Miðvikudagur 2. febrúar 2011 - Neitun og offita

Ég er sannfærður um að ekkert barn hefur, miðað við aldur, sagt jafnoft "nei" og Guðrún.

Það er nánast sama hverju maður spyr hana að ... svarið er iðulega "nei".

Fyrir réttu ári skrifaði ég færslu hér á síðuna sem fjallaði einmitt um það þegar GHPL var að byrja að segja "nei" ... síðan þá hafa nei-in verið sögð.

Þar með er ein "uppeldiskenningin" mín fallin. Hún gekk út á það að börn vendu sig á að segja "nei" vegna þess að foreldrar þeirra væru alltaf að segja "nei" við þau.  T.d. þegar er verið að banna að gera hitt og þetta ... "nei, nei, nei ... ég sagði nei, ekki gera þetta ... nei, hættu, nei ... (o.s.frv)". 

Málið er nefnilega að við Lauga höfum lagt okkur sérstaklega fram við að segja ekki "nei" við stubb. Finna frekar einhver önnur orð en allra helst reyna að fá hana til að fókusera á eitthvað annað en það sem við viljum ekki að hún sé að gera.  

Niðurstaðan ... mesti "nei-ari" í heimi. 

Samt segir nú máltækið að "börn læri það sem fyrir þeim er haft" og því erum við ekki af baki dottin ... þessu verður haldið áfram ... og einn góðan veðurdag mun allt snúast við og mesti "já-ari" í heimi stígur fram. 

---

"Bissí"-dagur.  Skrapp meðal annars til læknis ... í heilsutékk.

Fróðleg heimsókn í marga staði. T.d. fékk ég að vita að ég hef hækkað um 1 cm síðan ég mældi mig síðast ... er nú kominn í 184 cm. Það er af sem áður var þegar ég var minnstur í bekknum ... seisei ...

Í annan stað fékk ég að vita að ég væri andskoti þungur ... sem ég vissi reyndar ...

Og í þriðja lagi fékk ég að vita að ég glími við "offitu" enda er BMI-talan hjá mér yfir 30. Ég gat nú samt ekki varist brosi, því ég held að fæstir sem hafa séð mig nýlega myndu kvitta undir að ég glími við offitu.

Hvað getur maður samt sagt þegar tekin er svona mynd af manni? 

 

---

En þessi BMI niðurstaða kom lítið óvart enda hef ég tekið allhressilega til í mataræðinu hjá mér síðustu vikurnar.

Svo þarf að fara að bæta við hreyfinguna ... 70 mínútna fótbolti 2x í viku er greinilega ekki nóg.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður hlunkur! Ef ég hef reiknað þetta rétt ert þú amk 102 kg ... sem er náttúrulega vel í lagt en ég sé þig nú samt ekki fyrir mér sem offitusjúkling. Þessi stuðull tekur ekkert tillit til vöðvamassa en ef ég man rétt ert þú bæði massaður og stórbeinóttur með afbrigðum

Stjóri (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 01:06

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Stjórinn er með þetta kórrétt ... upp á gramm ... "102 kg" sagði læknirinn. Auðvitað mjög vel í lagt :)

En ég er, eins og réttilega er bent á, bæði massaður og stórbeinóttur ... það sjá allir sem vilja sjá ...

Páll Jakob Líndal, 8.2.2011 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband