Þriðjudagur 28. september 2010 - Um hugrænt misræmi

Jæja ... þá er Geir Haarde kominn í góð mál ...

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það sé að horfa á eftir ævistarfinu svona lóðrétt ofan í klósettið ... vera búinn að djöflast í því að komast í framvarðasveit stjórnmálanna árum saman, trúa á einhverja hugmyndafræði, verða svo karlinn í brúnni ... 

... og svo bara búmm ... skipið sokkið og allt horfið, allir brjálaðir ... og leiðin liggur í dómsal fyrir hafa sýnt refsiverða vanrækslu ...

Þetta hlýtur að vera hræðilegt ...

---

Það hlýtur bara að vera alveg rosalegt þegar maður trúir á eitthvað, sko virkilega trúir að tiltekin hugmyndafræði sé hin rétta ... og svo bara tæmist blaðran á augabragði ... heimsmyndin hrynur til grunna ...

... og það stendur ekki steinn yfir steini.

--- 

Það er til mjög athyglisverð sálfræðikenning sem fjallar um hvað gerist hjá fólki í svona aðstæðum.  Hugmyndasmiður hennar er Leon Festinger og kallast hún "kenningin um hugrænt misræmi" (cognitive dissonance) og kom hún fyrst fram árið 1956.

Kenningin er kynnt sálfræðinemum í HÍ strax á 1. önn enda ein sú alsnjallasta sem komið hefur fram á þessu sviði. 

--- 

"Hugrænt misræmi" er óþæginleg tilfinning sem skapast þegar viðhorf eða skoðanir einstaklings á tilteknum tímapunkti stangast á eða þegar hegðun einstaklings á tilteknum tímapunkti stangast á við viðhorf og skoðanir hans.  

Kenningin um "hugrænt misræmi" gengur út frá því að fólk finni hjá sér sterka hvöt til að draga úr "misræminu", með því að breyta viðhorfum sínum, skoðunum og atferli.  En úr "misræminu" má einnig draga með því að réttlæta, gagnrýna, kenna öðrum um og neita sök.

Dæmisaga Esóps um refinn og súru berin er t.d. klassískt dæmi.  

Refinn langar í ber, en þau hanga svo hátt uppi að hann nær ekki til þeirra.  
(Hér eru komnar tvær mótsagnakenndar hugmyndir sem leiða af sér neikvæðar tilfinningar)

Refurinn telur sér trú um að berin séu súr og þau skipti hann engu máli.
(Breytt viðhorf til að breyta neikvæðum tilfinningum í jákvæðar)  

---

Eins og segir hér að ofan þá hefur fólk sterka þörf fyrir að draga úr "misræminu" og við öll dettum í það far við og við að réttlæta, kenna öðrum um og neita sök.

Í þessu ljósi er athyglisvert að horfa á viðbrögð allra helstu aðalleikara íslensks samfélags í aðdraganda hrunsins.  Hvernig þeir gjörsamlega óaðvitandi renna enn styrkari stoðum undir kenningu Festinger með því að réttlæta með kjafti og klóm eigin gjörðir, neita sök, gagnrýna aðra og kenna öllu öðru um.

Ég er viss um að Festinger hefði orðið glaður, svona faglega séð, ef hann hefði heyrt Geir Haarde segja í Kastljósinu í kvöld, skýrt og skilmerkilega: Hrunið var bönkunum að kenna! 

Einn plús í kladdann í viðbót ...  

Það er sjálfu sér stórkostlegt hvað mannskepnan er að mörgu leyti einföld ... þó hún haldi oftast hinu gagnstæða fram ...

--- 

Stundum spái ég í því hvort einn daginn verði hægt að binda hegðun og hugsanir fólks niður í lögmál ... ekki óáþekk þeim sem gilda t.d. í eðlis- og efnafræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband