Miðvikudagur 21. nóvember 2012 - Nei-börn og vegalengdir

"Pabbi, batteríð er búið", sagði GHPL við mig í kvöld um leið og hún rétti mér kúlupenna sem orðinn var bleklaus. Ekki slæm nálgun það.

Þegar GHPL var töluvert yngri en hún er núna, tókum við Lauga þá ákvörðun að takmarka mjög notkunina á orðinu "nei" í samskiptum við dótturina. Þess í stað var stefnan að beina athygli hennar að öðrum hlutum eða hreinlega nota bara önnur orð.

Niðurstaðan var sú að úr varð eitthvert mesta "nei"-barn sögunnar.

Þrátt fyrir það héldum við uppteknum hætti við PJPL. Beina athyglinni að öðrum hlutum eða nota önnur orð en "nei".
Niðurstaðan er sú að á heimilinu er mesta "nei"-barn sögunnar. Blessaður pilturinn segir bókstaflega "nei" við öllu.

Ég er samt ekki sannfærður um að þessi aðferð virki ekki - sem er út af fyrir sig svolítið skrýtið. 

---

Allt frá því við fluttum af Johannesbäcksgötunni fyrir rétt tæpu ári höfum við notast við strætó til að koma blessuðum börnunum á leikskólann. Enda eru strætósamgöngur nokkuð góðar hér í Uppsala.

Því miður getum við þó ekki tekið þann strætó sem stoppar næst okkur, því það myndi kosta skiptingu niður í bæ sem ég nenni ekki að standa í. Við tökum því strætóinn sem stoppar næstnæst okkur. Og það kallar á pínulítið rölt af okkar hálfu.

Ég ákvað í gær að kanna hversu langt þetta rölt okkar út á strætóstoppistöð væri og komst að þeirri niðurstöðu að vegalengdin væri einir 750 metrar. Svo kannaði ég líka vegalengdina milli stoppistöðvarinnar þar við yfirgefum strætóinn og leikskólans. Hún er 650 metrar.

Niðurstaðan er því sú að auk þess að sitja um 45 mínútur í strætó, gengur GHPL um 1400 metra á hverjum morgni.
Ég veit ekki alveg hvernig málum er háttað á leiðinni heim úr leikskólanum en þar held ég að GHPL sníki sér stundum far í kerru bróður síns. Þá er aðferðin sú að hún situr með bróðurinn í fanginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

„Geðveiki er að endurtaka sífellt sömu aðferðina og búast við annarri niðurstöðu en áður,“ sagði Einstein

Guðmundur Sverrir Þór, 22.11.2012 kl. 08:55

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Það er reyndar hárrétt :) ... þetta er bara svo svakalega góð aðferð ...

Páll Jakob Líndal, 26.11.2012 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband