Miðvikudagur 20. október 2010 - Botnset

Þetta er nú búinn að vera meiri $%&$/ dagurinn ... alveg endalaust leiðinlegur ...

Byrjaði með því að Guddan hnerraði eldsnemma í morgun og fékk blóðnasir í kjölfarið ... ætlaði aldrei að fást til að slaka aðeins á, heldur fríkaði út í staðinn ... þessi serimónía gaf upptaktinn ...

Dagurinn endaði svo í deadboring fótbolta í kvöld.

---

Þeir eru alveg merkilegir svona dagar, þar sem sést aldrei til sólar í kollinum á manni ... það er nú bara eins og almættið sé búið að taka ákvörðun um að þetta eigi bara að vera leiðinlegur dagur.

Og úr því maður er nú að nefna þetta blessaða almætti ... hvað er eiginlega málið með þessa gífurlegu andstöðu við kristna trú??!?

Ég er nú bara ekki að fatta hana ... að það megi ekki kenna hana í skólum?!!  Er það nú það alversta sem börn fá að heyra og sjá nú til dags ... sögurnar af "Miskunnsama Samverjanum" og konunni sem drýgði hór og farísearnir vildu að grýta í refsingarskyni?

"Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fystur steini í hana" ... er þetta bara eitthvað sem allir hafa gott af því að hafa í huga ... trúaðir og trúlausir.

--- 

Þegar ég las Bíblíusögurnar hjá Valborgu Helgadóttur í Austurbæjarskólanum fyrir aldarfjórðungi leit ég nú bara á þetta sem einhverjar sögur, sem voru ekkert betri eða verri en "Karlinn sem átti stóru hjólbörurnar" eða eitthvað álíka sem maður las í lestímum í íslensku.

Dag einn komu svo gamlir karlar með hvítt hár og gleraugu frá Gídeonfélaginu og gáfu Nýja testamentið.  Þeir sögðu eitthvað fallegt við okkur og báðu "guð að blessa okkur".  Amma mín bað líka "guð að blessa mig" á hverju kvöldi og mér fannst það alltaf notalegt.  Mamma biður iðulega "guð að vera með mér" og mér finnst það ennþá notalegt.

--- 

Kristin trú hefur fylgt íslensku samfélagi í meira en 1000 ár og er hluti af menningu þjóðarinnar.  Þó ekki væri nema af þeirri ástæðu finnst mér eðlilegt að íslensk börn læri eitthvað um kristna trú ... bara svona eins og börn læra réttlega Íslandssögu.  
Af hverju höldum við jólin hátíðleg ... af hverju er páskafrí í skólum?  Hvítasunnuhelgin og uppstigningardagur?

Taka ekki flest börn þessum frídögum fagnandi?  Af hverju má ekki halda tilurð þeirra til haga, bara eins og tilurð 1. maí? 

---

Ég segi það allavegana fyrir mína parta að ég myndi vilja sá marga aðra hluti lagfærða bæði í skólakerfinu sem og í samfélaginu í heild sinni áður en kemur að því að ræða hvort kristinfræðikennsla á rétt á sér eða ekki.  

---

Dóttirin hefur "alla" sína hunds- og kattartíð verið afar bókhneigð.  Hún á nú ekki lagt að sækja bókaáhugann ... afi hennar var nú ekki svo lítið gefinn fyrir bókina ...

Í kvöld tók hún ekki annað í mál en að fá að glugga í bókina um Dr. Valtý Guðmundsson eftir Jón Þ. Þór.  Sat drjúga stund og fletti spekingslega fram og aftur í bókinni, milli þess sem hún beygði sig fram, rýndi gaumgæfilega í textann og þuldi eitthvað óskiljanlegt um leið.

Hér er hún að kljást við ögn meira léttmeti, enda töluvert yngri  ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband