Miðvikudagur 18. janúar 2012 - Þrjár bækur

Í gær fékk ég senda í póst bók - Cities for People - eftir Jan nokkurn Gehl, danskan prófessor sem er nú einn fremst ráðgjafi heims í hvernig hanna á borgarumhverfi til að auka lífsgæði fólks. 

Gehl fékk fyrst alvöru athygli þegar hann tók þátt í því að gera Strikið í Kaupmannahöfn að göngugötu á 7. áratugnum og nota rannsóknarliteratúr og athuganir til að þróa prójektið. Á 7. áratugnum skrifaði hann svo bókina "Livet mellam husene", bók sem náði síðar gríðarlegum vinsældum og er álitið mjög gagnlegt og merkilegt rit. Og skemmtilegt.

Það sama verður sagt um þessa bók sem ég fékk í hendurnar í gær ... maður sogar hvert einasta orð í sig ... og sjaldan hef ég verið í jafnmiklu "sinki" við eina bók. 

---

Áður en ég fékk þessa bók í hendurnar hafði ég nýlokið við ævisögu gítarsnillingsins Ace Frehley ... fyrrum gítarleikara KISS. Hann kom dýrðinni fyrir á rúmum 300 bls. sem ekki tók mjög langan tíma að rúlla í gegnum.

Þessi saga hans er nú mjög áþekk sögum annarra tónlistarmanna sem leiðast út í drykkjuskap og dópneyslu.

Það sem mér þótti samt merkilegast í þessari bók var hversu fljótt Ace fékk leið á því að vera í KISS. Ég hélt að það hefði ekki verið fyrr en í kringum 1980 en það var strax í lok árs 1975, aðeins tæpum þremur árum eftir að bandið var stofnað. 

Ástæðuna segir hann hafa verið hversu "business-orienteraðir" félagar hans í hljómsveitinni hafi verið. Meiri áhersla á "business" og "show" en á tónlistina.

---

En svo er það játningin ... eftir að hafa lokið við ævisögu Ace ákvað ég að fá mér Laxdælu á rafrænu formi. Það er víst hægt að fá hana ókeypis á einhverri síðu sem ég man ekki lengur hvað heitir.

Eftir að vera búinn að lesa rúm 10% af bókinni (í Kindle eru ekki blaðsíður heldur prósentur) gafst ég upp ... þetta er alveg hrútleiðinleg saga. 

Endalausar nafnarunur, lýsingar af einhverjum atburðum og ferðalögum sem segja manni ekki neitt, og svo eru bara allir orðnir fúlir og þá byrja menn bara að drepa hvern annan. Frábær söguþráður.

Það má auðvitað ekki tala svona um þessar þjóðargersemar sem Íslendingasögurnar eru ... æi ég veit það ekki. Það eru bara sumir hlutir þannig að það rúmast bara ein skoðun. Sé maður á öndverðum meiði þá er maður bara "menningarsnauður fáráðlingur".

Annars get ég ekki séð menninguna í því að lesa um fólk sem útkljáir flestar ef ekki allar sínar deilur með því að drepa hvert annað. Ég held að það væri nú nær að setjast bara niður og ræða málin af einhverju viti ... en nei, nei ...

... ég er bara orðinn afskaplega þreyttur á hversu drápum, vopnaburði og stríðsrekstri er gert hátt undir höfði. Sjónvarp, útvarp, blöð, video, tölvuleikir, bækur o.s.frv.
Ég skil bara ekki þessa tilhneigingu hjá fólki að sogast að þessum hlutum. Vinsælustu bækurnar á Íslandi fyrir jólin var annars vegar hryllingssaga og hins vegar sakamálabull.

Ég held bara að þetta geti ekki verið hollt ... 

Persónulega nenni ég aldrei að horfa á stríðs-, sakamála- eða glæpamyndir, nenni alls ekki að lesa þessar bókmenntir (að undanskildum þessum 10% af Laxdælu) og nenni alls ekki að lesa, horfa eða hlusta á stríðsfréttaflutning eða fréttir af glæpum, morðum eða einhverju viðlíka ... 

Svo er sumt fólk sérlegt áhugafólk um orrustur, vopn, skriðdreka, orrustuflugvélar o.s.frv. ... frábært að sjá og vita til þess að verið er að framleiða vélbyssu sem getur skotið 200 skotum á sekúndu í 10 mínútur samfleytt ... eða eitthvað álíka ...

Æi ... nú er ég kominn út í það að vera að dæma aðra ... sem sagt út í tómt rugl ...

... en Jan Gehl er góður ... alveg djöfulli góður ... !! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband