Fimmtudagur 13. október 2011 - Fréttir af GHPL

Það er lúsagangur á leikskólanum hjá GHPL ... og í kvöld skipaði hjúkrunarfræðingurinn á heimilinu öllum, nema Þristinum, að fara í kembingu.

Sjálfur var hjúkrunarfræðingurinn algjörlega sannfærður um að vera grálúsugur og sérstaklega eftir að hafa séð lús stökkva á lúsakambinn og svo af honum aftur.
Seinna komst hann reyndar að því að lýs stökkva ekki ... sjálfur er ég löngu hættur að reyna að ræða þetta mál.  

---

Guddan fór í danstíma í dag. Þróunin á þeim vígstöðvunum er bara niður á við. Í dag neitaði hún með öllu að fara inn í salinn þar sem danstíminn fór fram. Þess í stað sat hún bara frammi með móður sinni og beið eftir að tímanum lyki.

"Tilgangslausasta ferð ever!!" sagði móðirin þegar ég opnaði fyrir þeim dyrnar við heimkomuna. Guddan var alsæl og sagðist "ekki kunna að dansa" þegar ég spurði hana út í "þátttökuleysið".
"Það er nú einmitt tilgangurinn með að fara í danstíma ... að læra að dansa" sagði ég en hún nennti ekkert að ræða þetta neitt meira og sagði bara "horfa á sjónvarpið". 
Málið var þar með afgreitt.

En svo eftir kvöldmatinn þá allt í einu, eins og þruma úr heiðskíru lofti, byrjar hún að syngja og dansa prógrammið sem er verið að kenna í dansskólanum. "Höfuð, herðar, hné og tær" í sænskri útgáfu ... eins og vænta má og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna.

---

Ástandið var eitthvað svipað í leikfimitímanum í gær. Meginmunurinn var þó sá að hún tolldi inn í salnum meðan tíminn fór fram. Virknin var nú samt eitthvað í minna lagi.
"Alltof mikil hlaup" sagði móðirin eftir tímann "og svo ráða stelpurnar bara ekkert við þetta ... tvær með einhverja 15 krakka."

Guddan vildi nefnilega ekki hlaupa í tímanum vegna þess að í tímanum fyrir viku var hún "klukkuð" dálítið harkalega af einhverri stelpu. Sú meðferð fór illa í dótturina og hætti hún allri þátttöku í kjölfarið.

---

Við ræddum þessa "óvirku þátttöku" við kennarana hennar í foreldraviðtalinu í morgun.  Þær sögðu að hún væri mjög virkur þátttakandi í öllum aðgerðum þar. Að vísu hefði hún skoðanir í mörgum tilfellum og færi sínar eigin leiðir ef svo bæri undir.

Sérstaklega er hún víst áhugasöm í hóptímum þar sem skordýr eru skoðuð en einnig sögðu kennararnir að þegar væri farið í göngutúr þá legði GHPL ríka áherslu á að stoppað væri hjá einu tilteknu tréi. Ákveðnin í þeirri stuttu væri slík að eiginlega væri hópurinn skikkaður til að ganga að trénu ef ekki ætti að hleypa öllu upp í loft.


Guddan í dansdressinu. 

Á morgun verða svo sagðar fréttir af PJPL. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband