Arkitektastofan í Bourke Street

Við hliðina á íverustað Múrenunnar er arkitektastofa, alltént heldur Múrenan að það sé arkitektastofa.  Að minnsta kosti, ef litið er þangað inn af svölunum, sem Múrenan hefur til umráða, er þar inni allt undirlagt af teikningum af öllum stærðum og gerðum.  Fleira styður tilgátu Múrenunnar svo sem ríkulegur tækjabúnaður, nokkuð af starfsmönnum og athyglisverðar, nýstárlegar og nokkuð smekklegar útfærslur, sem hafa verið gerðar til að auka fegurðargildi hússins.  Fullkomlega andstætt húsi Múrenunnar ... þar sem Manuel landlord kippir sér lítið upp við þó húseignin sé ekki alveg upp á 10. 

Þetta sinnuleysi Manuels hefur hins vegar tendrað bál í huga Múrenunnar, bál sem erfitt getur verið að slökkva ... þetta er eldmóðsbálið ... en það bál er fóðrað á því hvimleiða vandamáli Múrenunnar að vilja helst alltaf vera að gera við, laga og betrumbæta umhverfi sitt. 

Þegar Múrenan stendur út á svölunum, og horfir á húsgaflana tvo ... gaflinn hans Manuels og arkitektastofugaflinn ... er munurinn svo æpandi að Múrenan verður nánast óviðræðuhæf, langar mest til að þrífa upp pensilinn og málningarfötuna ... og bara byrja.  Vandinn er bara sá að Múrenuna langar ekki til að bera kostnaðinn af þessu og hefur ekki enn þorað að spyrja Manuel úti í þetta ...

Jæja, en aftan við arkitektastofugaflinn er lítið sund, þar sem arkitektarnir eru stundum að vinna þegar gott er veðrið, og stundum borða þeir þar einnig ... en á föstudögum, milli klukkan 18 - 20, bregst ekki að hundur er settur út í þetta blessaða sund.  Þetta er brúnn, nokkuð voldugur, Labrador hundur með brún augu og rauða ól ... Múrenan ætlar ekkert að setja út á hann annað en það að hann er gjörsamlega óþolandi.  Hann er engu betri en tjaldur eða stelkur á varptíma, með öðrum orðum hann getur ekki haldið kjafti!!!  Gjammandi og gólandi, stendur hundkvikindið þarna í sundinu á áðurgreindum tímabili, og gerir Múrenuna nánast vitstola. 

Og það er ekki eins og Múrenan hafi ekki farið út á svalir og reynt að tala við hvutta, honum er bara alveg skítsama um eitthvert bláeygt fífl frá hjara veraldar, sem er að reyna vera sniðugt ... hann vill bara losna úr prísundinni.  Þess vegna hættir hann ekki fyrr en hann hefur fengið vilja sínum framgengt.  En eins og áður segir þá þolir Múrenan illa að geta ekki haft áhrif á umhverfi sitt, hvort sem það er ómálaður Manuelsgafl eða geltandi hundur ... þess vegna mun Múrenan ganga í það á næstu dögum að fá peninga hjá Manuel fyrir málningu og segja eiganda hundspottsins að hirða almennilega um það, ellegar verði haft samband við ástralskan staðgengil Sigríðar Ásgeirsdóttur, formanns Dýraverndunarfélags Íslands.  Kvartað verður yfir slæmri meðferð á hundi og múrenu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband