Þriðjudagur 19. apríl 2011 - Leibbi fer á kostum

Jæja þá hefur Leifur frændi minn verið lagður til hinstu hvílu. Það er alveg ótrúlega skrýtið ... en svoleiðis er það nú samt.

Ég sendi inn ofurlítinn greinarstúf í Moggann sem ég ætlaðist til að birtist í blaðinu í dag. Það gekk ekki eftir og súrnaði allhressilega í síðuhaldara við þá uppgötvun. Vona að það gangi eftir á morgun.

En ég hef verið með hugann hjá Leibba í dag og Lauga ákvað að við myndum kveðja karlinn með því að fara út að borða í hádeginu og fara svo á kaffihús síðdegis.  Minna mátti það varla vera.

---

Leibbi frændi var kynlegur kvistur.  Í bestu merkingu þeirra orða.  Hann vakti hvívetna athygli fyrir "öðruvísi" framkomu og tilsvör ... en hann var alltaf bara hann sjálfur ... hann var Leifur Vilhelmsson.

Leibbi spurði spurninga ... stundum margra spurninga.  Mér er t.d. mjög minnistætt þegar Lauga hitti Leibba í fyrsta skiptið síðla árs 1996.

Við Lauga fórum vestur í Hofgarða. Við vorum varla komin inn fyrir þröskuldinn þegar Leifur leit á mig og sagði: "Farðu fram í eldhús að tala við Sæunni (konu hans) ... ég þarf að tala við Sigurlaugu.
Svo fóru þau inn í stofu og þriðju gráðu yfirheyrsla hófst.

Leibbi rakti úr Laugu garnirnar meðan hann gekk í hringi um stofugólfið og í hvert sinn sem ég birtist til að kanna hvort ekki væri allt í lagi brást hann snarlega við: "Svona ... vertu frammi ... ég er að tala við hana." Svo sneri hann sér að Laugu og sagði svolítið lægra og hálfhneykslaður: "Það er bara varla hægt að tala saman. Það er ekki nokkur friður fyrir stráknum!"

Lauga sagði mér eftirá að hún hefði haft mjög gaman af yfirheyrslunni, þó hún hefði ekki getað svarað helmingnum af því sem Leifur spurði að.  "En honum var alveg sama um það" sagði hún og kímdi. Frá og með þessu kvöldi hófst óslitin og trygg vinátta þeirra á milli.

---

Við Leibbi áttum óteljandi spretti saman og margir þeirra voru hreint stórkostlegir. 

Síðasti alvöruspretturinn sem við tókum í sameiningu var þann 30. júlí 2009 um mánuði áður en Leifur fékk heilablóðfall sem markaði upphafið að endalokunum.

Þennan dag var ég staddur upp í sumarbústað fjölskyldunnar í Borgarfirði og sárvantaði startkapla. Eins og oft áður hringdi ég í Leibba til að tékka hvort hann gæti reddað mér.  Leibbi átti nefnilega sumarbústað steinsnar frá okkar bústað.

Símtalið var stutt. Ég bar upp erindið og hann sagði: "Komdu!!"

Þegar ég kom til hans var hann í óðaönn að finna út úr hlutunum. Sótbölvaði því að hafa skilið startkaplana sína eftir í Reykjavík. "Þetta er náttúrulega alveg rosalegt með hana Sæunni ... maður fær bara aldrei að hafa neitt í friði fyrir henni!! Jæja ... við verðum að hringja í hann Sigga og athuga hjá honum!

Siggi gat reddað köplunum en vandinn var að hann var ekki heima.  "Þið verðið bara að tala við konuna og láta hana redda ykkur!"  Og þar með byrjaði ballið.

Við ókum inn á Hvanneyri og heim til Sigga.  Þegar við renndum í hlaðið sáum hvar "grillreykur" steig upp aftan við húsið. "Hún er bakvið hús" sagði Leifur. Hann stökk út úr bílnum, gekk framhjá aðaldyrunum með hendur fyrir aftan bak og niður fyrir húshornið. Stuttu síðar heyrði ég hann kalla "HALLÓ, HALLÓ!!  ENGINN HEIMA!??!" Ég flissaði þar sem ég sat í bílnum.

Í sömu mund sé ég hreyfingu innandyra og brátt opnuðust aðaldyrnar. Húsfreyjan (þ.e. kona Sigga) skimaði í allar áttir en sá engan. Hún lokaði aftur en í sömu andrá kom Leifur aftur fram fyrir húshornið. Í þetta skiptið æddi hann inn um aðaldyrnar og lokaði á eftir sér.  Ég sá inn um gluggana hvar hann fór inn í stofuna að leita að húsráðanda en án árangurs.

Ekki kom þessi árangurslausa leit hans mér á óvart því meðan Leifur ranglaði um í stofunni, birtist húsfreyjan aftur.  Í þetta sinn stóð hún í bílskúrsdyrnum en augljóslega var innangengt úr íbúðinni í bílskúrinn. Líkt og áður skimaði hún í allar áttir en sá hún engan. Hún lokaði því dyrunum.

Um leið og bílskúrshurðin féll að stöfunum opnuðust aðaldyrnar og Leifur steig út. Hann hafði augljóslega gefist upp á því að finna nokkurn innandyra. Hann gekk að bílskúrsdyrunum, þar sem húsfreyjan hafði verið nokkrum andartökum áður, í þeirri von að vera einhvers vísari.  Á sama tíma sá ég í gegnum gluggana að húsfreyjan gekk hröðum skrefum í áttina að stofunni. Leifur opnaði bílskúrsdyrnar og fór inn. Þá var húsfreyjan farin að hringsnúast inni í stofunni þar sem karlinn hafði hringsnúist nokkru áður.

Víst má telja að Leifur hafi gert lokatilraun til að finna einhvern með því að kalla þar sem hann var staddur inni í bílskúrnum. Alltént sá ég að húsfreyjan tók undir sig stökk og dreif sig aftur fram í bílskúrinn.  En áður en hún náði þangað var Leifur kominn út aftur og búinn að loka á eftir sér.  Hann gekk í áttina að bílnum og gaf mér bendingu um að skrúfa niður rúðuna.

"Ég bara finn ekki startkaplana ... það virðist ekki nokkur maður heima" sagði hann við mig.  Ég kom ekki upp orði fyrir hlátri. "Haaaaaaaa ... ?!?" sagði Leifur og kímdi "hvers vegna ertu að hlæja?"

Ég benti á bílskúrsdyrnar. Þar stóð þá húsfreyjan með startkaplana í hendinni.
"Nú það er þá einhver heima?!" Leifur gekk til konunnar, heilsaði með virktum og þakkaði kærlega fyrir lánið.
"Við skilum þeim aftur!!" kallaði hann þegar hann settist upp í bílinn.

"Jæja ... þetta gekk nú ekki þrautalaust!!" sagði hann.

Við ætluðum aldrei að komast heim aftur úr þessari svaðilför, svo mikið hlógum við ...

---

Já, það er svo sannarlega sjónarsviptir af honum Leibba frænda ... rosalega sakna ég hans!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær lesning. Ég kynntist honum aðeins í gegnum ykkur og kunni einstaklega vel við hann - mjög svo gaman að spjalla við Leif og spá og spekúlera með honum í ólíklegustu hluti. Ég samhryggist ykkur mín kæru.

Stjóri (IP-tala skráð) 20.4.2011 kl. 02:10

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Takk kærlega fyrir kveðjuna :)

Páll Jakob Líndal, 20.4.2011 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband