé banna að hoppa og fíflast, þegar komið er fram í "tána" á skeifunni, einfaldlega vegna hættu á að hún sporðreisist eða bogni.

Þá er þarna í fréttinni, nýstárlegt orð ... en það er orðið "næstfyrstur".  Í fréttinni segir: "Meðal fyrstu manna sem fetuðu sig út á pallinn var Buzz Aldrin, sem varð næstfyrstur manna til að stíga fæti á tunglið".  Já, það er alltaf gaman að bæta við orðaforðann sinn ...


mbl.is Indjánahöfðingjar og fyrrverandi geimfari í 1.200 metra hæð yfir Miklagljúfri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæplega 4.000 um klukkan 22

Í pósti sem barst frá Framtíðarlandinu um klukkan 22 í kvöld kom fram að "fjöldi undirskrifta nálgast nú hratt fjórða þúsundið við lok 2. dags söfnunarinnar".  Þá geta reiknimeistarar farið að reikna aftur hversu margir eigi eftir að skrifa undir - hvort telja eigi ómálga börn með eða miða kannski við fjölda kosningabærra manna og kvenna.  Allavegana ... fínt það sem komið er ... en það mega alveg fleiri skrá sig. 


Mengun!!

Eftir að hafa lesið gagnlegt viðtal, sem birtist á vef Framtíðarlandsins, við Sigurð Inga Friðleifsson framkvæmdarstjóra Orkuseturs ákvað ég að reikna út orkunotkun Skodans sem ég ek um á, eins og fínn maður.  Niðurstaðan var sú að á 1 ári eða eftir 12.000 km akstur, þá skilja bílferðir mínar eftir sig um 1,9 tonn af koltvísýringi, já takk 1,9 tonn.  Ég hef eytt rúmlega 800 lítrum af bensíni og að því gefnu að lítrinn kosti um 110 kr., greiði ég um 88.000 kr. fyrir það að komast á milli staða og skilja eftir mig öll þessi ósköp af CO2.

Svona er maður nú tvöfaldur í roðinu, malar signt og heilagt um náttúruvernd og blabla en þetta er niðurstaðan - 1.900 kg af koltvísýringi á ári, auk fjölmargra kílóa af einhverju öðru álíka heilsusamlegu. Gleymum heldur ekki svifrykinu ... þá er ótalin mengunin sem fylgdi flugferðum mínum til Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Austurríkis og Bretlands á síðustu misserum.  Það er nú varla að ég þori að hugsa um flugferðina til Sydney, sem hvílir yfir mér eins og mara ... ekki verður sú ferð í beinlínis í þágu náttúrunnar ...  O boj öll þessi mengun og bara á einu ári!!

 


Skrifið undir!!!

Fer orkan ef hún verður ekki gripin núna? Eða er virkjunarbrjálæðið kannski hræðsla, vonleysi, skortur á hugmyndaauðgi og oggulítil græðgi?  Hví í ósköpunum má ekki setja fram forgangsröðun og stefnuskrá um nýtingu orkuauðlinda á Íslandi ... bara hægja aðeins á og líta í kringum sig.  Eru bara engir aðrir möguleikar en að virkja og virkja ... helst umhugsunarlaust.

Með þessu er ég þó ekki að segja að það virkjunarbann eigi að ríkja á Íslandi í framtíðinni ... það er hins vegar vel í réttlætanlegt að mörkuð sé stefna í þessum málum. 

 


mbl.is Yfir 1.400 manns hafa undirritað sáttmála um framtíð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei of varlega farið ...

Það er alveg dásamlega orðað að einhver fari "varlega í fjárfestingum" þegar hann hættir við að kaupa sér einbýlishús fyrir 2.500.000.000.- kr.  Nærtækara væri að kalla það bara "vott af skynsemi" en jæja ... Beckham-hjónin og heimildamenn The Sun hafa önnur viðmið en ég.


mbl.is Draumaeign Beckhamhjónanna í Beverly Hills var of dýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir segir: "Down on your knees!"

Þó nokkuð sé liðið síðan hæstvirtur forsætisráðherra tók það fram í ræðu, væntanlega í því skyni að vera fyndinn, að það væri ekki alltaf hægt að fara heim af ballinu með sætustu stelpunni, þá finnst mér alveg gráupplagt að benda Geira og meðreiðarsveinum hans á ofurlítinn lagstúf sem gaman gæti verið taka, næst þegar hann vill vera fyndinn.  Lagið heitir Down on your knees og er af plötunni KISS Killers ... höfundar lags og texta eru Paul Stanley, Mikel Japp og Bryan Adams.

Af ótta við lögsókn af hálfu KISS þori ég ekki að setja nema stutt brot af laginu hér inn á bloggið  ... þannig að Geir verður bara að hafa samband við mig ef hann vill heyra lagið í heild sinni, en svo getur hann náttúrulega bara keypt diskinn eða "dánlótað" af netinu.  Það er að segja ef hann vill nýta sér hugmynd mína ...


Hvað er hættulegt og hvað ekki???

Að fljúga í 33 metra hæð í 33 metrum á sekúndu til að rannsaka vindrastir við Grænland er ekkert fyrir mig, líkt og ég gaf til kynna hér á blogginu fyrir nokkrum dögum ... að vera um borð í dekkhlöðnu gámaflutningaskipi sem hallast 45° eftir að hafa fengið yfir sig brotsjó er heldur ekkert fyrir mig.  Skipstjórinn taldi að ekki væri hætta á ferðum ... ég skil þetta ómögulega.  Þegar ég var í sveit fyrir nokkrum árum, taldi ég ekki ráðlagt slóðadraga tún á opnum traktor ef vindstyrkur væri meiri en 15 m/s, af þeirri einföldu ástæðu að traktorinn gæti fokið út í skurð með manni og mús.

Mér var boðið að laga til í skemmunni í staðinn ... Arnar myndi þá bara slóðadraga.

Ef einhverjir vita ekki hvað er "að slóðadraga" þá segir í Orðabók Menningarsjóðs frá árinu 1985 að slóðadraga sé "að fara með slóða yfir" - tja, upplýsandi ... veit ekki ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband