Hjólakaupin

Í dag eignaðist Múrenan langþráðan grip, grip sem hún náði loks að skrapa saman fyrir ... hér er verið að tala um hjól.

Og þvílíkur munur!!

Í stað þess að þurfa að ganga út um allar trissur, sem getur vissulega verið mjög tímafrekt hér í Sydney, getur Múrenan vippað sér á hjólhestinn og brunað eins og eldibrandur á milli staða. 
Samt sem áður er sá galli á gjöf Njarðar að umferðin hér í Sydney, er ekki alveg hefðbundin, að minnsta kosti ekki samanborðið við það sem Múrenan er vön í þeim efnum. 

Já, það er rétt hjá þér kæri lesandi ... Ástralir keyra á öfugum vegarhelmingi.  Kannski ekki skrýtið, þar sem Bretar lögðu Ástralíu undir sig, undir lok 18. aldar þegar Arthur Philip stýrði Fyrsta flotanum örugglega til "hafnar" í þessari fjarlægu heimsálfu, og Bretar hafa aldrei almennilega skilið umferðarreglurnar ...

En jæja, aftur að hjólinu, sem er 21 gíra fjallahjól ... það verður guðdómlegt að þeysa um á því bæjarhlutana á milli, láta hárið flaksast í hlýrri golunni og sólin bakar handleggi og andlit, eins og henni er einni lagið ... Múrenan verður sólbrún og sælleg ... og þvengmjó!!

Nú má reikna með að ferðin frá Bourke Street niður í skóla og til baka styttist allverulega, það er í mínútum talið, kannski úr 30 mínútum aðra leiðina í 12.  Hver veit??  Múrenan á eftir að mæla það með vísindalegum hætti ... en það verður gert við fyrsta tækifæri!!
En tilgangur hjólakaupanna var nú samt ekki sá að stytta leiðina í skólann, heldur til að skapa möguleika á því að hjóla frá skólanum á fótboltaæfingar, en þær eru í Magdala, sem er í norðurhluta Sydney.  Leiðin þangað er um 13-14 km, þannig að hjól er ekki slæmur kostur, betri að mati Múrenunnar en að þiggja bílfar hjá Gary þjálfara.  Gary er hinsvegar ekki jafn sannfærður og Múrenan um ágæti þess "að hjóla alla þessa leið, fram og til baka", eins og hann kýs að orða það.  En Múrenan lætur orð Garys sem vind um eyru þjóta ... en maðurinn er kanadískur!!!  Hann þekkir ekki þann íslenska eiginleika að gera bara hlutina í stað þess að vera að velta fyrir sér hvort þeir séu framkvæmanlegir eða skynsamlegir!! 

Múrenan í Sydney biður lesendur sína um að skila eftir í athugasemdaboxinu góðar kveðjur og óska þess að henni fatist ekki flugið í umferðinni og verði straujuð niður af rútu, bara vegna þess að hún leit til vinstri þegar heppilegra hefði verið að líta til hægri ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

á tæknitímum eins og við lifum í dag finnst mér svakalegt að það fylgi ekki mynd af umræddu reiðhjóli með færslunni.

 ég hef tekið þá afstöðu að trúa ekki þessari færslu fyrr en ljósmynd af múrenunni á reiðhjólinu er komin á veraldarvefinn...

smalinn (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 11:50

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Múrenan getur ekki verið annað en sammála vini sínum smalanum, um það að skortur á mynd af farartækinu með færslunni er náttúrulega ótæk ráðstöfun!!

Það verður hins vegar að viðurkennast að Múrenan hjólaði á nýja hjólinu úr búðinni og í skólann og tók hjólið með sér inn á skrifstofu og geymdi það þar í allan dag.  Ákvað svo að þiggja far hjá Gary, og nennti svo ekki að hjóla heim í kvöld, þannig að Gary keyrði hana heim ... ekkert sérlega gott afspurnar (sérstaklega í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga í færslunni) ...

Hjólið er sum sé niðr' í skóla og Múrenan getur ekki tekið mynd af því núna, því það er komið kvöld og koldimmt úti ...

En ... mynd af hjólinu og Múrenunni mun birtast á morgun ;) .

Páll Jakob Líndal, 5.3.2008 kl. 12:25

3 identicon

Takk fyrir - smalinn bíður hinn spenntasti eftir ljósmyndinni miklu! :)

smalinn (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 16:40

4 identicon

Til

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 20:11

5 identicon

Til hamingju með hjólið! Ég var einmitt að segja við Stjóra í gær hvort það væri ekki ráð fyrir ykkur að fá ykkur hjól í staðinn fyrir að fara allt fótgangandi, þó ekki væri nema til að minnka ferðatímann. Það hefur greinilega einhver fengið hugskeyti :) En þó ekki nema hálft skeytið því ég sé ekki alveg hvernig eitt hjól dugar fyrir tvær manneskjur í einu... eða fær Lauga kannski hjól í afmælisgjöf? Farðu varlega í umferðinni góði minn og passaðu þig á kengúrunum.

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband