Miðvikudagur 29. febrúar 2012 - Veikindi, tannburstun og já, svolítið um feminisma

Þessi hlaupársdagur fór aðeins öðruvísi en lagt var  upp með ... en upp úr hádeginu tók "stubburinn" upp á þeim óskunda að hækka líkamshitann upp um 2°C og þar með setja dagskrána úr skorðum. Þegar Lauga kom heim úr vinnunni var ekki mögulegt að taka "stubb" með að ná í GHPL og skaust ég því yfir í Årsta til að heimasætuna ... sem var allforn í skapi þegar mig bar að garði.

Þannig fóru 4 klukkutímar af hlaupársdeginum í strætóferðir ... sem er persónulegt met hjá mér.

Í kvöld var Guddan svo komin með hita líka þannig að þetta var bara allt "eins og það á að vera".

--- 

Guddan bað mig í dag að hjálpa sér að tannbursta sig. Tannburstunaræðið er enn við lýði ...

Þetta var í miðjum kaffitímanum og ég sagði henni bara að redda sér sjálf því ég væri að borða. Því var ekki við komandi.
Ef töluvert rex stóð ég upp opnaði baðherbergisdyrnar, kveikti ljósið og greip tannburstann sem stóð í tannburstaglasinu. Þá brást GHPL, sem hafði fylgt í humátt á eftir, ókvæða við og galaði: "Pabbi!!! Ég getta alveg sjálf!! Ég getta alveg sjálf tannbursta! Skammast!!" (sem er útgáfa GHPL af "skammastu þín", veit ekki hvar hún hefur lært það, því hvorki ég né Lauga segjum henni að "skammast sín"). 
Svo var þrifinn af mér tannburstinn, horft reiðilega á mig og mér ýtt út af baðherberginu.

Tja ... það er vandlifað ... ;) ...

---

Já, það er stundum vandlifað ... það nennir kannski enginn að pæla í þessu en ég hef svolítið verið að fylgjast með þessu máli þar sem Hildur Lilliendahl tók saman niðrandi ummæli nokkurra karlmanna um konur sem birtust á internetinu og setti í myndaalbúm sem hún kallaði "Karlar sem hata konur".

Án þess að vera á nokkurn hátt að verja þá bjánalegu iðju sumra að skrifa óhróður á netið um menn og málefni, þá finnst mér þetta framtak Hildar fremur kjánalegt. Þetta leysir ekki neitt ... fylkingarnar herðast bara í skoðun sinni ... öllum finnst þeir hafa rétt fyrir sér, allir eru fórnarlömb, öllum finnst gengið á rétt sinn.

Persónulega finnst mér fólk sem hefur tileinkað sér það sem kalla má "pólitíska rétthugsun"  alveg frámunalega þröngsýnt og hafa lítið áhugavert fram að færa.  Alhæfingunum er fleygt fram hægri, vinstri ... og það getur verið mjög erfitt að fá einhverja vitræna umræðu, einfaldlega vegna þess að það rúmast oft engin önnur sjónarmið.  Allt er það gert í nafni jafnréttis og bræðralags sem enginn fær neinn botn í. 
Mér skilst að Hildur hafi með framtakinu viljað bæta umræðuna og láta gott af sér leiða ... en svo segir hún að það dugi engar "mjúkar baráttuaðferðir".

Almennt séð, getur það varla verið bættri umræðu til framdráttar að byrja á því að veita viðmælenda sínum ærlegan kinnhest allt í nafni þess að hann "eigi það bara skilið"!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband