Föstudagur 13. maí 2011 - Í kennslustund hjá Guðna

Ég hef, á síðustu dögum, verið að lesa bók eftir hann Guðna Gunnarsson ropeyoga-frömuð, sem heitir Máttur viljans.

Í bókinni, allavegana þangað sem ég er kominn á þessari stundu, er egóið miðpunkturinn ... og það ekki af góðu enda mesti spillir lífshamingju og ánægju sem fyrirfinnst.

Guðni ræðir um hvernig egóið sem hann reyndar kallar réttilega "skortdýrið" kvartar og kveinar, gagnrýnir og hræðir.  Það heldur "húsbónda" sínum í heljargreipum í mörgum tilfellum gegnum allt lífið ... sparkar í hann liggjandi hvað eftir annað.

Það þekkja þetta allir ... þessa rödd sem maður "heyrir" innra með sér ... röddin sem lætur mann svo sannarlega kenna á því þegar manni verður á í messunni, reynir að draga úr manni kjarkinn á örlagastundu, klappar manni ofurlítið á bakið þegar maður hefur lokið góðu verki eiginlega bara til þess eins að geta stuttu síðar sagt að frammistaðan hafi svo sem verið ágæt en nú verði að halda áfram. Og svo framvegis ...

Ef egóið byggi ekki innra með manni heldur væri önnur manneskja holdi klædd ... þá er alveg á hreinu að sú manneskja yrði sett út fyrir útidyrnar ... einfaldlega vegna þess að hún væri of leiðinleg til að hafa nálægt sér. 

En svo einföld lausn stendur ekki til boða ...

---

Til að takast á við egóið, segir Guðni að mikilvægt sé að "taka ábyrgð á lífi sínu" ... taka ákvarðanir um þá hluti sem skipta mann máli, finna tilgang með gjörðum sínum og hafa skýr markmið.  Að horfast í augu við það að maður er á þeim stað sem maður er, vegna þess að maður valdi að fara á þann stað.  Vilji maður eitthvað annað þá þarf maður að velja eitthvað annað. 

Hann talar líka um mikilvægi fyrirgefningarinnar og þá sérstaklega að fyrirgefa sjálfum okkur fyrir allar barsmíðarnar sem egóið sem býr innra með okkur, hefur staðið fyrir.

Þá er mikilvægur hlutur að dæma ekki aðra, enda er enginn með þá yfirsýn sem þarf til að geta dæmt aðra ... áhugaverður punktur þetta ;) .

--- 

Ég tek þennan boðskap Guðna alvarlega ... enda finnst mér hann allrar athygli verður.  

Ég hef t.d. einblínt á dóma mína ... og komist að því að ég er dómharður.  Sem ég reyndar hélt að ég væri ekki.  En jú, ég er dómharður.
Og þess vegna hef ég ákveðið að taka klukkustund og klukkustund þar sem ég leyfi mér ekki að dæma aðra ...

... og þvílíkur léttir!!

Það sem nefnilega gerist er að þegar maður hættir að dæma aðra, þá hættir maður að hafa áhyggjur af því að aðrir séu að fella dóma um mann sjálfan. Maður hættir að vera hræddur og maður hættir því að fóðra egóið.

---

Ég hef líka tekið hraustlega á ákvörðunum mínum.  Ég hef hingað til haldið að ég væri alltaf með allt undir minni stjórn ... en þegar ég rýni í það, þá er nú bara annað upp á teningnum.

Ég hef nefnilega verið "þræll" vinnu síðustu misseri ... þar sem vinnan stjórnar tíma mínum en ekki öfugt.

Vinnutarnir á hverjum degi sem teygja sig upp í 14 - 15 klst og nánast allt annað situr á hakanum.  Öll þau viðfangsefni sem mig langar að fást við fá lítinn sem engan tíma, s.s. vera með Laugu, Guddu og stubb, söngur, vatnslita- og akrýlmálun, gítarspil, útivist og svona mætti áfram telja. 

Ég er nefnilega illa haldinn af "þegar-veikinni" ... sem lýsir sér þannig að "þegar ég er búinn að þetta þá ætla ég að gera þetta".  Þessi veiki er stórhættuleg og mikill ánægju-spillir.

---

Ég er að fara í uppskurð á mínu lífi ... ég ætla að fara að ráðum Guðna og "taka ábyrgð á lífi mínu". 

Og ég hvet alla til að gera hið sama ... sérstaklega þá sem stunda þann blekkingarleik að telja sig "taka fulla ábyrgð á sínu lífi".

Í flestum tilfellum er vandalaust að fletta ofan af þeim blekkingum ...   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott hjá þér Bobbi. Er búin að vera á leiðinni að lesa þessa bók - nú læt ég verða að því!

Linda (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 00:05

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Líst vel á það :)

Páll Jakob Líndal, 14.5.2011 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband