Fimmtudagur 31. maí 2012 - GHPL og PJPL

"Nú þurfum við að borða morgunmat", sagði ég við dótturina í morgun.
"Já", svaraði hún.
"Hvað viltu fá að borða?"
"Fisk!"
"Fisk?!? Í morgunmat?"
"Já ... ég elska fisk!"

Svo mörg voru þau orð.

En fisk fékk hún þó ekki í morgunmat enda ekkert slíkt til í býtibúri heimilisins á umræddum tímapunkti. 

---

Í kaffitímanum í dag skrapp GHPL á klósettið ... "alveg sjálf" eins og flestir heitir þessa dagana.

Eftir dágóða stund kemur þetta sígilda "kall": "BÚIN!!!"

Ég stend upp og gríp í húninn á baðherbergishurðinni - sú stutta er þá búin að læsa að sér. Maður verður jú að hafa næði.

"Guðrún, verður að opna ..."

"Get það ekki ... ég var að pissa!!"

Snillingur þessi dóttir!!

--- 

Í kvöld sá hún svo grindahlaup í sjónvarpinu og uppveðraðist heldur betur ... "Mamma, mamma!!  Komdu og sjáðu!!  Fólkið að hlaupa og hoppa mjög mikið!!
Svo var tekið til óspilltra málanna. Bók, strump, púsluspili og púða var raðað upp með jöfnu millibili á gólfið og svo tók dóttirin tilhlaup og hoppaði yfir "hindranirnar" ("alveg sjálf!!") ... alveg þangað til hún í eitt sinn dreif ekki yfir púðann, sem rann undan henni og hún valt um koll!!  

Reiðikast ... "DET GÅR INTE!!!!" öskraði hún með samankreppta hnefana og á eftir fylgdi mikið reiðihljóð - púðinn flaug upp í loftið og lenti á eldhúsborðinu og hér um bil ofan í matnum ...

Þetta jafnaði sig samt fljótt ... en grindarhlaupsæfingar lögðust af. Þess í stað fór hún að æfa það sem sigurvegararnir á frjálsíþróttamótum gera oft ... en það er að hlaupa sigurhring með blómvönd í hendi ... hátt á lofti. GHPL greip því afganginn af agúrkunni sem lá á borðinu, lyfti honum hátt til lofts og tók að hlaupa í hringi. Hún fannlíka geit, svona litla plastgeit og hélt á henni í hinni hendinni. Hátt á lofti. Tilgangur geitarinnar er enn óljós ...

---

Stubbur hefur hins vegar tekið hlutina öðrum tökum. Hann er búinn að vera veikur núna í 2 daga og hafði af fjölskyldunni siglingu til Riga sem búið var að skipuleggja og kaupa með ærinni fyrirhöfn. Ég er búinn að skrifa það hjá mér og mun gera það upp við hann þegar hann hefur vit til að skilja hvar Davíð keypti ölið. 
GHPL bíður reyndar líka eftir að læra sína lexíu síðan hún hafði af okkur Tyrklands- og Grikklandsferð hér um árið, þegar hún tók sótt mikla í Hong Kong þegar við vorum að fljúga heim frá Ástralíu. Kyrrsetning í 6 fermetra hótelhergi í Hong Kong í viku ... geymt en ekki gleymt! ;)

Nú þarf að vinna í því að fá Riga-ferðina endurgreidda ... ætti nú samt ekki að verða mikið mál.

Nafni sveiflast á milli þess að vera slappasta barn í veröldinni og yfir í að vera hressasta barn í veröldinni.
Þegar hann er slappur þá heimtar hann að liggja á bringunni á manni, og maður má ekki hreyfa sig baun án þess að það kosti töluverð leiðindi og greinileg óþægindi fyrir hann ... að hans eigin mati að sjálfsögðu.
Svo fær hann nettan stíl upp í óæðri endann og að nokkurri stund liðinni, verður allt skínandi bjart og fagurt. Skælbrosandi og skríkjandi, veður hann um öll gólf og leikur við hvurn sinn fingur. Og æðir hiklaust út á svalir ef einhver hefur álpast til að opna þangað út, svona til að láta lofta aðeins um íbúðina. 
Loks fellur allt í fyrra horf ... stíllinn hættir að virka og allt verður á svipstundu ómögulegt ...

Svona gengur nú lífið fyrir sig á þessum bænum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband