Fimmtudagur 3. desember 2009 - Rimman við WerFault.exe

Jæja ... enn er verið að kljást við tölvuóværu ...

... seinnipartinn í dag og í kvöld, hefur barátta verið háð við skráarskratta tvo sem bera heitið WerFault.exe.  En þessar skrár eru hluti af Windows Vista stýrikerfinu og sjá um að senda boð um villuboð (Wer = Windows Error Reporting), sem svo birtast á skjánum hjá manni, oftast til hraparlegra leiðinda ... en það er nú önnur saga.

Svo mikil voru villuboðin í dag að þessar tvær skrár tóku yfir 95 - 100% af vinnsluminni tölvunnar ... sem þýðir á mannamáli að það var ekki hægt að vinna á tölvuskrattann, því eilíflega var verið að taka á móti villuboðum.

Eftir mikla baráttu, sýnist mér að ég hafi komist fyrir þetta með því að "uninstalla" einu "spyware-forriti" sem ég náði mér í, í gærkvöldi, þegar slagurinn við "trójuhestinn" stóð sem hæst.  Það "spyware-forrit" ber nafnið "Spyware Doctor 10".

Ég læt þessa sögu fylgja með, ef einhver íslenskumælandi einstaklingur er að kljást við þetta sama vandamál, þ.e. við WerFault.exe. 

Ég ætla samt ekkert að fagna sigri alveg strax ... en ég er að verða alveg dæmalaust tölvunörd!!

Computer Nerd Cartoon

---

Áður en þessi ósköp dundu nú öll yfir, þá var ég að vinna í gagnasafninu mínu og fann loksins út hvernig Sobel-prófið virkar.
Ekki er nú hægt að gera ráð fyrir að fólk viti almennt hvað Sobel-próf er og ég held að gegni engum tilgangi að fara eitthvað að útskýra það. 

En þessi uppgötvun var gott skref til í átt að skýrari niðurstöðum í rannsókninni minni.

---

En áður en háttvirtur lesandi deyr úr leiðindum, ætla ég að víkja að öðru heimilisfólki ...

Guddunni gengur vel á leikskólanum núna ... hún hefur ekkert verið bitin síðan, þarna um daginn, sem er ágætt. 

Á leikskólanum dvelur hún almennt mest í herbergi sem kallast "íbúðin", en þar inni er lítil tréeldavél og alls kyns eldhúsáhöld, skápar og hillur, borð og stólar.  Guddan hefur samt minnstan áhuga á því dóti.

Það sem vekur mesta lukku hjá henni er tölvulyklaborð, meira að segja tvö stykki, sem hún getur lamið á eftir öllum kúnstarinnar reglum.  Eitthvað sem hún fær ekki að gera heima hjá sér.

Í dag var hún samt mest í "rörelserum", sem útleggst á slæmri íslensku sem "hreyfingarherbergið".  Þar inni má djöflast eins og fáráðlingur án þess að verða skammaður.
Sydney Houdini lét sér nægja að æfa jafnvægið með göngu á dýnu, auk þess sem hún kastaði bolta.


Stundum er handagangur í öskjunni heimafyrir ... þessi mynd er tekið við slíkt tækifæri

---

Lauga er síðan bara í stuði ... sýndi mikið langlundargeð og var bjartsýnin uppmáluð meðan ég slóst við WerFault.exe. 
Ég var við það nokkru sinnum að taka "drifskaftskast", en slík köst einkennast af stjórnlausum tryllingi, afar órökréttri hugsun og formælingum sem geta komið öllu lifandi og dauðu lóðrétt til andskotans. 
Nafnið á ættir að rekja til baráttu minnar, í sveitinni hér á árum áður, við að losa drifsköft vinnuvélanna frá traktorunum, en þau gátu oft verið ærið föst.  Fór tregðan oft alveg hrikalega í taugarnar á mér og afleiðingarnar voru oftar en ekki "drifskaftsköst". 

Þó ég hafi verið á barmi drifskaftskasts í dag (já og reyndar í gær líka þegar ég slóst við "trójuhestinn" og reyndar á mánudagsnóttina líka þegar ég hjólið lét illa), þá hef ég róast mikið á síðustu árum ...

... en lengi lifir í gömlum glæðum og þá er gott að hafa bjartsýnismanneskju við hlið sér ...

Svo má nefna það að orðið "drifskaftskast" er komið frá höfuðsnillingnum, honum Arnari vini mínum, sem einmitt deildi með mér nokkrum sumrum í sveitinni og varð oft vitni að því sem hann nú kallar "drifkastskast".  Þess má geta að Arnar er KISS-aðdáandi ... sbr. mynd hér að neðan ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband