Daglegt líf í Sydney

Þessi dagur byrjaði líkt og aðrir dagar, á því að ég vaknaði upp úr kl. 7.  Eftir kjarngóðan morgunverð og gott spjall við Laugu, tók ég hjálminn minn niður af skápnum, spennti á mig bakpokann, stökk á hjólhestinn og hélt á vit ævintýranna.

Fyrsta málið á dagskrá í dag var að lesa yfir grein eina, sem fjallaði um augnhreyfingar fólks þegar það horfir á ljósmyndir af náttúrunni annars vegar og af borgarumhverfi hins vegar.  Niðurstöðurnar voru kýrskýrar, fólk hreyfir augun meira þegar það horfir á myndir af borgarumhverfi, sem gefur til kynna að slík iðja krefjist meiri athygli en áhorf náttúrumynda og það leiðir til aukinnar andlegrar þreytu, sem síðar skilar sér í streitu ... já, já og svo framvegis ...

Eftir lesturinn hélt ég á fund.  Fjögurra manna fundur þar sem kenningar um "restoration" voru til umfjöllunar.  Í dag reyndum við að finna einhvern flöt á því hvort hægt væri að sameina kenningar Kaplan-hjónanna og Rogers Ulrich, en báðar eru þessar kenningar eru gríðarlega mikið notaðar til að skýra hvers vegna mismunandi umhverfi hefur misjöfn áhrif á fólk.  Ekki gekk nú að samþætta þær á fundinum, enda sennilega meira en klukkutíma verk að umbylta öllum fræða-literatúrnum!  Ég fékk samt það verkefni að útbúa flæðirit, þar sem báðum kenningunum er hnoðað saman.

Matur.  Hakk og pasta ... alveg listilega og lystilega gott.  Ég og hin hollenska Karin, spjölluðum yfir matnum, fórum með gamanmál og ræddum sálfræðikenningar.

Að loknu borðhaldinu, hélt ég á annan fund.  Í þetta skiptið var það með prófessornum mínum.  Ræddum við umsókn sem ég hef verið að undirbúa síðan á föstudaginn, þar sem sóttst er eftir peningum til að komast á IAPS-ráðstefnu í Róm í júlí næstkomandi, en IAPS stendur fyrir International Association of People-environment Studies.  Ég sendi grein í desember síðastliðnum til IAPS í þeirri von að geta komið henni að á ráðstefnunni og var hún samþykkt.  Þannig að eins og mál standa, á ég að halda fyrirlestur í Róm í sumar um áhrif borgarumhverfis á sálarlíf fólks.  Skortur á peningum gæti þó komið í veg fyrir að svo verði ... þess vegna er verið að möndla umsóknina.

Jæja, eftir fundinn svo hélt ég áfram að græja umsóknina og þegar það var allt saman komið í strand, sneri ég mér að því að koma blessuðu hjólinu mínu í viðgerð.  Það þarf aðeins að herða það upp og fixa gírana, og þá mun ég hjóla eins og fálki um stræti og torg Sydney-borgar.

Aftur fór ég svo í skólann.  Nú lá fyrir að ljúka við einn abstrakt, sem ég ætla að senda á ráðstefnu sem verður á Ítalíu í sumar.  Ég hef nú ekki hug á því að fara á þá ráðstefnu, enda er hægt að sækja um svokallaðan "virtual" aðgang að henni og borga fyrir það ekki nema $300 eða um 20.000 kr.  Þann pening hef ég náttúrulega í rassvasanum nú þegar og veit bara ekkert hvað ég á að gera við.  Ráðstefnugjald er því kærkomið tækifæri til að spandera aurunum ... eða ... ??

Mamma var komin á Skype-línuna hjá mér upp úr klukkan 8 að íslenskum tíma ... hún var bara hress og sagði mér margar sögur af öllu mögulegu, uns hún tók að krefja mig um fréttir.  Þær stóðu ekki á sér og réttum klukkutíma síðar slitum við samtalinu.  Þá var Lauga komin upp á skrifstofu til mín, eftir margra klukkutíma bæjarferð, þar sem verslað var efni sem nota skal til frekari afreka á hönnunarsviðinu ... eyrnalokkasviðinu (kíktu á www.123.is/lauga ef þú hefur ekki hugmynd um hvað ég er að tala).
Ég aðstoðaði hana við að búa til nafnspjöld og að því loknu héldum við heim á leið, komum við í bókabúðinni og keyptum þar þrjár bækur fyrir samtals 800 kr.

Áttum svo saman langt og skemmtilegt spjall fram eftir kvöldi, þar sem við ræddum lífsins gagn og nauðsynjar ...

Já, svona var nú dagurinn 15. apríl 2008 hér í Sydney!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aaaa en góð færsla ég elska að lesa svona daglegt líf í Sydney hjá ykkur Laugu... þið eruð nottlega frábær

Sigrún (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 22:10

2 identicon

En dásamlega kósý hjá ykkur... og myndirnar svo skemmtilegar!

Mín uppáhalds er af laugu bumbu í rauðum kjól :) Vá hvað hún er orðin stór og flott kúlan...

Ástarkveðjur frá okkur :*

Steina og co.

Steina Vala (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband