Mánudagur 7. júní 2010 - Guddan 2ja ára í dag!!

Jæja ... þá á barnið afmæli í annað sinn á ævinni ...

Það er voðalega gaman og mikil blessun að hafa haft tækifæri á að kynnast þessum frábæra einstaklingi, sem dóttirin hefur að geyma. 

Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og fara yfir helstu atriði ársins.  Til að auðvelda þá yfirferð er hér heilmikið myndband ...

Svo er auðvitað við hæfi að fara yfir nokkrar staðreyndir um Gudduna.

1. Á öðrum afmælidegi sínum er Guddan altennt.  Lengi vel létu tennurnar á sér standa en ruddust svo niður hver af annarri á tiltölulega stuttum tíma á síðasta ársfjórðungi ársins 2009.

2. Guðrún er nokkuð víðförult barn og hefur dvalist í 9 löndum; Íslandi, Svíþjóð, Ástralíu, Hong Kong, Finnlandi, Álandseyjum, Póllandi, Nýja-Sjálandi og Englandi.  Hún hefur komið í 21 bæ eða borg.

3. Helst vill dóttirin ferðast um á hjóli, en stundum er kerran ágæt.

4. Hún er ekki farin að mynda margar setningar en getur þó sagt: "Ég sagði nei!" og "Hvað er þetta?"

5. Henni finnst skemmtilegast að hlaupa, æfa jafnvægið og lesa.

6. Á öðrum afmælisdegi sínum er Barbapapa í mestu uppáhaldi.  Sé horft á árið í heild sinni á Doddi þó vinninginn sem sá vinsælasti. 

7. Ávextir eru í uppáhaldi.  Epli eru það besta.

8. Við tveggja ára aldur vill Guðrún helst vera með móður sinni.  Föðurinn er hægt að nýta ef ekkert betra býðst.

9. Guddunni finnst miklu skemmtilegra að vera úti en inni.

10. Út í Svíþjóð er hún kölluð "Guddrun".

11. Það er bókstaflega ekkert sem slær út rúsínur og ís.  Athyglisvert er hversu vel rúsínur haldast á toppi vinsældarlistans, því þar hafa þær verið frá því sú stutta byrjaði að borða "fast fæði". 

12. Hestar eru í toppsæti dýravinsældarlistans, að því gefnu að þeir séu í hæfilegri fjarlægð.  Hundar eru í öðru sæti og kettir í þriðja sæti.

13. Guðrún hefur aðeins einu sinni verið þvegin með sápu.  Höfuðþvottur undanskilinn ... enda hefur hún það magnaða sið að nota hárið á sjálfri sér til að þurrka sér um hendurnar sérstaklega ef hún verður kámug við matarborðið. Einnig finnst henni gaman að mylja brauð og kökur í hárið á sér.

14. Á öðrum afmælisdegi sínum getur Guðrún bent á "stafinn sinn" þ.e. bókstafinn "G".  Einnig þekkir hún H og V.  Rámar í A á góðum degi.
Þessi mikla hæfni er þó langt frá því að vera algild, því hún þekkir aðeins þessa stafi þegar hún skoðar "Allting rund omkring" eftir Richard Scarry.  

15. Guddan hefur aðeins einu sinni grátið þegar hún hefur verið skilin eftir á leikskólananum.  Á tveggja ára afmælinu sínu vill hún ekki einu sinni láta leiða sig inn á skólalóðina. 

16.  Dóttirin þekkir næstum alla skólafélaga sína og alla kennara með nafni.  Með því að nefna nafn einhvers nemanda getur hún nánast óhikað bent á viðkomandi á "bekkjarmyndinni" sem hangir frammi á gangi.  Henni finnst samt skemmtilegast að benda á Susanne, sem er kennari við skólann og segja nafnið hennar "Súsann".

17. Guðrún þarf ekki að heyra nema nokkra takta af tónlist svo hún byrji að dansa.

18. Þeirri stuttu finnst gott að vera í lopapeysu en þó aðeins að peysan sem hún klæðist innan undir hindri að lopapeysan stingi. 

19. Guddan er mjög heitfengt barn.  Er gjarna löðursveitt þegar hún sefur.

20. Á árinu hefur blessað barnið ekki fengist til að sofa eina mínútu í rúminu sem keypt því til handa.  Ákvörðun hefur verið tekin um að setja rúmið í söluferli. 

21.  Á ferðum sínum um bæinn vekur dóttirin athygli vegna þess að hún er höfð í beisli.  Slíkt er afar sjaldséð en Guddunni líkar vel við beislið og vill gjarnan hanga í því við dræmar undirtektir foreldra sinna. 

22.  Þegar svæfa á blessað barnið eru tvær aðferðir mögulegar.  Önnur tímasparandi og hin tímafrek.  Sú fyrrnefnda er að setja með hana fyrir framan tölvuna og horfa á tónlistarmyndbönd á YouTube á meðan maður hossar henni með fætinum.  Síðarnefnda aðferðin er að fara inn í rúm með hana, lesa fyrir hana margar bækur, segja henni svo undirblíðlega að fara að sofa og strjúka bakið eða fæturna meðan hún sofnar.  Faðirinn notar fyrri aðferðina, móðirin síðari. 

23. Guddan mætir alltaf á leikskólann milli kl. 9 og 10.  Hún fer svo heim rétt eftir kl. 16.

24. Guðrún telur að það geti enginn annar hringt í Skype nema amma á Sauðárkróki.

25. Guddunni finnst ekki gaman að fara í bað og ekki finnst henni gaman að láta skipta um bleyju.

26. Aðspurð segist Guðrún að henni finnist mjög gaman að eiga afmæli ... svar hennar við spurningunni er nákvæmlega svona: "ahhhhhh" og það jafngildir "já-i".

27. Þrátt fyrir svarið má telja nokkuð víst að dóttirin hefur ekki hugmynd um að hún eigi afmæli í dag. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju með dótturina elsku Palli og Lauga. Dekrið nú við dúlluna :) Hafið það gott.

Þóra (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 13:46

2 identicon

Til lukku með skvísuna !!! við höldum uppá afmælið á fimmtudaginn !! knús og kram

Abba (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 14:39

3 identicon

Hæ hæ!

          Rosalega hefur barnið breist á einu ári!

           Gaman að þessu.

Steinunn og Gunnar (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 21:25

4 identicon

Hjartanlega til hamingju með Guðrúnu Helgu.

Skemmtilegt myndband og gaman að sjá hvað hún hefur stækkað og þroskast.

Knús til ykkar

 Linda og fjölskylda

Linda (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 23:29

5 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Innilegar þakkir fyrir kveðjurnar!

Páll Jakob Líndal, 8.6.2010 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband