Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Sunnudagur 6. maí 2012 - Bolti, setning & hugsanlegur samningur

Og áfram um fótbolta ... en deildarkeppni heldri leikmanna hér í Upplandi hófst í dag. 

Vaksala Vets mættu GUSK.

Leikur sem átti að vera skemmtilegt að spila snerist algjörlega upp í andhverfu sína. Lið Vaksala Vets getur hreinlega ekkert.
Ég myndi segja að vandamál Vaksala Vets hafi veri öll þau sömu og hjá Liverpool í bikarúrslitaleiknum í gær - margfölduð með 100. Enginn "holling" á liðinu, lélegur varnarleikur og gjörsamlega bitlaus sóknarleikur. 

Niðurstaðan 0 - 6.

--- 

Guðrún átti gullvæga setningu um daginn þegar hún og mamma hennar voru einu sinni sem oftar að hlaupa til að ná strætó. Eitthvað voru þær sérstaklega tæpar í þetta skiptið því í atganginumm hrópaði GHPL með angist í röddinni: "Spring för livet!!"
Dramatískt skal það vera ... þetta hlýtur að vera lærdómur sem rekja má til leikskólans.

---

Eitthvað virðist nú vera að rætast úr húsnæðismálum okkar en samkvæmt plani verðum við húsnæðislaus 1. júlí.
Við skoðuðum ágætis húsnæði í dag og samningar náðust við eiginkonuna en svo fengum við tölvupóst í kvöld frá eiginmanninum sem hljóðar upp á dulítið annað. Augljóst að þau þurfa eitthvað að samræma hlutina hjá sér. 
Það verður því beðið með að fagna þar til búið er að ganga frá lausum öllum lausum endum.

 


Laugardagur 5. maí 2012 - Liverpool tapar úrslitaleik

Í kvöld brá ég undir mig betri fætinum og hélt niður á Pitcher's en það er sportbar í miðbæ Uppsala. Tilefnið var að fara að horfa, í góðra vina hópi, á Liverpool taka Chelsea í bakaríið á Wembley og tryggja sér þar með bikarmeistaratitilinn 2012.

Mætti korteri of seint ... og þá var Liverpool komið undir ... 

Ég tók fyrir nokkrum árum þá ákvörðun að hætta að horfa á fótbolta í sjónvarpinu, einfaldlega vegna þess að það tekur alveg hrikalega mikinn tíma. Öllu jafna fylgist ég því aðeins með framgangi minna liða í boltanum með því að lesa stuttar fréttir og renna yfir úrslit og stöðu í deild, á hinum ýmsu vefmiðlum. 
Af þeirri ástæðu hef ég lítið séð til Liverpool á síðustu mánuðum. Óhætt er að segja að allt frá 15. mínútu til þeirrar 60. horfði ég á leikinn niðurlútur. Leikmenn þessa gamla stórveldis spiluðu eins og leikskólabörn. Það var enginn strúktúr á liðinu, dekkun varnarmanna alveg út úr korti og bara heilt yfir lélegur varnarleikur. Sóknarleikurinn þessar mínúturnar var slappur líka, alls enginn broddur honum ... 
Það er ekki nokkur vafi að í liðinu eru nokkrir mjög góðir leikmenn en inn á milli eru bara brandarar ... vinstri kantmaðurinn Jose Enrique ótrúlega lélegur og hægur, miðjumaðurinn Henderson ótrúlega lélegur, Spearing? ... Downing? ...  

En auðvitað verður að taka tillit til þess að þetta er bara einn leikur ... þannig að ekki er hægt að alhæfa of mikið út frá honum ... hinsvegar maður hefur nú svo sem ekki heyrt að þessir leikmenn séu taldir neinir töframenn þegar kemur að því að spila fótbolta. 

Chelsea komst í 2-0 og maður var farinn að sjá fyrir sér einhverja slátrun. En allt kom fyrir ekki ...

... því eftir 60 mínútna leik var eins og Liverpool-liðið gerði sér grein fyrir að verið væri að spila úrslitaleik í bikarkeppni og stórsókn hófst. Uppskeran var eitt mark og eitt næstum því mark en Chelsea bjargaði með ótrúlegum hætti á línu. Markheppinn og góður senter á borð við Ian Rush hefði nú samt klárað það dæmi á sínum tíma.

Niðurstaðan var því tap ... 

Það var samt gaman að upplifa að Liverpool-hjartað sem hefur legið í dvala um langt skeið vaknaði hresslega til lífsins í dag og það munaði kannski ekkert svo miklu að ég tæki nokkur alvöru köst á Pitcher's, líkt og forðum daga, þegar sjónvarpstækið og aðrir viðstaddir voru látnir heyra það þegar illa gekk hjá Liverpool. 

Fyrir 20 árum hefði tap í bikarúrslitum orðið tilefni einhvers sem best er að láta ógetið á þessum vettvangi ... núna var það gallsúrt ...


Fimmtudagur 3. maí 2012 - Nú verður að fara að gera betur

Ég hef dálitlar áhyggjur af því hvað ég er orðinn hundslappur í blogginu. Verð sjálfsagt að taka mig í gegn eins og ég geri stundum ... það skilar oft ágætis árangri.

Hér halda skemmtilegir hlutir áfram að gerast. 

Guddan sofnar í vagni bróður síns í strætónum á heimleið úr danstíma. Mannseskjan er alltof stór í þennan blessaða vagn ... en það fær mig til að minnast þess sem sölumaður vagnsins sagði við okkur þegar við keyptum hann í Sydney í júní árið 2008.

"Þessi vagn er fyrir börn allt til fjögurra ára aldurs" (... eða var það sex ára aldur?) ... jæja, hvort sem heldur er ... þetta er haugalygi. Það fer ekkert barn eldra en tveggja ára ofan í þennan vagn svo sómi séð að. 

Við feðgarnir höfum nú tekið upp náið samstarf á nýjan leik eftir að frænkan úr Grindavík yfirgaf svæðið sl. sunnudag.
Samstarfið gengur svo líka vel. Stubbur þeysist um í strætó á morgnana þegar við förum með Gudduna og sofnar svo á bakaleiðinni og sefur til 12. Þá vill hann fá eitthvað að borða, ganga svolítið um, skreppa út á svalir og svona og svo kl. 13 kemur móðir hans og hann fer í aðra strætóferð. 

Karlanginn er enn dálítið valtur á fótunum þrátt fyrir að vera bara býsna góður. Þröskuldurinn út á svalir er stundum erfiður en oftast gengur það ágætlega.
Stundum fellur hann þó, án þess að maður átti sig alveg á ástæðu þess.  T.d. um daginn stóð hann og studdi sig við hurðina á uppþvottavélinni sem þá var opin. Og upp úr þurru verður honum fótskortur, fellur niður á hnén, þaðan á bakið og veltur heilan hring, þannig að hann endar á maganum. Þetta minnti helst á fótboltamann sem verður fyrir hressilegri tæklingu. En svona er þetta bara stundum, þegar maður er 1 árs.

Núna er Lauga formlega búin með námið sem hún hóf í september 2010 og varð frá að hverfa þegar PJPL fæddist þann 30. apríl 2011. Þá átti hún eftir 4 vikna verknám sem hún sum sé hefur lokið núna. 
Það verður að segja að hún hefur tekið þetta nám geysilega föstum og sannfærandi tökum. Fyrir það fyrsta fór hún í það án þess að laun væru í boði á meðan en slíkt þekkist einfaldlega ekki hér. í öðru lagi var námið á sænsku, norsku og dönsku en það var engin fyrirstaða, í þriðja lagi var hún ólétt meðan á náminu stóð en það skipti engu máli og í fjórða lagi var hún best í bekknum.

Ef einhver telur sig geta gert betur þá væri gaman að sá hinn sami gæfi sig fram í athugasemdaboxinu hér fyrir neðan ;) . 

Sjálfur legg ég nótt sem nýtan dag til að hægt verði að skila inn doktorsverkefninu þann 31. ágúst nk.
Ég er ekki frá því að ég fari og fái mér góða steik þegar sú "innskilun" hefur átt sér stað. Bjóði jafnvel öðru heimilisfólki að koma með og njóta.

En ... "first things first" ... 

 


Verkalýðsdagurinn - 1. maí 2012 - Afmælismyndbandið

Jæja, þá er fyrsta afmælismyndband sonarins orðið að veruleika ... 

... sólarhring of seint strangt til tekið en það skrifast að hluta til á Valborgarhátíð Uppsalabúa sem haldin er þann 30. apríl á ári hverju. Restin skrifast á skipulags- og sinnuleysi mitt ...

 

 

Hér eru svo nokkur atriði sem sumir vita en aðrir ekki um stubbinn ...

1. Er stundum kallaður félagi Friðriks.

2. Á blómaskeiði strætóferðanna ferðaðist hann í strætó fjóra klukkutíma á dag. 

3. Líkar það mjög illa ef systir hans reynir að taka af honum dót.

4. Er ársgamall með 11 tennur. Fyrsta tönnin kom um fjögurra mánaða aldur.

5. Er á 1. árs afmælinu algjörlega móðursjúkur.

6. Hefur tvisvar farið til í siglingu um Eystrasaltið. Bæði siglt til Eistlands og Álandseyja.

7. Er eini alnafni föður síns í veröldinni.

8. Finnst óstjórnlega gaman í baði, allt frá því hann fór í fyrsta baðið í byrjun maí á síðasta ári.

9. Harðneitar á afmælisdaginn að láta vigta sig, hefst þó ... vigtin sýnir 9 kg.

10. Finnst vanillujógúrt mjög góð, sem og vínber.

11. Harðneitar yfirleitt að fara í vagninn - hefur gert það frá unga aldri.

12. Finnst afar gott að fá sér vatn að drekka alveg fyrst á morgnana.

13. Finnst alveg óskaplega gaman að leika sér úti á svölunum.

14. Er órólegur í svefni og vaknar frekar oft á hverri nóttu.

15. Gúffar léttilega í sig heilli pylsu með brauði ef svo ber undir.

16. Er afar brosmildur og léttur í lund, þó vissulega geti hann látið hvína ef svo ber undir.

17. Finnst afskaplega gaman að klifra.

18. Verður ógurlega spenntur í hvert skipti sem hann heyrir í Skype-hringingu.

19. Er geysilegur áhugamaður um eigin tannburstun.

20. Finnst gaman að hlusta á tónlist á YouTube og láta hossa sér á sama tíma.

21. Hefur aldrei drukkið úr pela og aldrei viljað snuð.

22. Hefur farið a.m.k. 5 sinnum til Stokkhólms.

23. Hefur farið einu sinni til Íslands.

24. Finnst gaman að "spila" á gítar. 

25. Tók ekki upp einn einasta jólapakka á fyrstu jólunum sínum. Systir hans sá alfarið um það.

26. Er ekkert sérstaklega matvandur.

27. Á það til að setja dót inn í ísskáp.

28. Finnst gaman að dansa. 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband