Þriðjudagur 20. apríl 2010 - Að fermast

Það gerist jafnan árlega og þá einmitt þennan dag, þ.e. 20. apríl, að það rifjast upp fyrir mér að ég á fermingarafmæli.

Já, það eru komin 23 ár síðan ég fermdist í Hallgrímskirkju ásamt nokkrum öðrum.  Ekki lítill áfangi það.

Sjá færslu um 21. árs fermingarafmæli hér, en þá keyptum við Lauga teppi í IKEA Sydney.  Ólíkt hafðist ég að í dag því ég hitti Terry Hartig leiðbeinanda minn í dag og við ræddum fram og aftur um verkefnið mitt.

En aftur að fermingunni ... eða öllu heldur að deginum fyrir ferminguna, þ.e. 19. apríl 1987.  Þann dag var ég skírður, enda ku það vera nauðsynlegt til að geta fermst. Ekki mátti það seinna vera.  Skírnarathöfnin var einföld, Kalli núverandi biskup en þáverandi prestur í Hallgrímskirkju jós mig vatni eftir að ég hafði sagt honum ég ætti og vildi heita. Punktur.  Svo fór ég út í fótbolta.

---

Áður en ég var skírður, hafði ég velt mér mikið fyrir mér hvort ég ætti að heita eitthvað annað en Páll Jakob Líndal ... helst datt mér í hug að heita Kristján, enda var þá Kristján Arason, þáverandi handboltastjarna og núverandi kúlulánaþegi, helsta stjarna Íslands.  Einnig datt mér í hug að hvort ekki væri vit í því að bæta nafninu Magnús inn í nafnarununa ...

Páll Jakob Magnús Líndal ... hljómar það ekki bara dásamlega?!?

Magnúsarnafnið var tilkomið af einlægri aðdáun minni á Magnúsi bónda í Steinnesi ...

Paul Stanley kom líka upp í hugann, enda merkti ég flestar skólabækur mínar á þeim tíma með því nafni, en ég mátti víst ekki heita það ... (Paul Stanley er söngvarinn í KISS, fyrir þá sem það ekki vita) ...

Þegar á hólminn var komið lét ég mér því nægja að heita það sem ég heiti nú í dag ... og er ég bara bærilega sáttur við það enn sem komið er.

---

En þá má spyrja sig af hverju blessað barnið var ekki skírt fyrr en daginn fyrir ferminguna?

Svarið við því er einfalt.  Karl faðir minn vildi endilega að ég ákveddi það sjálfur hvort ég vildi eitthvað með kristna kirkju hafa.  Honum fannst það hver maður þyrfti að ákveða sig sjálfur hvaða trú hann aðhylltist. 

Þetta er fullgilt sjónarmið að mínu mati, og þakka honum fyrir að gefa mér möguleika á vali.

---

Andspænis pabba, stóð svo amma, sem var honum eins hjartanlega ósammála og mögulegt var. 

Hún var af gamla skólanum og bað á hverju kvöldi guð almáttugan um að varðveita mig.  Og fyrir það ber að þakka. 

Það má því segja að ég hafi farið bil beggja ... því ég beið með hendur í skauti eins lengi og mögulegt var til að geta tekið eins viturlega og þroskaða ákvörðun og kostur var ... en ákvað svo að skírast og fermast ekki síst fyrir ömmu. 

... og hvort sem lesendur trúa því eða ekki ... þá skírðist ég og fermdist fyrst og fremst fyrir ömmu ;) .

... og það er ekki til fermingarmynd af mér ... ;) ... því miður ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband