Miðvikudagur 8. febrúar 2012 - Mataræði og met

Eitt af því sem ég hef alltaf verið mjög áhugasamur um er heilsan, bæði líkamleg og andleg. Og ekki virðist ég einn um þann áhuga.

Í gegnum tíðina hef ég verið alveg sæmilega duglegur í því að viða að mér efni um heilsuna, kannski meira varðandi andlega heilsu en þá líkamlegu. Það er þó eitt sem ég hef aðeins nýlega byrjað að spá í ... og það er mataræði.

Lengi vel vildi ég ekki horfast í augu við mataræði skiptir afskaplega miklu máli fyrir almenna vellíðan, ég áleit mat bara orkugjafa og meðan jafnvægi væri á milli orkuneyslu og orkunotkunar þá væri bara allt í fínu lagi.

Það verður auðvitað hver að finna út úr því fyrir sjálfan sig en í mínu tilfelli hef ég komist að því að það er ekki hægt að líta á mat einungis sem orkugjafa án þess að spá í gæðum hans. Upphafið að þessu má rekja til hásinavandamála minna sem stöfuðu að stóru leyti, leyfi ég mér að segja, af rangri orkuinntöku.
Eftir að ég fann orsakavaldinn, sem voru gosdrykkir í töluvert miklu magni, þá hef ég ekki fundið til í hásinunum í eina sekúndu. Þetta hefur orðið mér hvatning til að líta á mataræðið í víðara samhengi.

Af þessari ástæðu hef ég verið að kíkja á greinar sem fjalla um mataræði og ég verð að segja það að það er alveg ótrúlega mikið af alls konar rugli í gangi ... maður er eiginlega bara hissa ...

Hvað er t.d. málið með allt þetta prótein-dæmi sem svo margir eru að innbirgða. Ég er ekki saklaus af því ... rankaði svo við mér einn daginn og spurði sjálfan mig af hverju? Hef ekki fundið svarið ennþá.
Þetta minnir mig á "kreatín"-umræðuna sem var í gangi fyrir tæpum 20 árum, þegar ég var á fullu í fótbolta. Allt liðið var taka kreatín. Einn daginn datt mér í hug að tala við Sigga Bjarklind sem þá var líffræði- og lífeðlisfræðikennarinn minn. Siggi sagði einfaldlega að inntaka á kreatíni skipti engu máli fyrir fótboltamenn sem spiluðu leiki í 90 mínútur því líkaminn nýtti kreatínið á fyrstu tveimur mínútunum eða eitthvað álíka ... Siggi vissi hvað hann söng því enn hafa engar vísindalegar rannsóknir sýnt fram á mikilvægi kreatíns fyrir íþróttamenn sem stunda annað en "sprett-íþróttir".

Í þessari mataræðisumræðu er líka alltaf verið að tala um hitaeiningar og fitu náttúrulega. Ég las t.d. eina grein á DV.is í dag þar sem verið að fjalla um hversu lengi maður þyrfti að hlaupa til að nýta alla orku sem væri að finna í hinum ýmsa mat og drykk. Sagt var að það taki 86 kg þungan mann einn klukkutíma að brenna upp orkunni úr 1,5 lítra af kóki.
Eflaust er þetta alveg rétt ... mér finnst samt þetta svo skringleg framsetning og samhengislaus. Hvaða breytur eru eiginlega teknar inn í þessa útreikninga? Er grunnbrennslan, þ.e. orkuþörfin til að líkamskerfunum gangandi tekin með? Bara hún tekur um 70% af orkunni, þar af tekur heilinn um 20%. Ef 1,5 lítri af kóki telur um 645 kílókalóríur, þá ætti grunnbrennslan að taka um 450 kkal og þá eru eftir um 200 kkal. 86 kg maður þarf ekki að hlaupa í 60 mínútur til að brenna 200 kkal.? Hann þarf að hlaupa um 2,5 km sem tekur í mesta lagi 15 - 20 mín, allt eftir formi og stemmningu.

Væri þá ekki réttara að taka fram í þessum pistli sem ég var að lesa í dag, að þessar tölur miðuðu við að engin orka færi í aðra ferla en það að hlaupa. Upplýsingar eru því ekkert endilega rangar en þær eru ansi villandi og það er hætt við að ofeldið í heiminum væri á álítið öðru plani ef maður þyrfti að hlaupa í klukkutíma eftir að hafa drukkið 1,5 lítra af kóki.

Það má vel vera að ég sé gjörsamlega úti á túni í þessari færslu minni ... en þetta eru allavegana vangavelturnar í kvöld.

---

Svo var sett persónulegt met í dag. Það hafa aldrei fleiri farþegar stigið inn í strætó sem ég sit í,  en gerðu við Stadshuset kl. 9.15 í morgun.

32 farþegar stigu inn í vagninn í einni lotu!

Mér var hugsað til þess hvað strætókerfið hér í Uppsala er vel nýtt ... víða annars staðar hefði þetta þýtt 32 bíla úti á götunum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband