Fyrir sunnan

Jæja, þá ryðst Múrenan aftur fram á ritvöllinn ...

... það hefur bara verið svo brjálað að gera að það hefur varla gefst tími til bloggs ...

En þessa síðustu viku hefur margt fróðlegt gerst ...

Til dæmis í kvöld voru tvær fréttir á ABC sjónvarpsstöðinni, sem tengdust okkur Laugu nánast persónulega. 
Sú fyrri fjallaði um fjármálakreppuna, og voru sýndar myndir frá Reykjavík ... fólk að mótmæla, brenna Landsbankafána, krefjast afsagnar Dabba og fleira í þeim dúr.  Fréttir á heimalandinu hljóta alltaf að tengjast manni.
Sú síðari fjallaði um "barnasprengjuna" sem er að eiga sér stað hér í Sydney, eða átti það við Ástralíu (?!?) ... ég man það ekki en jæja ... sjaldan hefur annar eins fjöldi barna komið í heiminn á jafnstuttum tíma.  Sýndar voru myndir frá Royal Prince Alfred Hospital, sem er einmitt sá hinn sami og frökenin á heimilinu fæddist á, fyrir um fjórumoghálfum mánuði.  Meira að segja var talað við Dr. Andrew Child, sem var læknirinn okkar.  Ekki amalegt að vera barnalæknir og heita Child ... en það er nú önnur saga.

Í morgun horfðum við á Spaugstofuna ... og jafnvel hana mátti tengja beint við Bourke Street, en glöggir áhorfendur hafa jafnvel tekið eftir því að annar karakterinn í teiknimyndinni sem sýnd var í Spaugstofunni hét Bobbi.
Frábært að sjá nafna þar!!! 

Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei, aldrei, aldrei aftur í útrás
Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei, treysta á skjótfenginn auð
Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei, aldrei, aldrei aftur í útrás
treysta bara á kerti og spil og væna flís af feitum sauð! 

Þetta söng nafni í teiknimyndinni, ásamt félaga sínum Bubba ... og svo vill til að ég er honum alveg rosalega sammála ...

Og bara svona af því að ég er farinn að tala aðeins um útrásina ... hvað er málið með þennan blessaða Framsóknarflokk???
Þetta segir hinn skeleggi formaður flokksins á visir.is í dag:
"Fyrir ári síðan studdu um 70 prósent ríkisstjórnarflokkana, það er í rauninni sá hópur sem ekki velur ríkisstjórnarflokkana við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þannig að þessi niðurstaða gefur mér nýja von um að fólkið vilji önnur gildi og þá rís Framsókn."

Á hvaða pláentu er þessi maður eiginlega??  Hvaða önnur gildi eru það sem fólkið vill, sem verður til þess að Framsókn muni rísa??
Þessi Framsóknarflokkur er alveg hreint ótrúlegt fyrirbæri!!

Jæja, ég ætla ekkert að vera að þvæla meira um pólitík ... ég get svo sannarlega rætt hana við þá, sem það vilja, en ég ætla ekki að þreyta dygga lesendur með slíkum lestri. 
Hér eiga menn að fá frí frá dægurþrasinu!!!  Þetta á að vera svolítið svona eins og að fara á KISS-tónleika ... lesendur eiga bara að njóta stundarinnar, án þess að vera að fara ofan í of miklar pælingar um vandamál heimsins ...

... persónulega finnst mér skemmtilegra að velta mér upp úr góðu hlutunum ...

... og það síðasta sem mér hefur dottið í hug er að skrá mig á námskeið í markþjálfun.  Þetta er online-kúrs ... alveg stórmerkilegt fyrirbæri!
Reyndar er einn galli á gjöf Njarðar en hann er sá að kúrsinn fer fram milli klukkan 15.30 - 17.30 að íslenskum tíma ... en það veldur því að ég þarf að vinda mér framúr klukkan hálfþrjú að nóttu til og vera hress og tilbúinn til að læra nýja og spennandi hluti.

Fyrsti tíminn var aðfararnótt föstudags.  Ég veit ekki hvort það var tímasetning kúrsins sem olli því en ég varð veikur á föstudagskvöld og lá fyrir í gær, laugardag.  Svo óheppilega vildi til að á sama tíma var innflutningspartý hjá Fjólu og Neil, sem við misstum af.
Og það var ekki gott!!

En hvað gerðist fleira í vikunni ... jú, jú ...

Á mánudaginn safnaði ég fyrstu gögnunum mínum fyrir rannsóknina mína, sankaði að mér 20 þátttakendum og greindi svo gögnin á þriðjudaginn og fékk út þessa líka fínu niðurstöðu.

Svo er sýndarveruleikinn minn nærri því tilbúinn og hann er ótrúlega flottur ... gaurinn sem er hjálpa mér að búa hann til, sýndi leiðbeinandanum mínum herlegheitin og sá pissaði næstum í buxurnar af hrifningu!!
Vildi bara nánast ráða gaurinn á staðnum í verkefni hjá sér og þakkaði mér alveg rosalega fyrir að hafa farið þessa leið í doktorsverkefninu mínu ... og ég veit ekki hvað!!

Ekki það að þessi viðbrögð hafi komið mér á óvart ... ég geri mér alveg grein fyrir að verkefnið mitt hefur "potential" til að verða algjör klassi, ef rétt er haldið á spöðunum.

Nú er klukkan að detta í eitt eftir miðnætti ... snillingurinn sem þetta ritar ætlar að detta í bólið, svo hann geti vaknað og farið út að hlaupa í fyrramálið!!

Hér með er tékkað út ...

Raunar er eitt að lokum ... ég fékk þennan link sendan frá Laugu ... þetta er heimasíða hjá Bob Harris, sem er "Law of Attraction"-gúrú.
Hann er hér að bjóða upp á frían online kúrs til að læra betur inn á hið magnaða Secret.  Ég verð að segja að ég er mjög hrifinn af mjög mörgu í Secret og hef síðustu misseri verið að "mastera" þennan hugsunargang ... og mér finnst hann vera að virka ...

... sérstaklega finnst mér "Law of Attraction" athyglisvert ...
... en einnig finnst mér hugmyndin um að maður beri 100% ábyrgð á sjálfum sér ... vera frábær ... hún er ógeðslega erfið, en hún er frábær samt!! 100% ábyrgð!!!  Alltaf!!!  Frábært og þvílíkt frelsi!!!

Mér finnst "100% ábyrgð" sérstaklega frábær núna þegar margir eru að keppast um að afsala sér ábyrgðinni, benda á næsta mann og segja að þetta sé honum að kenna ...
... hugsaðu þér, hvað hlutirnir yrðu miklu einfaldari ef hver og einn myndi gangast við eigin ábyrgð ...

Nóg í bili ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband