Súrir dagar!!

Múrenan sárvorkennir sér þessa dagana ... því það er bara ekkert gaman núna!!

Eftir allt ferðabröltið, til Dubai og Singapore, lagðist Múrenan í rúmið síðastliðinn mánudag, ... isss ... hélt að slenið myndi bara rátlast af henni á nokkrum klukkutímum, en það var nú ekki aldeilis svo ... !!!

Múrenan lá sem örend í rúminu í marga daga, eða allt til hún skreið á fætur á laugardaginn.  En það var bara í mýflugumynd og í gær sunnudag, bauð hún spúsunni upp á leiðinlegasta félagsskap í heimi, með því að vera hvorttveggja í senn grjótfúl og afundin í tilsvörum.  Svo heiftarleg voru leiðindin að spúsan sagði að Múrenan hefði verið miklu skemmtilegri þegar hún var sem veikust í vikunni.  

Til að bæta gráu ofan á svart drifu Múrenan og spúsan sig í Powerhouse Museum í gær, í þeirri meiningu að það væri eitthvað skemmtilegt.  Jesús!!!  Þvílík leiðindi!!  Pottþétt leiðinlegasta safn sem Múrenan hefur nokkurn tímann komið á ... samansafn af öllu og engu!!  Múrenan telur að það áhugaverðasta sem hún fann þarna inni, hafi verið einhvers konar hjöruliður, sem var betrumbætt útgáfa af hefðbundnum hjörulið í drifskafti.  Múrenan reiknar ekki með að nokkur hafi áhuga á þessu, þannig að hún ætlar ekki að lýsa þessu neitt nánar.
Og hvað gerðist á meðan Múrenan vafraði um ganga Powerhouse Museum ... tvö frægustu skemmtiferðarskip heimsins mættu hvort öðru í Sydney höfninni ... annað á jómfrúarferð sinni um heiminn, hitt á sinni síðustu ferð!!!  "Stórkostlegt móment" segja þeir sem á horfðu.

Svo er gengið að falla ... ástralski dalurinn búinn að lækka um einhver lifandis ósköp ... er núna tæpar 62 krónur, var 52 þegar Múrenan steig fyrst fæti sínum á ástralska jörð í maí á síðasta ári.  Hver borgar það???  Múrenan hefur verið tiltölulega hliðholl krónunni allt til þessa, líklega af þjóðrembingsástæðum, en stundum er sagt að menn læri ekki neitt nema prófa það sjálfir ... svo mikið er víst að Múrenunni finnst sjálfsagt að ræða það hvort ekki skuli tekin upp önnur mynt.  Sem dæmi hefur Uncle Toby´s hafragrauturinn hækkað um 60 krónur án þess nokkur einasta hækkun hafi átt sér stað hjá verslunarrisanum Coles.

Jæja, það hlýtur að fara að birta yfir aftur ... en eins og mál standa nú, er Múrenan bara súr hérna í Sydney!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ferlegt að byrja önnina í svona ásigkomulagi....og vetur konungur fer að banka uppá! Þú hlýtur nú að hafa verið ansi slappur fyrst betrumbætta útgáfan af hjöruliðnum féll ekki í kramið. Þótt safnið sé það lélegasta í heimi, krónan í tómu rugli og skemmtiferðaskipin í hvarfi, má Múrenan ekki hengja haus því það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt. Þið getið t.d. hlakkað til að sjá tvö frægustu skemmtiferðaskip heims, þið eigið aldrei eftir að fara á leiðinlegra safn, þið tókuð ekki 5 milljón króna lán á síðasta ári til að kaupa bréf í SPRON eða FL grúpp, það má allaf drýgja grauta með vatni, o.mfl... Líður Múrenunni ekki betur núna?

Halldór (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 07:39

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Múrenunni líður bara miklu betur eftir að hafa lesið "upprífingarpistil" Halldórs ... þetta er alveg satt, tilveran gæti verið svo miklu verri en hún er!!

Páll Jakob Líndal, 26.2.2008 kl. 11:03

3 identicon

Ég er sammála þessu með krónuna.  Einn daginn fór ég tvisvar útí hraðbanka og tók út 20 pund í hvort skiptið. Seinna þegar ég var að líta yfir netbankann sá ég að um morguninn kostuðu þessi pund 2500 kr. en um kvöldið 2650 kr.  Hvernig er það hægt!!!! Sama daginn!

Dagrún (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband