Miðvikudagur 19. október 2011 - Tognun, taktík og úlnliðshreyfingar

Þetta er nú farið að verða aðeins pirrandi ... þessi andskotans meiðsli í kringum þennan fótbolta ...

Maður er bara alveg stanslaust á meiðslalistanum. Í kvöld tókst mér að togna í kálfanum. Það var bókstaflega ekkert að gerast í leiknum og þá bara tognun.

Í síðustu viku tognaði ég í hælnum(?!?) einmitt þegar ekkert var að gerast í leiknum ...

Þar á undan var ég búinn að vera að díla við brákað rifbein síðan í september.  Þar á undan var það eitthvað annað sem ég man ekki lengur hvað var. 

Það sem er þó aðeins merkilegt í þessu öllu saman er að allt þessa vesen er vinstra megin ... það má allavegana hafa gaman af því ...

Flestir sem heyra af þessu vita skýringuna á þessum þrálátu meiðslum og finnst ekkert sérstaklega leiðinlegt að láta hana flakka beint framan í fésið á mér. Skýringin er svona: "Þú ert orðinn gamall!" 

Því neita ég auðvitað ... 

---

Ég fór með Gudduna í leikfimitíma í dag. Hún stóð sig bara alveg ágætlega enda var hún rekin áfram með minni hörðu hendi. 

Reyndar þurfti ég aðeins að taka á því að reyna að fá hana til að komast í gang. Þó ég sé alfarið á móti því að setja börnum afarkosti eða hóta þeim, þá var ég orðinn svo rökþrota á tímabili vegna aðgerðaleysis hennar að ég sagði að ef hún ætlaði ekkert að gera í tímanum, þá myndum við bara fara heim umsvifalaust.

Þessi ráðagerð gjörsamlega snerist í höndunum á mér því GHPL varð eitt sólskinsbros í framan við að heyra þessi tíðindi og vildi ólm fara heim.

Ég þurfti því að upphugsa hratt nýja taktík ... og hún virkaði.

---

Svo má segja þær fréttir af honum nafna mínum að hann er að uppgötva á sér úlnliðina þessa dagana. Hann horfir því dolfallinn á hendurnar á sjálfum sér snúast í hringi um úlnliðina ... og virðist ekki gera sér neina grein fyrir því að það er hann sjálfur sem er að framkalla þessi galdraverk. 

Kostuleg sjón, vægast sagt.

---

Jæja, það er ekki hægt að skrifa bloggfærslur í alla nótt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband