Þriðjudagur 29. maí 2012 - Hæfnin að bregðast við

Þá er maður rétt að jafna sig eftir sigurinn í Eurovision ... búið að vera stanslaust geim síðan á laugardagskvöld.

Sunnudagurinn fór í að leggja lokahönd á grein sem send var til vísindatímarits í gær ... loksins!!  Það var ákaflega ánægjulegur áfangi svo ekki sé meira sagt.

Núna þarf bara að vinna að síðustu greininni fyrir doktorsverkefnið og var hafist handa við það í dag af töluverðum krafti. Reyndar var ég búinn að vinna töluvert í henni síðastliðið haust en núna er allt tekið mun fastari tökum. Hún verður að skrifast á mjög skömmum tíma ef markmið mitt um að skila inn doktorsverkefninu þann 31. ágúst á að nást.

--- 

Húsnæðisleitin ætlar engan endi að taka og er það vel enda fátt skemmtilegra en að leita á húsnæði á markaði þar sem lítið sem ekkert framboð er til staðar. Þetta setur alveg auka vídd í tilveruna.

Svo er spurningin um hvað taki við af doktorsnáminu farin að verða nokkuð áleitin og einhverjar hugmyndir teknar að fæðast ... það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

---

Ég hef lítið sett fram "gáfulegar" pælingar upp á síðkastið, þannig að hér kemur ein.

Ég var að lesa pistil sem fjallaði um mikilvægi þess að þróa með sér hæfni til að bregðast við. Þrælathyglisvert.
Höfundurinn tók sérstaklega fyrir þær aðstæður þar hlutirnir ganga ekki eins og helst er á kosið. Hann sagði alveg merkilegt hvað skortur á hæfni við að bregðast við slíkum aðstæðum væri almennt mikill hjá fólki. Sem er alveg rétt.
Hvað gerir maður yfirleitt þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður vill að þeir gangi? Jú, maður verður pirraður, reiður og byrjar svo að kenna öllum og öllu öðru en sjálfum sér um.  Hvað segir maður ef maður skíttapar fótboltaleik ... "þetta var nú meira dómarafíflið!" eða "þessir drengir í þessu liði þeir geta bara ekkert" eða eitthvað annað ...

Mín hæfni á þessu sviði er ekki góð ... svo mikið er víst ... það þarf nú oft ekki mikið til að maður fuðri upp. Sjaldnast er það þó sjálfum mér að kenna ;) .

Það er í raun alveg rosalega skrýtið að maður velji þennan kost jafn oft og raun ber vitni ... í stað þess að æfa sig. Líta á "mótlætið" sem prýðisgott tækifæri til að auka hæfnina í því að bregðast við á sannfærandi og uppbyggilegan hátt.
Með því að hafna þessum tækifærum er maður í raun að kasta mjög nytsamlegum hlutum frá sér. Það að hafa hæfileika á einhverju sviði er í flestum tilfellum jákvætt ... skyldi maður ætla.

Ef maður hefur hæfni til að bregðast vel við mótlæti, hlýtur maður að vera betur í stakk búinn að mæta því. Eftir því sem maður er betur í stakk búinn að mæta því, því líklegra er að maður geti breytt hlutunum þannig að líklegra sé að þeir falli manni í geð.

Ef maður hinsvegar kennir alltaf öðrum um, þá er maður um leið að segja að aðrir verði að breyta hlutunum þannig að þeir falli manni sjálfum í geð. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan er því orðin háð því að aðrir geri eins og ég vil. Ég er því orðinn bjargarlaus. Eins og korktappi úti á rúmsjó.

Þannig að ef ég verð alltaf pirraður á því þegar Guddan neitar að vera í buxum þegar hún þarf að vera í buxum, þá er pirringur minn og pirringsleysi algjörlega háð því hvað GHPL segir á hverjum tíma. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan mín er orðin háð einhverjum dyntum í tæplega fjögurra ára gömlu barni. 
Ég leyfi fjögurra ára gömlu barni að "leika sér" með geðslag mitt en ég leyfi því ekki að leika með fjarstýringuna á sjónvarpinu ... :) 

Af hverju í fjáranum ætli maður kjósi sér þessa leið í lífinu?

Þetta var pæling dagsins ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband