Ritstörf

Þessa dagana er ég að vinna að ritun kafla, ásamt Sigrúnu Helgadóttur náttúrufræðingi og kennara, um áhrif náttúrunnar á andlegt og líkamlegt atgervi fólks.  Meiningin er að kaflinn verði hluti bókar, sem verið er að setja saman til heiðurs Arnþóri Garðarssyni líffræðingi, sem varð sjötugur ekki fyrir svo margt löngu.

Ég lít svo á að um hálfgert frumkvöðlastarf sé hér að ræða, því eftir því sem ég best veit hefur afskaplega lítið verið ritað um þessi mál á Íslandi.  Vissulega hafa verið skrifaðir pistlar um að það hljóti bara að vera betra að vera uppi á fjöllum en að standa gapandi við Reykjanesbrautina og hlusta á umferðarniðinn, en ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem "vísindalega" er tekið á málinu. 

Ef einhver veit betur ... vinsamlegast látið mig vita ...

... því það sem blasir við mér, er mjög praktískur vandi, en það er að þýða sum hugtök umhverfissálfræðinnar yfir á íslensku.  En ef einhver er nú þegar búin(n) að því, gæti töluverð vinna sparast.

En svona til upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa, þá virðist náttúran hafa, og ótal rannsóknir styðja það, mjög jákvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu fólks.  Hins vegar vita menn ekki af hverju þessi áhrif eru svona sterk, en tvær helstu kenningar dagsins í dag, gera ráð fyrir að skýringuna megi finna í því að einu sinni héngu forfeður okkar í trjánum.  Með öðrum orðum, það eru þróunarfræðilegar skýringar á þessu öllu saman.

En ég held að allir unnendur náttúrunnar, geti farið að spenna beltin og gera sig klára fyrir að lesa spennandi kafla, það er að segja, eftir að bókin er komin út, því hann gæti verið mjög áhugaverð lesning, þó ég segi sjálfur frá. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband