Föstudagur 15. júní 2012 - Svíar fara heim

Þá eru Svíar á leiðinni heim úr EM 2012 eftir tap gegn Englendingum 3-2. 


Mellberg skorar annað mark Svía og breytir stöðunni í 1-2. 

Gamla kempan Henrik Larsson, einn sá sprækasti sem Svíar hafa alið, var ekki mjög hress í ráðgjafahlutverkinu á TV4 eftir leik. Sama má segja um hinn ráðgjafann, Bojan Djordjik.
"En fótbolti er fótbolti", sagði Larsson.

Og núna er búið að draga forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt inn í stúdíó að ræða málin ásamt fleirum og allir frekar spældir. Kannski skiljanlega ;) .

 

---

Lauga hefur verið iðin við að horfa á leikina á EM 2012. Það hefur satt að segja komið mér mjög á óvart. Hún hefur hingað til ekki verið mjög áhugasöm um fótbolta.
En hún situr í sófanum og dæmir aukaspyrnur og stundum víti (jafnvel úti á miðjum velli), spyr hvernig rangstaðan virkar, hampar því sem vel er gert, bölvar mönnum fyrir grófan leik og lélegar sendingar og flissar hneyskluð þegar skotin geiga.

---

Sonurinn veit ekkert betra en poppkorn og vínber. Jú, kannski að komast í súkkulaði. Í kvöld var margt af þessu í boði meðan horft var á leikinn. Drengurinn þvældist hringinn í kringum stofuborðið í leit sinni að einhverju bitastæðu.  

Samfara því skrapp hann nokkrum sinnum að sjónvarpsskjánum, var algjörlega fyrir meðan hann klappaði glaðlega á skjáinn. Eftir að vera fyrir í dágóða stund, beindist fókusinn yfirleitt að ljósinu sem gefur til kynna að tækið sé í gangi og takkanum við hliðina á ljósinu sem er til að slökkva á tækinu. Honum hefur ekki enn tekist á slökkva en það er tímaspursmál.

Hinsvegar er hann búinn að uppgötva appelsínugula takkann á fjöltenginu sem tengir tölvuna mína við rafmagnið.
Það er afar "þakklátur" gjörningur þegar hann ýtir á þann takka meðan vinna á tölvuna stendur sem hæst.  
GHPL ákvað í dag að prófa að ýta á takkann. Ég skyldi ekki hvur fjárinn var að gerast þegar tölvan allt í einu gaf upp öndina. Ég leit á GHPL sem horfði til baka með var-ég-að-gera-eitthvað-sem-ég-má-ekki-gera?-svipnum. Svo vissi hún upp á sig skömmina og fór að gráta án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að setja ofan í við hana.

Meðan á fyrri hálfleik stóð í kvöld horfði heimasætan á Strumpana - með ungversku tali held ég. En henni er slétt sama um það. Í síðari hálfleik fóru hins vegar leikar að æsast, bæði hjá henni og á sjónvarpsskjánum.
Leikmenn tóku að raða inn mörkum og dóttirin tók að raða inn beiðnum um hvers kyns þjónustu. Hún var alveg að pissa í buxurnar og því átti ég að ná í kopp fyrir hana, ég átti að hella poppi í skál fyrir hana og tína upp mylsnurnar af gólfinu. Á meðan var skorað. Svo átti ég að ná í náttkjól fyrir hana og mjólk að drekka. Aftur var skorað. Ég átti að hjálpa henni að klæða sig úr og í og strjúka henni eftir að hún lagðist fyrir í sófanum. Meðan ég var að vasast í því var skorað. Þá vantaði sæng en þá sagði ég stopp ... Lauga náði í sængina. Ekkert gerðist í leiknum á meðan.

"En fótbolti er fótbolti", sagði Henke Larsson ... og það er rétt, það er ekki spurt að því hvort maður sé fyrir framan skjáinn eða frammi í eldhúsi að sækja mjólk í "bleika pjéla" eins og GHPL kýs að kalla stútkönnuna sem hún hefur tekið ástfóstri við. 

Í lokin ... maðurinn sem landslið Svía í fótbolta snýst um ... Zlatan Ibrahimovic í viðtali eftir leik ... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband