Sögur af Guddu

Hún Gudda Lín er í banastuði þessa dagana, enda heilmikið að gerast á þeim bænum.

Þessa dagana eru tengsl höfuðs og handa mikið að styrkjast.  Ég ætla að leyfa mér að segja að hún geti af nokkuð lýtalausu öryggi troðið flestu sem hún fær í hendurnar, upp í sig á teljandi vandræða ... sem er framför.
Samfara þessu hafa skapsmunir dótturinnar orðið sífellt meira áberandi og ljóst er að eitthvað er til af þeim.  Þannig fer það óendanlega í taugarnar á henni ef hún getur ekki troðið hlutum sem hún hefur undir höndum, upp í sig.
Þetta á sérstaklega við þrjá vini hennar sem hanga fyrir ofan hana þegar hún situr í hægindastólnum sínum.  Hún nær að teygja sig í þá og toga í þá, en þeir vilja bara ekki koma.  Sydney Houdini kann lítið að meta slíkan þvergirðingshátt, fettir sig og brettir í stólnum og öskrar eldrauð í framan á allt og alla.  Fær oft hiksta í kjölfarið ...

P1000528 by you.
Með félögunum þremur ... reyndar á góðum degi ...

Snuð á ekki upp á pallborðið og hefur ekki átt í margar vikur.  Mér liggur við að segja að kúvending hafi átt sér stað í snuðamálum, þegar Lauga spurði dótturina hvort hún ætlaði að verða "snuddukerling".  Það var á þeim tíma þegar snuðið lék aðalhlutverk og var allra meina bót.  

Bleika túðukannan virkar heldur ekki sem skyldi.   Dóttirin vill ekki sjá hana.
Peli - nei takk!!!

En hvað vill þá þessi æruverðugi afkomandi?

Göngutúra!  Besta ráðið og allra meina bót er að skreppa í göngutúr.  Guðrún krefst þess þó í 90% tilfella að hún sé sett í BabyBjörn eða "sling".  Það þýðir ekkert að bjóða upp á hún liggi í vagninum, ... það er bara ávísun á hávær mótmæli ... hún vill fá að sjá allt annað en skyggnið á vagninum.

Flugferðir!  Nokkuð óbrigðult ráð er að bjóða upp á flugferðir um íbúðina ... allt frá eldhúsinu og yfir í svefnherbergið.  Allt frá gólfi upp í efstu hæðir.

Njósna!  Þegar hressa þarf Gurru við, þá er gott að snara sér út á svalir og til að njósna um nágrannann.  Þá er rýnt í gegnum laufblaðaþykkni sem nú er í fullum skrúða og oft niður í garð nágrannans.  Stundum er þar hundur, sem á það til að gelta og slíkt þykir aldeilis skemmtilegt. 

Sitja!  Tilveran virðist harla tilbreytingarlaus ef ekki er setið upprétt.  Það þýðir lítið að bjóða upp á einhverja 45° setu ... 90° er nánast skilyrði.  Og afleiðing þess er að sú stutta getur nú þegar setið ein og óstudd ofurlitla stund, það fer þó svolítið eftir dagsforminu.  Ennfremur, erum við feðginin búin að þróa tækni, sem hjálpar mjög til við að setjast upp, en tæknin byggist á því að ég rétti henni tvo fingur annarrar handar og er henni uppálagt að grípa um sitthvorn fingurinn með sitthvorri höndinni.  Strax og það hefur tekist, hjálpar höndin henni við upprisuna, svo framarlega að dóttirin sleppi ekki takinu.  Þetta er mjög þægilegt fyrir alla aðila .... og auk þess mjög skemmtilegt!!

P1000547 by you.

P1000552 by you.

Á þessu stigi málsins eru tiltölulega fá leikföng sem ná í gegn ... fiskurinn Medel stendur þó alltaf fyrir sínu, sem og hinn appelsínuguli Tígri.  Karl Axelsson kanína er einnig vinsæll.
Og svo eins og áður segir eru félagarnir þrír sem hanga á hægindastólnum mjög vinsælir þegar þarf að rífast og skammast.

P1000535 by you.
Með Tígra og Karli Axelssyni

IMG_8979 by you.

Því er svo við að bæta að frökenin hefur verið að fá smakk á öðru en móðurmjólkinni ... og fellur það gríðarlega vel í kramið.
Banana- og perumauk, epla- og mangómauk, stappaðir bananar ... þetta er slíkt góðgæti að það hálfa væri miklu meira en nóg ...

... þær aðfarir sem boðið er upp á við þessa iðju, eru einnig stórskemmtilegar á að horfa ... mikið sjónarspil.

IMG_9029 by you.

IMG_9010 by you.

IMG_9006 by you.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið afskaplega var þetta skemmtileg færsla!

Ævintýri Líndala lífga alltaf upp á daginn hjá þreyttum skrifstofustúlkum

Kærar kveðjur, AK

Anna Klara (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband