Mikilvægi morgunmatarins

Eftir pistil minn í gær ákvað ég að í dag væri bæði staður og stund til að slá á ögn léttari strengi og ætla ég því að segja litla sögu af frænku minni sem var hjá mér í pössun um helgina.  Eins og gera mátti ráð fyrir að hún hin hressasta lengi vel, tók við skipunum og gaf skipanir til skiptis.  Allt gekk eins og í hinu besta ævintýri en skyndilega síðdegis á sunnudeginum tilkynnti hún mér að sér væri mjög illt í maganum.  

„Nú?!?“ spurði ég „hvernig í ósköpunum stendur á því?“ 

Sú stutta var með svör á reiðum höndum.  „Kannski bara af því að ég er vön að borða morgunmat!“  Það mátti greina hneysklun í málrómnum.

Ég verð samt að viðurkenna að ég skyldi ekki alveg þessa röksemdarfærslu svo síðla dags og svaraði því eftir dálitla umhugsun: „Já en ... í dag ert þú bæði búin að borða morgunmat og hádegismat og svo var kaffitími núna rétt áðan.“

Frænkan ranghvolfdi í sér augunum og hristi hausinn.  „Ohhh ... þú skilur ekkert!!!“  Svo setti hún hendur á mjaðmir og sagði ábúðarmikil: „Sko ... ég er vön að borða morgunmat og mér er illt í maganum vegna þess að ég borðaði engan morgunmat í gær!!!“  Hún horfði stíft beint í augun á mér og líklega hefur hún séð alveg aftur í hnakka í það skiptið.  Ég sá að það þýddi greinilega ekki að deila við dómarann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ég man eftir þessu, þetta var hrikalega fyndin stund.  En það má geta þess að þessi frænka er 8 ára gömul

Sigurlaug (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband