Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Mánudagsmetall VII - 7. desember 2009

Jæja, þá er Guddan okkar orðin eins og hálfs árs ...

... óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá, þrátt fyrir að tíminn hafi liðið afskaplega hratt ...


Tiltölulega nýkomin í heiminn ... þann 7. júní 2008 ...


Sydney 1,5 ára þann 7. desember 2009 ... og ánægð með það!!

Og hvernig var svo afmælisdagurinn ...

- byrjað var á því að sofa út.  Vaknað kl. 9.

- borðaður hafragrautur og bók lesin.

- farið á leikskólann kl. 10.30, sem er náttúrulega ansi seint.

- komið aftur úr leikskólanum kl. 14.  Á spjaldi í leikskólanum er hægt að lesa hvað hvert barn gerði þann daginn í skólanum.  Í dag stóð á spjaldi afmælisbarnsins: "Kom seint!"

- borðuð kakósúpa og brauð.

- leikið sér í stofunni heima, hoppað í sófanum, hlaupið, grenjað, rifist, hlegið, lesið, leikið með dót og sitthvað fleira.

- farið út í búð og keypt í matinn.  Í þeirri ferð sýndi dóttirin að hún er orðin bæði stór og sterk, því hún var algjörlega eins og ljós.  Tók fullan þátt og hafði gaman af.

- kvöldmatur etinn.  Afmælisbarnið vildi fremur lítið ...

- leikið eftir kvöldmatinn og gætt sér á aukakvöldverði.

- heimtað að fara að sofa upp úr kl. 21.30.

---

Dóttirin sýnir á sér skemmtilegar hliðar ... nú er aðalmálið að gera "höfuð - herðar - hné og tær - hné og tær!".
Fleiri orð eru sífellt að bætast í orðaforðann, man samt ekki eftir neinu nýju núna í augnablikinu.

Hún harðneitar oftast nær að sitja í kerru, en að sitja í stólnum á reiðhjólinu er meira en í góðu lagi.

Hún er farin að geta gefið auðveldlega til kynna hvenær hún er þyrst og svöng.

Eltingaleikur er það allra skemmtilegasta sem hægt er að gera.

Hún getur hermt eftir ljóni, fíl og kú ... en kettir, hundar, hestar og hænur geta étið það sem úti frýs.

Doddi er enn í slíku uppáhaldi að ekkert, utan eltingaleiks, kemst nálægt því með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Hún er algjörlega móðursjúk, í orðsins réttustu merkingu ... hegðun hennar er gjörólík með og án móðurinnar ... :D ... persónulega skil ég þetta ekki ... ?!? :D

---

En í einu orði sagt er hún frábær!!  Vafalaust besta barn í heimi!!


Sunnudagur 6. desember 2009

Hátíð í bæ á morgun ... Guðrún Sydney Helga Houdini á eins og hálfs árs afmæli ...

... væntanlegt afmælisbarn fullt af kvefi í dag ...

Sjáum hverju fram vindur í því máli ...


Laugardagur 5. desember 2009

Þetta er búinn að vera massífur dagur í dag ... mjög skemmtilegur ...

Hófst á því að fara í aðventuguðþjónustuna sem ég minntist á gær og taka lagið.  Það tókst bærilega eftir þriggja ára hlé, en óhætt er að segja að söngtæknin hafi svikið mig tvisvar sinnum á fjórum mínútum ... en satt að segja gæti mér ekki verið meira sama.

En mikið var þetta samt gaman ... hér er ofurstutt klippa bara til minningar um þennan merka viðburð ...

Eftir athöfnina var svo kaffi hjá Íslendingafélaginu.  Þar var skrafað og haft gaman. 

Frá Turnabergskirkjunni röltuðum við Lauga svo heim með viðkomu í Gränby Centrum, þar sem við skruppum á kaffihús í tilefni dagsins.

Síðan fórum við heim, ræddum málin, ég spjallaði við mömmu og Lauga við pabba sinn, fengum gott að borða og bara allt í fínu.

Reyndar fóru þær mæðgur að sofa kl. 9 ... þannig að þetta er mjög fjörugt laugardagskvöld, þar sem ég er á kafi í vinnu, eins og stundum áður ...


Föstudagur 4. desember 2009

Góður dagur sem hefur skilað svolitlum niðurstöðum fyrir rannsóknina og greinina, sem er í skrifum og verður birt úr í einhverju vísindatímaritinu.

Svo þurfti ég að rifja upp eitthvað af söngtækni í morgun, því eins og ég hef áður greint frá, var ég beðinn um að syngja ofurlítið í aðventuguðþjónustu í fyrramálið.

Ég hef ekki sungið opinberlega síðan ég söng í Waidhofen í Austurríki þann 15. nóvember 2006.  Sá söngur var svona upphafið að endalokum drauma minna um að verða óperusöngvari.

Skömmu síðar gaf ég þær hugmyndir upp á bátinn og sneri mér af fullum þunga að umhverfissálfræðinni og satt að segja sé ég ekki eftir því ... hitt er svo mikið streð og einhver stemmning í þessu sem mér líkar ekki ...


Á kvöldinu góða í Waidhofen í nóvember 2006.

En það síðan ég þagnaði árið 2006, hef ég uppgötvað ýmsa hluti varðandi sönginn og hef áttað mig betur á þeim erfiðleikum sem ég glímdi við raddlega séð.

Ég hef t.d. náð að losa miklu betur um núna, þannig að hljómurinn á röddinni er miklu betri en áður og það verður spennandi á morgun að vita hvernig barkinn bregst við.  Í öðru lagi er ekkert stress í þessu núna, enda enginn brjálæðislegur metnaður að drepa mann.

Maður fer bara og syngur það sem til stendur að syngja ... og gerir það bara vel.

---

Jæja, ég held að ég nenni ekki meiru núna ...

Set inn eina mynd af frændsystkininum Bjarna Jóhanni og Guddunni.  Myndavélin ef hinsvegar frekar leiðinleg þessa dagana og fæst ekki til að taka almennilegar myndir ... en myndefnið er gott ...

 


Fimmtudagur 3. desember 2009 - Rimman við WerFault.exe

Jæja ... enn er verið að kljást við tölvuóværu ...

... seinnipartinn í dag og í kvöld, hefur barátta verið háð við skráarskratta tvo sem bera heitið WerFault.exe.  En þessar skrár eru hluti af Windows Vista stýrikerfinu og sjá um að senda boð um villuboð (Wer = Windows Error Reporting), sem svo birtast á skjánum hjá manni, oftast til hraparlegra leiðinda ... en það er nú önnur saga.

Svo mikil voru villuboðin í dag að þessar tvær skrár tóku yfir 95 - 100% af vinnsluminni tölvunnar ... sem þýðir á mannamáli að það var ekki hægt að vinna á tölvuskrattann, því eilíflega var verið að taka á móti villuboðum.

Eftir mikla baráttu, sýnist mér að ég hafi komist fyrir þetta með því að "uninstalla" einu "spyware-forriti" sem ég náði mér í, í gærkvöldi, þegar slagurinn við "trójuhestinn" stóð sem hæst.  Það "spyware-forrit" ber nafnið "Spyware Doctor 10".

Ég læt þessa sögu fylgja með, ef einhver íslenskumælandi einstaklingur er að kljást við þetta sama vandamál, þ.e. við WerFault.exe. 

Ég ætla samt ekkert að fagna sigri alveg strax ... en ég er að verða alveg dæmalaust tölvunörd!!

Computer Nerd Cartoon

---

Áður en þessi ósköp dundu nú öll yfir, þá var ég að vinna í gagnasafninu mínu og fann loksins út hvernig Sobel-prófið virkar.
Ekki er nú hægt að gera ráð fyrir að fólk viti almennt hvað Sobel-próf er og ég held að gegni engum tilgangi að fara eitthvað að útskýra það. 

En þessi uppgötvun var gott skref til í átt að skýrari niðurstöðum í rannsókninni minni.

---

En áður en háttvirtur lesandi deyr úr leiðindum, ætla ég að víkja að öðru heimilisfólki ...

Guddunni gengur vel á leikskólanum núna ... hún hefur ekkert verið bitin síðan, þarna um daginn, sem er ágætt. 

Á leikskólanum dvelur hún almennt mest í herbergi sem kallast "íbúðin", en þar inni er lítil tréeldavél og alls kyns eldhúsáhöld, skápar og hillur, borð og stólar.  Guddan hefur samt minnstan áhuga á því dóti.

Það sem vekur mesta lukku hjá henni er tölvulyklaborð, meira að segja tvö stykki, sem hún getur lamið á eftir öllum kúnstarinnar reglum.  Eitthvað sem hún fær ekki að gera heima hjá sér.

Í dag var hún samt mest í "rörelserum", sem útleggst á slæmri íslensku sem "hreyfingarherbergið".  Þar inni má djöflast eins og fáráðlingur án þess að verða skammaður.
Sydney Houdini lét sér nægja að æfa jafnvægið með göngu á dýnu, auk þess sem hún kastaði bolta.


Stundum er handagangur í öskjunni heimafyrir ... þessi mynd er tekið við slíkt tækifæri

---

Lauga er síðan bara í stuði ... sýndi mikið langlundargeð og var bjartsýnin uppmáluð meðan ég slóst við WerFault.exe. 
Ég var við það nokkru sinnum að taka "drifskaftskast", en slík köst einkennast af stjórnlausum tryllingi, afar órökréttri hugsun og formælingum sem geta komið öllu lifandi og dauðu lóðrétt til andskotans. 
Nafnið á ættir að rekja til baráttu minnar, í sveitinni hér á árum áður, við að losa drifsköft vinnuvélanna frá traktorunum, en þau gátu oft verið ærið föst.  Fór tregðan oft alveg hrikalega í taugarnar á mér og afleiðingarnar voru oftar en ekki "drifskaftsköst". 

Þó ég hafi verið á barmi drifskaftskasts í dag (já og reyndar í gær líka þegar ég slóst við "trójuhestinn" og reyndar á mánudagsnóttina líka þegar ég hjólið lét illa), þá hef ég róast mikið á síðustu árum ...

... en lengi lifir í gömlum glæðum og þá er gott að hafa bjartsýnismanneskju við hlið sér ...

Svo má nefna það að orðið "drifskaftskast" er komið frá höfuðsnillingnum, honum Arnari vini mínum, sem einmitt deildi með mér nokkrum sumrum í sveitinni og varð oft vitni að því sem hann nú kallar "drifkastskast".  Þess má geta að Arnar er KISS-aðdáandi ... sbr. mynd hér að neðan ...

 


Miðvikudagur 2. desember 2009

Þetta hefur verið árangursríkur dagur ...

Búinn að vinna af krafti í gagnasafninu mínu og mér sýnist niðurstöðurnar vera að taka á sig mynd.  Ég get þó upplýst ofurlítið brot úr niðurstöðunum en það er að fólk líkar betur við lágreistar húsaraðir en háar.  Ekki kemur það nú á óvart ...

Einnig líkar fólki betur við hús með reistu þaki en flötu ...

Allt er þetta í takt við fyrri rannsóknir, sem er nú ágætt.

---

Ég var í gær of fljótur að hrósa sigri yfir "tróju-hesti" sem var í tölvunni minni.  Sá dúkkaði aftur upp í dag og öttu við kappi í dágóða stund, uns síðuhaldari hafði sigur.

Þetta var bölvaður leiðinda "tróju-hestur" sem ber heitið "System Defender".  Hann treður sér í tölvuna og birtir síðan boð um að tölvan sé alvarlega sýkt af vírusum og hvetur til að "System Defender"-hugbúnaður sé keyptur til að redda málunum.  Sem er argasta kjaftæði!

Auk þess "fokkar" hann í internetinu, getur framselt aðgangsorð, sogað að sér fleiri "tróju-hesta" og rústað tölvunni.

Svarið við þessari óværu var Malwarebytes Anti Malware ...

---

Ég hef nú eiginlega ekkert hitt mæðgurnar í dag, þó svo við höfum deilt sömu vistarverum stóran hluta dagsins ... ég held að þær hafi bara verið hressar í dag.

Best að birta mynd af móður dóttur minnar svona í tilefni dagsins ... mynd frá góðum dögum í Sydney ... Uncle Toby´s hafragrautur!!  Ekki slæmur kostur!!!


Þriðjudagur 1. desember 2009

Þessi dagur er búinn að vera sannkallaður hátíðardagur hér í Uppsala, því mér hefur bókstaflega ekki tekist að koma neinu af viti í verk í dag.

Öll verk hafa verið út og suður ... þannig að það var viðeigandi að enda daginn á nokkrum fréttaklippum af www.ruv.is, þar sem helst var talað um IceSave.

---

Morgundagurinn verður efalaust árangursríkur.

---

Jú, það má nefna það að ég var beðinn um að syngja í aðventuguðþjónustu næsta laugardag.  Sem ég geri auðvitað ...

Já, og svo fékk ég trójuhest í tölvuna hjá mér í kvöld ... en með útsjónarsemi kom í veg fyrir stórskaða. 

---

Dóttirin var í stuði.  Er farin að segja "auga" og svo potar hún í augað á manni.  Þá fréttist að hún hefði sagt "lesa 'etta" samtímis og hún rétti móður sinni bókina "Villi hjálpar mömmu".

Í það minnsta er mjög miklar framfarir hjá þeirri stuttu þessa dagana ... og viti menn, hún er farin að borða betur!


Mánudagsmetall VI - 30. nóvember 2009

Ég skrapp á hreint magnaða tónleika í Stokkhólmi í kvöld ...

... Ace Frehley á Debaser ...

 

Fyrir þá sem ekki vita hver Ace Frehley er, þá upplýsist það að hann er fyrrum gítarleikari í KISS og einn af stofnendum hljómsveitarinnar "back in the '70s" ...
Gjarnan nefndur "Space Man" af þeim sem til þekkja ...

---

Margt fer þó öðruvísi en ætlað er ...

- Á leiðinni niður á lestarstöð hjólaði ég ofan í drullupoll, þannig að fötin mín urðu öll skellótt.

- Ég borgaði tvöfalt verð í lestina til Stokkhólms af því ég var svo seinn og náði ekki að kaupa miða fyrir brottför.

- Þegar ég kom á tónleikastaðinn Debaser var ég sendur upp á aðra hæð, sem ég taldi að væru svalir ... en nei, þá var þetta glerbúr.  Ég fór næstum að gráta! 100 sæti í glerbúri!!! 

Svo mátti ég sætta mig við að horfa á fjörið niðri á gólfinu og hlusta á tónleikana úr hátölurum sem voru í lofti búrsins. Stemmningin í glerbúrinu var líkust því sem gerist í bíó ... en plúsinn við þetta var að maður sá vel það sem gerðist á sviðinu og maður ærðist ekki úr hávaða. 
Ace karlinn var nefnilega mjög hræddur við að það heyrðist ekki nóg, þannig að hann bað a.m.k. þrisvar sinnum um að hækkað yrði í græjunum.  "Turn the f%#king guitar up!" sagði hann mjög ákveðið við eitt tækifærið ... þá allt í einu var eins og rótarinn tæki við sér, því hækkað var hressilega ...

-  Sökum glerbúrsins og þeirra vonbrigða allra, ákvað ég að fara til Västerås næstkomandi laugardag til að hitta gítarhetjuna aftur.

-  Tónleikunum seinkaði um meira en klukkutíma vegna tæknilegra ástæðna.  Ace hafði ekki áhyggjur af því: "In the beginning of a tour there are always some technical difficulties ... but so f%&king what!!"  Þá var það mál afgreitt.
Söngvarinn í upphitunarhljómsveitinni hefði þurft svolítið af þessu "attitjúdi" því hann lét tæknifeilana fara í taugarnar á sér og rak hljómsveitina af sviðinu eftir þrjú lög ... hann hefur líklega aldrei heyrt frasann: "The show must go on!!"

-  Eftir tónleikanna upplýstist það svo að lestir ganga ekki milli Stokkhólms og Uppsala frá miðnætti til kl. 5.30 að morgni.  Það var hressandi uppgötvun kl. 00:30.

-  Eftir að hafa reynt að fá einhvern botn í nætursamgöngur milli Stokkhólms og Uppsala var víst ekki annað í boði en leigubíll fyrir 905 SEK (þ.e. 17.000 kr).

-  Ef það var ekki nóg ... þá uppgötvaði ég við komuna á lestarstöðina í Uppsala að það var sprungið á hjólinu mínu.  "Þú hlýtur að vera að grínast!", hugsaði ég.

-  Ég ætlaði því að reiða hjólið heim, en þá "affelgast" dekkið, sem gerði það að verkum að dekkið var alltaf að festast.
Kl. tvö að nóttu, rétt eftir að maður er búinn að borga 17.000 kr. í leigubíl og nýbúinn að uppgötva að það sé sprungið á hjólinu sínu, þá er maður ekki stemmdur fyrir kerkjóttu dekki!
Ég hóf hjólið á loft og henti því í götuna, tók það upp aftur og henti því aftur í götuna.  Teymdi það svo dálítill spotta en ákvað loks að skilja að eftir í hjólagrind sem varð á leið minni.

-  Ég er hræddur um að lítið verði úr ferðinni til Västerås úr því svona fór, því tónleikapeningarnir mínir eru búnir í bili og vel það!!

Stundum fara hlutirnir öðruvísi er ætlað er ... en "the show must go on!!!"


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband