Mánudagur 20. ágúst 2012 - Dagurinn og helgin gerð upp

Í morgun var ég búinn að klæða systkinin, gefa þeim að borða og undirbúa þau fyrir strætóferðina í leikskólann en átti eftir að klæða mig sjálfan, greiða og tannbusta. Í miðju kafi við að koma mér í buxurnar heyri ég hvar gellur í GHPL þar sem hún stendur tilbúin við útidyrnar:

"Pabbi!! Pabbi!!"
"Já!"
"Drífðu þig ... ég er að missa af strætó!"

Hvað segir maður eiginlega við svona?!? 

---

Í dag var fyrsti alvöru dagurinn hjá nafna. Var dagurinn öllum til sóma, því nafni hagaði sér eins og þaulvanur leikskólanemandi. Reif kjaft, lék sér, svaf, neitaði að borða og fór að grenja þegar mamma hans kom að ná í hann.

Svo var hann alveg járnhress þegar heim var komið. Þá var ekið um á "bobby car" og farið í fótbolta með systurinni. 

 

Svo fjaraði fremur hratt undan drengnum ...

---

Snæfríður yfirgaf svæðið í gær ... hélt til Íslands en á laugardaginn ákváðum við að gera okkur dagamun og héldu til Stokkhólms, nánar í Gröna Lund.

Það lukkaðist bara mjög vel en óhætt er að segja að það sé ekkert gefins á þeim staðnum ...

Þar skruppu allir í tæki við hæfi, jæja og þó ... Snæfríður plataði mig í rússibana. Satt að segja hef ég aldrei verið sterkur þegar kemur að svona tívolíum. Held að ég hafi ekki stigið í rússibana síðan í júlí 2003 þegar ég fór eina ferð í skemmtigarðinum Six Flags í New Orleans. Sú ferð fannst mér hreint ekki skemmtileg. 
Kannski var það nú ekki til að lyfta stemmningunni að ég var hressilega sólbrunninn og þurfti því að klæðast peysu og átti ekkert annað en flíspeysu. Það var gott að labba um garðinn í nærri 40°C hita í þeirri flík. 

En já, það var þá. Ég lét mig hafa eina ferð í "Jetline". Kannski ekki rosalegasti rússibani í heimi en svei mér þá það var bara mjög skemmtilegt. Þannig að ég lét mig hafa að fara eina ferð í "Kvasten". Rosalega var ég samt ringlaður þegar ég kom út úr þessum tækjum ... man ekki eftir að hafa upplifað það fyrr (en ég fékk það staðfest af tveimur læknum í gær að þetta væru augljós merki um að ég væri örlítið tekinn að eldast :) ).

Svo skrapp ég í ferð með GHPL í "Fljúgandi fílana".

 

GHPL fannst það frábært!

Lauga tók hlutunum aðeins rólegar og skrapp með nafna, já og Gudduna, í fyrstu tívolí-ferð þess fyrrnefnda.
Það var nú sannarlega tæki við hæfi.

 

Svo var leikur í gærkvöldi - Vaksala vs. Markim/Onesta. Steindautt markalaust jafntefli. Síðuhaldari gat ekki drullu í leiknum. Ótrúlega leiðinlegt að spila heilan fótboltaleik og geta ekkert. 

En svona er þetta bara stundum. 

Góða í þessu er að við höfum ekki tapað síðustu fimm leikjum sem er ágætt eftir afleita byrjun á mótinu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband