Að þykja vænt um ...

Ég er að lesa bókina Secret þessa dagana, ákvað að demba mér á eitt stykki fyrir heila 7 dollara.  Það er nokkuð gaman að bókinni og hlutirnir settir í nokkuð forvitnilegt samhengi, þó svo að ég verði að segja að ég skilji nú ekki alveg hvernig allt gengur upp.

Það sem helst stendur upp úr að mínu mati ... eins og mál standa nú ... er kraftur ástarinnar, en samkvæmt bókinni er enginn kraftur meiri en sá kraftur. 

Ég hef verið að hugsa þetta.  Þetta væri frábært að vera fær um að umvefja hugsanir, allt og alla með ást.

Eins og ég skil þetta þá snýst þetta einfaldlega um það að þykja vænt um lífið, vænt um sjálfan sig, þykja vænt um fólk, stóra sem smáa, háa og lága.  Þykja vænt um fleiri en maka sinn og börn, foreldra, frændgarð og vini.  Þykja vænt um allt það fólk sem maður hittir á hverjum degi.

Málið snýst þó ekkert um að stökkva upp um hálsinn á öllum, kyssa þá og knúsa.  Þetta snýst frekar um að hugsa um fólk undir þessum formerkjum.

Ég hef verið að prófa þetta og þetta er erfitt.  Mér finnst til dæmis erfitt að hugsa um að mér þyki vænt um fótboltaþjálfarann sem gerði mér lífið leitt í sumar.  Ég hef samt verið að reyna, því hvernig allt fór mun alveg örugglega leiða mig inn á nýjar og spennandi brautir.

Þegar ég var í Versló fyrir mörgum árum, var ég í bekk með dreng, sem áleit mig greinilega eitthvað fyrir sér.  Sú hegðun sem hann sýndi, myndi líklegast flokkast undir einelti nú á dögum. 
Sjálfur var ég svo aumur að ég gat ekki varið mig með neinu móti, og mín helsta hugsun í þá daga var að rífa úr honum barkann við fyrsta tækifæri eða eitthvað álíka.  En viti menn ...

... afleiðing þessa var sú að ég fór norður á Akureyri í skóla.  Yfirgaf þessar ömurlegu aðstæður ... og hvað?

Að fara norður var vendipunktur í mínu lífi.  Það var upprisa mín.  Þar loksins fór ég að lifa lífinu, vera ég sjálfur, hitta fólk og njóta þess að vera til.

Í dag þykir mér vænt um þennan náunga sem olli mér erfiðleikum fyrir næstum 20 árum.  Ég á honum mikið að þakka.

En allavegana, væntumþykja kallar fram jákvæðar hugsanir, og þegar við hugsum jákvætt líður okkur vel. 
Þar með er ekki sagt að við þurfum að vera sammála öllum og láta allt yfir okkur ganga.  En ef okkur þykir vænt um aðra verðum við umburðarlyndari.  Átök og erjur verða fátíðari.

Jæja, lengra er ég nú ekki kominn í þessum pælingum mínum ...

"Slútta" þessari færslu með mynd frá einum höfuðsnillingnum sem ég kynntist á skólaárunum á Akureyri ... ég er að tala um Jón Þór.
Vinátta okkar hefði aldrei orðið, ef bekkjarfélagi minn í Versló hefði hagað sér skikkanlega ...

En "innihald" myndarinnar hefur ekkert að gera með innihald færslunnar, þvert á móti, held ég.  Þarna er maður bófi í Chicago á bannárunum, með byssu í hönd ...

DSC0055 by you.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi bók er ágæt til að vekja mann til umhugsunar.  Að hafa kærleika og þakklæti að leiðarljósi.  Hún er þó enginn stóri sannleikur og gefur töluvert sérstaka mynd af því að maður geti bara "hugsað" alla hluti til sín.  Ég er frekar efins um þann þátt, því hún tekur engin mið af fjárhagslegum aðstæðum fólks.

  Jákvæðni er alltaf góð og ef maður getur tileinkað sér þó ekki væri nema brotabrot af því sem talað er um í bókinni, þá er maður á réttri leið. Hún er ágætis leiðarvísir hvað það varðar.

Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband