Færsluflokkur: Lífstíll

Hjólakaupin

Í dag eignaðist Múrenan langþráðan grip, grip sem hún náði loks að skrapa saman fyrir ... hér er verið að tala um hjól.

Og þvílíkur munur!!

Í stað þess að þurfa að ganga út um allar trissur, sem getur vissulega verið mjög tímafrekt hér í Sydney, getur Múrenan vippað sér á hjólhestinn og brunað eins og eldibrandur á milli staða. 
Samt sem áður er sá galli á gjöf Njarðar að umferðin hér í Sydney, er ekki alveg hefðbundin, að minnsta kosti ekki samanborðið við það sem Múrenan er vön í þeim efnum. 

Já, það er rétt hjá þér kæri lesandi ... Ástralir keyra á öfugum vegarhelmingi.  Kannski ekki skrýtið, þar sem Bretar lögðu Ástralíu undir sig, undir lok 18. aldar þegar Arthur Philip stýrði Fyrsta flotanum örugglega til "hafnar" í þessari fjarlægu heimsálfu, og Bretar hafa aldrei almennilega skilið umferðarreglurnar ...

En jæja, aftur að hjólinu, sem er 21 gíra fjallahjól ... það verður guðdómlegt að þeysa um á því bæjarhlutana á milli, láta hárið flaksast í hlýrri golunni og sólin bakar handleggi og andlit, eins og henni er einni lagið ... Múrenan verður sólbrún og sælleg ... og þvengmjó!!

Nú má reikna með að ferðin frá Bourke Street niður í skóla og til baka styttist allverulega, það er í mínútum talið, kannski úr 30 mínútum aðra leiðina í 12.  Hver veit??  Múrenan á eftir að mæla það með vísindalegum hætti ... en það verður gert við fyrsta tækifæri!!
En tilgangur hjólakaupanna var nú samt ekki sá að stytta leiðina í skólann, heldur til að skapa möguleika á því að hjóla frá skólanum á fótboltaæfingar, en þær eru í Magdala, sem er í norðurhluta Sydney.  Leiðin þangað er um 13-14 km, þannig að hjól er ekki slæmur kostur, betri að mati Múrenunnar en að þiggja bílfar hjá Gary þjálfara.  Gary er hinsvegar ekki jafn sannfærður og Múrenan um ágæti þess "að hjóla alla þessa leið, fram og til baka", eins og hann kýs að orða það.  En Múrenan lætur orð Garys sem vind um eyru þjóta ... en maðurinn er kanadískur!!!  Hann þekkir ekki þann íslenska eiginleika að gera bara hlutina í stað þess að vera að velta fyrir sér hvort þeir séu framkvæmanlegir eða skynsamlegir!! 

Múrenan í Sydney biður lesendur sína um að skila eftir í athugasemdaboxinu góðar kveðjur og óska þess að henni fatist ekki flugið í umferðinni og verði straujuð niður af rútu, bara vegna þess að hún leit til vinstri þegar heppilegra hefði verið að líta til hægri ...


"Að vera í formi" III

Þrátt fyrir að hafa komist að einhverri niðurstöðu í gær varðandi skilgreiningu á því "að vera í formi", þá ætla ég að lagfæra hana svolítið, þar sem ég gleymdi algjöru lykilatriði.   

Ný skilgreining á því "að vera í formi" (og vonandi betri): "Að vera í formi er þegar líkamleg geta og andleg líðan einstaklings er í samræmi við raunhæfar væntingar hans um eigin líkamlega getu og andlega líðan." 

Hvaða væntingar gerir þú til eigin andlegrar líðan?  Ef þú ert stressuð/aður, finnst þér það ásættanlegt?  Viltu vera stressuð/aður?  Finnst þér það þægilegt?  Ótrúlega margir og alltof margir eru óánægðir með sjálfan sig, er það ásættanlegt viðhorf?  Ef ekki, hvert er þá ásættanlegt viðhorf?  Hvernig finnst þér að þér eigi að líða andlega?  En líkamlega?

Fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að koma sér af stað af hefja reglulega líkams- og heilsurækt, með það að augnamiði að komast í "form", ættu að velta þessum spurningum fyrir sér - ef til punkta eitthvað niður á blað, pæla í því.

Þetta eru orð dagsins frá Múrenunni.

 


"Að vera í formi" II

Eftir töluverðar vangaveltur og eftirgrennslan í tengslum við spurningu gærdagsins um hvað sé "að vera í formi", set ég fram eftirfarandi drög að skilgreiningu:

"Að vera í formi er þegar líkamleg geta einstaklings er í samræmi við raunhæfar væntingar hans um eigin líkamlega getu og andlega líðan."

Þannig ákvarðast "form" viðkomandi af hans eigin hugmyndum um að hvað er "að vera í formi" í stað þess að miðast út frá því hvenær öðrum finnst hann vera "í formi".  Fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað að stunda reglubundna hreyfingu, gæti því verið ráð að velta eigin hugmyndum um "form" fyrir sér.  Einn gæti talið sig "að vera í formi" þegar hann getur gengið upp á Esjuna þó það taki hann heilan dag meðan annar lítur á sig "í formi" ef hann lýkur maraþonhlaupi á innan við 3 klukkustundum.

Að þessu sögðu segi ég bara pass!!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband