Sunnudagur 27. mars 2011 - Nennirðu að rífast?

Þá er stysti dagur ársins að kveldi kominn ... klukkunni var nefnilega breytt síðastliðna nótt, þannig að maður vaknaði klukkutíma síðar í morgun en maður hefði annars gert ... án þess þó að hafa sofið sekúndu lengur.

Dagurinn hefur liðið við skýrsluskrif og greiningu gagna ... sum sé hefðbundin vinna ...

Ég er nefnilega á kafi í því að fá botn í gögn sem fengust í rannsókninni sem gerð var á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.  Athyglisverðar niðurstöður þar. Ætla svo að kynna þær á opnum fundi hjá Landspítalanum eftir hálfan mánuð.

---

Núna er Guddan komin með nýja hugmynd í kollinn.  Hún fellst í því að rífast.  Þá lítur hún á mann fögrum augum og spyr undurmjúkt hvort maður vilji rífast.

Ef maður segir já ... þá gerist hún mjög brúnaþung og reiðilesturinn dynur á manni.  Reyni maður að svara eitthvað fyrir sig, þá færist hún öll í aukanna og vaðallinn verður slíkur að ekkert fæst við ráðið.

Svo um leið og "leikurinn" er búinn verður hún aftur dúnmjúk í framkomu.

Ekki veit ég hvar hún lærði þennan leik ... en henni hlýtur að finnast hann mjög skemmtilegur, því hún er alltaf að biðja mann um að koma í hann.

---

Annað mikið sport er að sofna í stofunni ... það er svo sem ekkert um það að segja annað en gott ... alveg óþarfi að vera sofna alltaf inni í herbergi.

---

Í gær var afmælisboð hjá Sverri og Dönu ... mjög vel heppnað í alla staði.

GHPL var búin að telja niður í viku.  Það var meira að segja búið að út búa "dagatal" sem sýndi daga (leikskóli) og nætur (sofa) þangað til við færum til Sverris, Dönu og Jónda.

Stubbur merkti svo sjálfur við með fjólubláu.

Í boðinu lét hún svo Dönu snúast í kringum sig eins og skopparakringlu.  Guddan er búin að koma sér upp vara-foreldrum ... svo mikið er ljóst. 

---

Ég hef verið hugsandi yfir þessum frasa sem ég fékk sendan í pósti fyrir nokkrum dögum:

- Gefðu þér tíma til að kynnast öðrum, fremur en að kvarta yfir því að enginn skilji þig -

Ég er einn af þessum karakterum sem bölva því oft að fólk skilji mig ekki ... ég veit ekki hversu oft ég hef sagt það við Laugu þegar við erum ósammála "ooooooohhhhhhhh ... þú skilur mig bara ekki ... hvað er þetta eiginlega?!?! "

Enda fór hún bara að hlæja þegar ég sagði henni um daginn að ég hefði fengið þetta í pósti og væri svolítið að pæla í þessu.

Ég skil samt ekki sjálfur af hverju ég nota þetta svona mikið sjálfur ... því ég hef nefnilega þurft að díla við mann sem sagði þetta alltaf við mig þegar ég var ósammála honum.

Það var fótboltaþjálfarinn í Sydney.  Við vorum ekki alltaf sammála og þá sagði hann: "Hey, listen Pagg (hann kallaði mig alltaf Pagg) ... you don't understand ... "

Ég gat orðið alveg tjúllaður á þessu ...

Það endurspeglast nefnilega svo mikill hroki í þessu ... því það sem raunverulega er verið að segja er að "það sem viðkomandi segir sé hið eina rétta í málinu og ef þú ert ekki sammála því þá ertu bara ekki að fatta 'etta".

Ég ætla að halda áfram að vinna í þessu máli ... ;)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband