Þriðjudagur 19. október 2010 - Að fara í bað

Það gerist nú lítið þessa dagana annað en vinna ... endalaus vinna ... sem er svo sem ágætt.

---

Og meðan ekkert markverðara gerist, þá er sjálfsagt að beina kastljósinu að dótturinni.  Hjá henni er alltaf eitthvað að gerast.

Nýjasta æðið er að fara í bað ... og þá kemur bleiki sloppurinn í góðar þarfir, svo enn sé nú minnst á þá ágætu flík.

Síðan vikan hófst, þ.e. frá 12 á miðnætti aðfararnótt sunnudags er blessað barnið búið að fara sex sinnum í bað.  Hvorki meira né minna.  Kvölds og morgna.  Ef hún fengi sjálf að ráða væri hún sennilega búin að fara svona fimmtán sinnum ...

... t.d. varð hún afarsorgmædd í kvöld, þegar ekki fékkst leyfi fyrir þriðju baðferðinni í dag ... það var harðneskjan holdi klædd sem hún mætti í það skiptið.

--- 

Þessar tíðu baðferðir koma samt ekkert sérlega á óvart enda er föðurfólk Guddunnar mikið baðfólk ... eða að minnsta kosti sumir ...

Alhörðustu ættingjarnir fara gjarnan í bað tvisvar á dag ... og þegar átt er við að fara í bað, er ekki verið að meina eitthvert sturtusull, heldur almennilegt heitt og gott bað ... og helst að einhverjum hollustuvökva sé bætt út í baðvatnið.

Sjálfur hef ég aldrei komist almennilega upp á lag með að "fara í sturtur" eins og Leifur frændi minn kallar það gjarnan.  Það er einhvern veginn ekki nægjanlegur fílingur í sturtuferðum ... það er einhvern veginn ekki almennileg athöfn.  Bara eitthvert gutl ...

Hugsanlega skýrist þessi afstaða mín af þeirri beinhörðu staðreynd að heima var engin sturta þegar ég ólst  upp ... þar var bara baðkar ... 

---

Hjá Guddunni er eitt brýnasta viðfangsefnið sem sinna þarf í baðinu, að drekka baðvatnið.  Skeytir hún engu um hvort sápa sé í baðinu og lætur öll viðvörunarorð sér í léttu rúmi liggja.

Yfirleitt eftir að baðvatninu hefur verið sporðrennt, lítur hún undurljúft í augu umráðamanns síns og gefur frá sér seiðandi "aaaahhhhhh" ... sennilega til merkis um það að þessi sopi hafi verið afar hressandi.

... þetta er eðlilegt?!? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er fullkomlega eðlilegt hjá litla snillingnum - það er fátt jafn hressandi og góður sopi af baðvatni með smá sápubragði

Stjóri (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband