Dagurinn í dag

Barnunginn er þessa dagana að ganga í gegnum svokallaðan vaxtarkipp ... sem gjarnan á sér stað í kringum 6. vikna aldur.
Afleiðingin þessa er mikill grátur, óværð og endalaust hungur ...

Móðir hnátunnar svaf í 3 klukkutíma síðustu nótt, slík var svengdin.

Frá því klukkan 6 í morgun og allt þar til klukkan sló 21.30 í kvöld, var engu líkara en 18 barna faðir í álfheimum hefði verið í heimsókn hér í Bourke Street.  Telpan krafðist áfyllingar á um 20 mínútna fresti, og í kjölfarið ýmist dottaði hún lítillega eða grét vegna ólgu í meltingarfærunum.

Lauga tók þessu ástandi af stóískri ró, þrátt fyrir að vera dauðþreytt og undir töluverðri pressu að ljúka gerð nokkurra tuga para af eyrnalokkum, sem hún ætlar að senda á sölusýningu til Íslands í vikunni. 
Og ég reyndi að halda mér á mottunni ... staðráðinn í að opinbera ekki þá óþolinmæði og pirring sem var innra með mér.  Reyna að bæta frammistöðu mína frá því í gær!! 

Ég fúslega viðurkenni það að þegar hún bað mig um að skreppa niður í bæ, í þeim erindagjörðum að kaupa hráefni í lokkana, varð ég feginn.  Alveg drullufeginn ... og í bænum fékk ég útrás fyrir pirringinn og óþolinmæðina, sem hafði safnast fyrir um daginn.  Ég skammaði strætóbílstjóra, flautaði á mig, ég amaðist við lítilli stelpu sem gerði ekki alveg eins og ég ætlaðist til að hún gerði, sem var að vera ekki fyrir mér og hjólinu mínu og ég fuðraði næstum því upp við bókasafnsvörð á Fisher-bókasafninu, vegna þess að hann skildi ekki upp né niður í því sem ég var að reyna að segja honum.

Um það leyti sem við Lauga átum kvöldmatinn, það er um kl. 21 í kvöld, lét dóttirin öllum illum látum.  En það var sameiginleg ákvörðun okkar að láta hana aðeins í friði, svona rétt að sjá hvort hún myndi ekki bara róast og sofna.  Það gerðist ekki ...

Líkt og áður, tók gólið allverulega á taugarnar og ég spurði Laugu: "Hvað langar þig mest til að gera við dótturina núna?"
Og hún svaraði einfaldlega: "Mig langar til að taka hana í fangið og svæfa hana."
Svo fór hún inn í herbergi og settist hjá vöggu þeirrar litlu, strauk henni um vangann og raulaði lítið lag fyrir hana.  Sjálfur sat ég frammi í eldhúsi og kláraði matinn minn, pirraður!!
Sú stutta sefaðist og brátt féll allt í dúnalogn ...

Síðan þetta gerðist fyrir um þremur klukkutímum hef ég verið hugsi yfir þessu svari móðurinnar.  Í raun var svar hennar gulls ígildi ... það var svo ótrúlega rétt og satt ... það endurspeglaði svo mikinn kærleika. 
"Mig langar til að taka hana í fangið og svæfa hana."

Sjálfur var ég meira að hugsa um að loka hurðinni inn í svefnherbergið eða setja vögguna inn í skáp!!!  Úfff ...

Ég get ekki annað sagt en mikið lifandis skelfing ósköp er barnið heppið að eiga svona móður ...

... ég sjálfur má hinsvegar halda áfram að taka til í mínum ranni, svo mikið er víst!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún og Halldór Pálmar

Svo þú ert þá bara mannlegur eftir allt saman...  Það getur svo sannarlega tekið á taugarnar að hlusta á barnið sitt gráta alveg óhuggandi, hvað þá þegar það stendur yfir heilu og hálfu dagana. Og það er svo sannarlega gott að stúlkan á svona góða móður með þolinmæði og ró til að takast á við grenjuganginn. Vonandi gengur þetta fljótt yfir hjá þeirri stuttu.

Helga Guðrún og Halldór Pálmar, 22.7.2008 kl. 19:07

2 identicon

Já, þetta tekur sko á! Elsku litla stýrið (dóttirin, ekki þú) að eiga svona bágt þessa dagana, þetta hlýtur að ganga fljótt yfir og þá fellur allt aftur í ljúfa löð! Lauga er greinilega kona með stáltaugar

Helga S (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 00:05

3 identicon

hahahaha!!! Gott að geta bara verið heiðarlegur varðandi líðan sína þegar svona lítið kríli reynir á taugarnar! :) .... en ekki koma viðbrögð móðurinnar mér á óvart - hér er kona á ferð sem er engri lík. Dásamleg í alla staði, þolinmóð, blíð og hjartagóð með eindæmum. Lýsi henni eins Lína vinkona lýsti henni Áslaugu okkar, því það á líka við hana Laugu; "Hún er með svo fallegt hjarta". Muna bara að þegar börnin okkar láta sem verst, hugsa þá mest um það hversu heppinn maður er fá að halda á þessari dásemd og hugga...það eru bara ekki allir svo heppnir að fá að njóta þeirra forréttinda. Við eruð ein af þessum heppnu!!! :D

Knúsið krilluna frá mér;

Sigga Dóra :)

Sigga Dóra (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband