Föstudagur 2. september 2011 - Klipping og fyrsta máltíðin

Þá eru hlutirnir teknir að skýrast ... það er óhætt að segja að það sé nóg framundan ...

Þann 25. september fer ég til Eindhoven í Hollandi á ráðstefnu og verð með erindi þar ... sem verður skemmtilegt.  Frá Hollandi verður svo haldið til Íslands, þar sem ótal verkefni bíða mín og þaðan mun ég svo fara aftur til Svíþjóðar í byrjun október.

Svo verður gerð önnur atlaga og farið aftur til Íslands í lok október til að takast á önnur verkefni. 

Í millitíðinni þarf ég að vinna að greina- og fyrirlestraskrifum ... ég myndi eiginlega segja að stundaskráin sé að verða full, því svo þarf auðvitað að sinna fjölskyldu, vinum, fótbolta og tónlist. 

---

Í gær fór GHPL í klippingu í fyrsta skiptið á ævinni ... tja ... reyndar ekki í fyrsta skiptið.  Þetta var í annað skiptið en hinsvegar í fyrsta skiptið sem hún fór í klippingu og fékk klippingu.

Sú var nú heldur betur lukkuleg áður en farið var af stað.  Tilkynnti öllum, kunnugum sem ókunnugum hvert ferðinni væri heitið og hvað ætti að gera.

Hún settist hróðug í stólinn hjá rakaranum, sagði honum hvað stæði til, sagði konu sem kom inn á rakarastofuna einnig hvað væri í pípunum og svo var lagt í 'ann.

Allt gekk vel til að byrja með ... eða allt þar til klipparinn fékk þá flugu í höfuðið að úða vatni yfir hárið á henni.
Já, nei, nei ... hingað og ekki lengra ... þetta hafði GHPL ekki hugsað sem hluta af dílnum.  Hún algjörlega útilokaði frekari aðgerðir, reif af sér svuntuna og bjó sig til heimferðar.
Eftir miklar sáttatilraunir fékkst hún þó til að setjast aftur í stólinn ... en þá bara með þeim skilyrðum að hún myndi ekki hafa neina svuntu framan á sér og enga vatnsúðun - takk!! 

Af mikilli varfærni hélt klipparinn áfram starfi sínu og í þetta sinnið var vatni sprautað í greiðuna og hún svo borin ofurgætilega í hárið.
Þessi aðferð gekk allsæmilega þar til sú stutta fékk nóg ... ástæða þess var að svo mikið af hári var komið inn undir nærbolinn hennar að ómögulegt var að sitja kyrr ...

Aðgerðum var hætt áður en upp úr sauð ... dóttirin fékk afslátt af klippingunni því verkinu var langt frá því að vera lokið og toppurinn rammskakkur ...

Því miður hefur algjörlega láðst að taka mynd af hinni nýklipptu dóttur ... en það kemur ... 

---

Nafni er búinn að haga sér vel í dag ... eins og nánast alltaf ... hann fæst mest við að rúlla sér af baki yfir á maga og öfugt ... eða minnsta kosti reyna það.

Jú, og svo hámar hann í sig ávaxtamauk ... en slíkt er nú leyfilegt að gefa honum ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband