Þriðjudagur 17. janúar 2012 - Lykt, uppþvottavél og kaflaritun

"Mmmmm ... góð lykt!" sagði dóttirin þegar hún gekk inn í ruslageymslu hverfisins í kvöld. 
"Ha?!" sagði ég.
Hún endurtók sömu setninguna.
Ég hristi hausinn. "Jæja ... þú segir það!"

Já, það er óhætt að segja að hlutirnir birtist börnum og fullorðnum með ólíkum hætti.
Þessi "góða" lykt var hæfileg blanda af lykt upp úr gömlum bjórdósum, 100 kg af lífrænum úrgangi, almennu heimilissorpi, dopíu af pappa og einhverju fleira jukki.

... en hún um það. 

---

Það er ekkert sem vekur viðlíka kátínu hjá mínum gervilega syni og þegar uppþvottavélin er opnuð.

Óðara og maður lýkur vélinni upp, skríkir hann af fögnuði og kemur æðandi að á fjórum fótum. Svo reisir hann sig upp á endann með hjálp hurðarinnar og djöflast í þvottagrindunum og/eða leirtauinu, þannig að maður má hafa sig allan við ef ekki á illa að fara.

Maður getur sannarlega sagt að það þarf ekki mikið til að gleðja blessað barnið.

---

Síðustu daga hef ég verið að rita kafla í bók, sem gefin verður út í Þýskalandi fljótlega og mun kaflinn því verða þýddur yfir á þýsku. Efni kaflans er að sjálfsögðu umhverfissálfræðilegt og mun kaflinn (enska útgáfan auðvitað) verða hluti af doktorsverkefninu mínu.

Þetta doktorsverkefni er alveg að verða eitthvað sem maður getur verið ánægður með. Einn bókarkafli og þrjár rannsóknargreinar, plús inngangur og niðurstöður. Svei mér þá ...

Ritunin hefur verið ofurlítill hausverkur, því kaflinn á að vera um aðdraganda þeirra rannsókna sem ég hef unnið að á síðustu árum. Það er svolítið erfitt að vinna þannig að maður þarf eiginlega að vinda sér svona þrjú ár aftur í tímann og láta sem maður viti ekki margt af því sem maður veit núna. En í morgun náði ég utan um verkefnið þannig að aðeins á eftir að reka smiðhöggið ... það verður gert á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband