Mánudagur 19. nóvember 2012 - Um fórnfýsi

Í kvöld ræddum við Lauga um fólk sem stundar þá iðju að vera "sífellt að fórna sér fyrir aðra" eins og það kallast. "Að láta sjálft sig mæta afgangi" mætti líka kalla það. Sem er merkilegt fyrirbæri.

Ég lagði einu sinni land undir fót við annan mann. Ferðin lá austur á firði og því var um nokkurn veg að fara. Þar sem mér finnst ákaflega gaman að spjalla við fólk, leið ekki á löngu að ég tók að fitja upp á einhverjum umræðum.  
Undirtektirnar voru hinsvegar í dræmara lagi og svo fór í Mýrdalnum að ég hætti bara alveg að fá svör. Ég beið í smástund, bara til að sjá hvort samferðamaður minn myndi hefja umræðuna á nýjan leik enda þekktur fyrir flest annað en að þegja tímunum saman.
En það gerðist bara ekkert, þannig að ég fór að ganga á hann með þetta. Með töluverðri ýtni tókst mér að kreista það upp úr að viðkomandi gæti eiginlega ekki talað vegna æðisgenginnar tannpínu, sem hefði hrjáð hann í tvo, þrjá daga. 

Og af hverju hafði hann ekki látið mig vita? Jú, af því að hann vildi ekki að ég hefði áhyggjur. 
Af hverju fór hann ekki til tannlæknis áður en við lögðum af stað? Jú, af því hann vildi ekki riðla prógramminu sem hafði verið löngu ákveðið, vitandi að ég hefði takmarkaðan tíma.

Eitthvað vit í þessu? Nei. Algjörlega ekki ... þarna var maður sumsé staddur á miðjum Mýrdalssandi seint að kvöldi með manneskju sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð vegna tannpínu. Og það var ekki eins og maður væri eitthvað á leiðinni inn á tannlæknastofu á næstu dögum.

... og allt vegna þess að það er verið að "fórna sér fyrir aðra".

Vissulega er göfugt að brjóta odd af oflæti sínu öðru hverju, gera fleira en gott þykir og líta af eigin nafla ... en þegar slíkt er farið að valda vanlíðan og farið að gera meira slæmt en gott, er allt eins gott að staldra aðeins við og athuga hvort "fórnfýsin" sé ekki farin að bíta allsvakalega í skottið á sér.

Að vera staddur víðsfjarri tannlæknastofu á sama tíma og "fórnfús" samferðamaður manns er illa þjáður af tannpínu er langt frá því að vera góð skemmtun - fyrir hvorugan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband