Tíminn flýgur hratt!!

Oft hefur Múrenunni fundist tíminn líða hratt, já ... en sjaldan eins og í dag.  Það rann nefnilega upp fyrir henni að í dag eru nákvæmlega 4 ár síðan hún stóð ásamt spúsunni, Djó, Andreu og Benný við bakka Harlem-ár í New York og horfði á flugeldasýningu, sem haldin var í tilefni þjóðhátíðardags stórveldisins.  Sá sem stóð fyrir sýningunni er nú horfin úr minni Múrenunnar ... Ma ... eitthvað ... nei það virðist ekki koma.  Alltént borgaði Bush ekki!!!  Jæja, skiptir kannski ekki öllu máli.

En þessi flugeldasýning var alveg ótrúleg.  Allt byrjaði þetta á því að Múrenan mætti á svæðið, ásamt áðurgreindu föruneyti og fjölmörgu öðru fólki, fullviss þess að það gæti enginn toppað Íslendinga í flugeldum.  Það var því, með öðrum orðum ekki laust við vanþóknun í rödd hennar þegar hún tilkynni samferðamönnum sínum að það væri gaman að sjá hvað Kanarnir þættust geta í þessari listgrein ... og ef þeir þyrftu á aðstoð að halda þá væri Múrenan á staðnum, náttúrutalent í meðferð skotelda ... verklag hennar, leikni og útsjónarsemi, nánast eins og skólabókardæmi um hvernig á að bera sig að þegar eldfimar flaugar og púðurfylltar tertur eru annars vegar.

Annars finnst Múrenunni það í raun alveg stórmerkilegt hvað margir Íslendingar telja sig vera á einhverju "atvinnumannastigi", þegar rakettur og bombur eru til umræðu.  Um hver einustu áramót, stíga fram hinir ólíklegustu menn, jaaaa ... og stundum konur ... sem telja sjálfan sig vera í einhverjum "gullhópi" flugeldasérfræðinga, með sérgáfu og færni sem fæstir geta státað sig af ... sem er náttúrulega tóm andskotans vitleysa því þeir þurfa nú ekki annað en að líta ögn í kringum sig til að sjá spegilmynd sína, það er alla hina vitleysingana, sem telja sig líka vera aðila að þessum sama hópi ... sprengjandi út í loftið eins og fífl, stórhættulegir sjálfum sér og öðrum!!

Múrenan leggur til að þessir aðilar fari nú að líta á sjálfa sig raunsæjum augum og láti fagmennina um "grínið", eins og góður grínisti benti enn betri fréttamanni á, í tengslum við UNICEF-kvöldið 1. des. sl.

Jæja, en það kom nú samt ekki til að "undrabarnið" Múrenan væri beðin um að hjálpa til, þarna í New York, enda virtust þeir nú alveg kunna sitt fag.  Frá fyrstu mínútu færðist sýningin jafnt og þétt í aukanna, og fljótlega varð Múrenan að viðurkenna að áramótaflugeldasýning hennar í Mosfellsbæ '95, myndi ekki standast samanburðinn, né heldur flugeldasýning LHS í Mosfellsbæ '02 á þrettándanum.  Meira að segja trompið ... sjálf flugeldasýning Orkuveitunnar á Menningarnótt, var gjörsigruð.  Og áfram hélt Kaninn ... og trompaði áramótin 1999/2000 og áfram var haldið ...  Múrenunni tók að leiðast!!!  Þetta ætlaði aldrei að taka enda ... sprengingar, drunur, eldglæringar, meiri drunur, sprengingar o.s.frv. helst allt í fánalitum Bandaríkjanna.  Klukkustund af þessum fjanda ...

Múrenan hefur ekki borið sitt barr eftir þessa flugeldasýningu ... allar flugeldasýningar verða eitthvað svo ömurlegar, úr því hún þurfti að sjá þessa ... og það sem verra er - Múrenan óverdósaði af flugeldum og hinn mikli rakettuáhugi gjörsamlega skolaðist út um gluggann!!!

Ójá, ... og það eru fjögur ár liðin síðan ... vááá ... hvað tíminn er fljótur að líða!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta var auðvitað brill sýning og frábær helgi í New York :)

ég viðurkenni fúslega að hafa fallið í þá gryfju að reyna að útskýra fyrir vinnufélögunum í Boston hversu stórfenglegt það væri að sjá flugeldana hér á Íslandi um áramótin og sagði þeim að það þyrfti nú ansi góða sýningu til að toppa það......þetta féll ekkert endilega vel í kramið hjá fólki og ég fékk ekki þau viðbrögð sem ég gerði ráð fyrir....svo áttaði ég mig á því að þjóðarrembingur er ekkert voða smart eða vinsæll :D

Benný (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 19:21

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Fyrir flugeldasýninguna 4. júlí 2003 í New York, hefur Benný greinilega litið svo á, líkt og Múrenan, að Íslendingar væru bestu flugeldamenn í heimi ... en svo skipt um skoðun eftir hátíðarhöldin ...

Það má vel vera að Íslendingar séu fremstir í flokki á sviði skoteldasprenginga miðað við höfðatölu ... en það er ekkert að marka það.  Þetta er einfalt reikningsdæmi, gefum okkur að hver Íslendingur leggi til 60 rakettur um hver áramót, þá gefur það 18.000.000 stykki.  Til að jafna þetta út þarf hver NYC-búi, Múrenan gefur sér að þeir séu 8 milljónir (sjá http://en.wikipedia.org/wiki/New_York_City), ekki að skaffa nema 2,25 rakettur til að jafna metin og ef hver þeirra grípur nú með sér 2 stykki til viðbótar, þá er búið að rústa Frónverjum - gjörsamlega.

Niðurstaða: Hættum að nota þessa höfðatöluútreikninga, þeir eru bara bull og skapa leiðindi ... lítum bara á hlutina eins og þeir eru í raun. 

Páll Jakob Líndal, 5.7.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband